*

miðvikudagur, 3. júní 2020
Huginn og muninn
11. apríl 2020 11:05

Allir nema Arion banki

Ríkisbankarnir og Kvika banki veita Icelandair ráðgjöf í krísunni vegna heimsfaraldursins.

Bogi Nils heilsar Degi B. Eggertssyni borgarstjóra á Mid Atlantic ferðakaupstefnunni í febrúar.
Eva Björk Ægisdóttir

Staða Icelandair er eins og gefur að skilja þröng enda hafa mörg lönd einfaldlega lokað landamærum sínum og flugsamgöngur milli landa nánast í mýflugumynd.

Flugfélagið náði þó að loka samningum um sölu á 75% hlut á Icelandair Hotels í síðustu viku. Þurfti félagið reyndar að gefa tæplega 1,5 milljarða afslátt af lokagreiðslunni en í staðinn var hún greidd strax en ekki í lok maí eins og ráðgert hafði verið. Samtals fékk Icelandair Group því um 6,5 milljarða fyrir söluna.

Í fyrradag barst síðan tilkynning um að Icelandair hefði fengið Íslandsbanka, Landsbankann og Kviku banka til ráðgjafar um það hvernig tryggja megi lausafjárstöðu félagsins til langs tíma. „Öll flugfélög heims standa nú frammi fyrir því krefjandi verkefni að styrkja rekstrargrundvöll sinn til framtíðar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. Segir hann vinnuna miða að því að lausafjárstaða að meðtöldum óádregnum lánalínum fari ekki undir 200 milljónir dollara á hverjum tíma. Í dag sé staðan enn vel yfir því viðmiði.

Það kemur ekki á óvart að leitað sé til ríkisbankanna enda komið skýrt fram að Icelandair vinni náið með stjórnvöldum í þeim hamförum sem ganga yfir. Þar að auki hefur Íslandsbanki verið viðskiptabanki Icelandair í gegnum árin og Landsbankinn veitti félaginu tæplega 10 milljarða lán fyrir tveimur árum gegn veði í tíu farþegaþotum.

Það er væntanlega klókt að hafa sem flesta með í þessari vinnu og því kemur heldur ekki á óvart að Kvika banki hafi komið að málinu með einum eða öðrum hætti. Það vekur hins vegar athygli að Arion banki sé ekki með. Hrafnarnir vita ekki hver ástæðan fyrir því er en vita hins vegar að bankinn er ansi brenndur af aðkomu sinni að flugrekstri og nægir þar að efna milljarða króna tap sem bankinn varð fyrir vegna gjaldþrots Wow air og Primera Air.


Skúli Mogensen hefur væntanlega sínar skoðanir á þessari þróun í dag enda talaði hann um lán Landsbankans til Icelandair í mars 2019 sem ríkisaðstoð. Lífið er líka stundum skrítið því Skúli var á sínum tíma stór hluthafi í MP banka, sem síðar varð Kvika banki og fyrir sjö árum bárust fregnir af því að hann hefði hug á að kaupa hlut í Íslandsbanka ásamt öðrum fjárfestum.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.