*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Andri Guðmundsson
21. apríl 2015 12:16

Allir sammála

„Er það rekstri þessara fyrirtækja til hagsbóta að skipta um stjórnir þegar kosið er til borgarstjórnar og Alþingis,“ spyr Andri Guðmundsson.

Frá Viðskiptaþingi.
Haraldur Guðjónsson

Viðskiptaþing var haldið venju samkvæmt á Hilton Nordica í febrúar sl. Þingið var vel sótt eins og síðustu þing og var efnið að þessu sinni rekstur hins opinbera. Maður dagsins var klárlega Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri. Ég held hann hafi komið flestum verulega á óvart með áhugaverðum fyrirlestri um viðfangsefni dagsins og svo var hann afskaplega fyndinn á köflum.

Þingið endaði á erfiðasta atriði dagsins: pallborðsumræðum með formönnum stjórnmálaflokkanna. Upplegg fundarstjóra var að fá formennina til að nefna breytingu í opinbera kerfinu sem allir (óháð stjórnmálaflokkum) gætu sammælst um.

Þetta upplegg vakti mig til umhugsunar. Mér virðist sem í opinbera kerfinu séu tvær gerðir af ráðningarferlum. Annars vegar opin ráðningarferli á grundvelli stjórnsýslulaga, hvar reynt er eftir bestu getu að fá hæfasta fólkið, með fyrirfram skilgreindum kröfum til umsækjenda á grundvelli starfslýsingar. Hins vegar höfum við pólitískar ráðningar þar sem stjórnmálamenn sjálfir eða einhverjir sem þeim dettur í hug að ráða, taka að sér störf í þágu almennings án, að því er virðist, nokkurs mats á hæfi viðkomandi til að gegna þeim störfum.

Svo dæmi sé tekið skipar borgarstjórn fulltrúa í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og ég fæ ekki betur séð en að þannig skipi einhverjir borgarfulltrúar sjálfa sig í stjórn fyrirtækisins. Þá virðist mér fjármálaráðherra skipa í stjórn Landsvirkjunar ekki síst á grundvelli flokksskírteinis. Eru þessar stöður auglýstar? Ég hef engin umsóknareyðublöð séð vegna þessara starfa og aldrei svo ég muni til, séð nokkurn rökstuðning fyrir þessum stöðuveitingum (annan en að viðkomandi tilheyri mögulega einhverjum stjórnmálaflokki).

Er með þessu móti tryggt að hæfasta fólkið sitji í þessum stjórnum? Er það rekstri þessara fyrirtækja til hagsbóta að skipta um stjórnir þegar kosið er til borgarstjórnar og Alþingis? Hvers vegna eru þessar stöður ekki auglýstar og hæfasta fólkið ráðið óháð pólitískum viðhorfum og prófkjörsárangri?

Ég hefði sagt þetta í pallborðinu: „Við erum öll sammála um að hætta pólitískum ráðningum. Ja öll … nema þá kannski stjórnmálamennirnir sjálfir.“

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.