Í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar segir að það sé forgangsmál að stuðla áfram að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. Yfirlýsingin er mikilvæg því stöðugleiki er allra hagur.

Félagslegur stöðugleiki er flókið hugtak sem vísar til breiðrar sáttar í þjóðfélaginu um áherslur í velferðarmálum. Efnahagslegur stöðugleiki er sýnu einfaldari, hann byggir á mælingum. Verkalýðsforystan heldur því fram að félagslegur stöðugleiki sé forsenda hins efnahagslega. Af því leiðir að forsendur efnahagslegs stöðugleika eru aldrei uppfylltar nema verkalýðsforystan sé sátt við áherslur ríkisstjórna í skatta- og velferðarmálum hverju sinni, sem hún er yfirleitt ekki. Margir innan verkalýðshreyfingarinnar telja sér því ekki skylt að stuðla að efnahagslegum stöðugleika með því til dæmis að gera hófstillta kjarasamninga byggða á aukningu verðmætasköpunar á hverjum tíma. Það er núverandi verkalýðsforystu ekki að skapi að ræða svigrúm í atvinnulífinu fyrir launabreytingar. Ekki er heldur viðurkennt að hækkanir launa umfram framleiðniaukningu auki verðbólgu og hækki vexti. Enn síður er viðurkennt að miklar launahækkanir dragi úr fjölgun starfa. Þessi hugmyndaheimur vekur óneitanlega undrun því áhrif af launahækkunum umfram getu fyrirtækja teljast til óumdeildra grundvallarstaðreynda utan Íslands.

Afneitun verkalýðsforystunnar sýnir að Íslendingar hafa ekki dregið lærdóm af dýrkeyptri og síendurtekinni reynslu af ýktum hagsveiflum þar sem á skiptast ofþensla og samdráttur. Of miklar launahækkanir á skömmum tíma leiða á endanum til harkalegrar niðursveiflu. Hóflegar launahækkanir eru almannagæði því þær stuðla að stöðugu verðlagi og lágum vöxtum. Norski hagfræðiprófessorinn Steinar Holden benti Íslendingum á þetta árið 2016. Það eru hagsmunir allra að launahækkanir séu svipaðar og meðal nálægra þjóða og að þær stuðli að varanlega bættum lífskjörum á grunni lítillar verðbólgu og lágra vaxta.

Verkalýðsforysta sem ekki stuðlar að efnahagslegum stöðugleika með þetta í huga vinnur því gegn hagsmunum umbjóðenda sinna. Vandi vinnumarkaðarins felst þó ekki eingöngu í afstöðu núverandi verkalýðsforystu, því kjarasamningalíkanið er ósjálfbært og stuðlar að efnahagslegum óstöðugleika. Það einkennist af miklum fjölda fámennra stéttarfélaga og af því leiða of margir kjarasamningar. Líklega finnst hvergi jafn flókið fyrirkomulag við endurnýjun kjara vinnandi fólks og hérlendis.

Verkalýðshreyfingin er sundruð, skipulagslega og málefnalega. Verkalýðsfélögin, sem hafa umboðið til gerðar kjarasamninga, hafa með sér fern heildarsamtök án samningsumboðs nema með sérstökum ákvörðunum. Málefnalega eru stefnur heildarsamtakanna ósamrýmanlegar, berjast samtímis fyrir því að lægstu laun séu hækkuð sérstaklega á sama tíma og vægi menntunar og hæfni í launasetningu skuli aukið.

Utan heildarsamtaka standa síðan um 50 stéttarfélög, með 10% launamanna innanborðs, sem geta tekið t.d. heilbrigðiskerfið og flutninga til og frá landinu í gíslingu. Fámenn og einsleit stéttarfélög fara fram með sjálfstæða kjarastefnu, óháð almennri stefnu í samfélaginu, og knýja reglulega fram meiri kjarabætur fyrir sína félagsmenn. Lífskjarasamningurinn milli Samtaka atvinnulífsins og 22 stéttarfélaga, með 77 þúsund félagsmenn, var undirritaður í byrjun apríl 2019 og samþykktur í 29 mismunandi atkvæðagreiðslum (sum félög höfðu tvær). Samningurinn náði til 70% starfsmanna almenns vinnumarkaðar og helmings launamanna í landinu. Honum fylgdi yfirlýsing ríkisstjórnar í 48 liðum, 80 milljarðar króna að umfangi, og var framlaginu ætlað að stuðla að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika, m.a. með lægri tekjuskatti, hærri barnabótum og auðveldari íbúðakaupum.

Í kjaralotunni 2019-2021 hafa 133 stéttarfélög gert 325 kjarasamninga fyrir 172 þúsund launamenn. Á rúmlega 30 mánuðum frá undirritun Lífskjarasamningsins hafa rúmlega 100 önnur stéttarfélög gert 300 kjarasamninga. Hvert einasta þeirra hefur gengið til samninga með kröfur sem ganga lengra en Lífskjarasamningurinn og mörgum þeirra orðið vel ágengt, m.a. með hjálp verkfallsvopnsins.

Höfrungahlaupið er innbyggt í íslenska kjaralíkanið. Þau 100 stéttarfélög sem ganga til samningsgerðar í kjölfar stefnumarkandi kjarasamninga líta á þá sem lágmark og reyna að knýja fram meiri kjarabætur. Veikir hlekkir eru í keðjunni vinnuveitendamegin, einkum hjá sveitarfélögunum, þar sem Reykjavíkurborg gerir kjarasamninga á pólitískum forsendum og stjórn Sambands sveitarfélaga er afar veikburða samningsaðili. Leikurinn er hrikalega ójafn á vettvangi hins opinbera þar sem örfáir (vopnlausir) starfsmenn samninganefnda ríkis og sveitarfélaga kljást misserum saman við fjölmennar herdeildir atvinnumanna allra helstu stéttarfélaga landsins.

Lagfæring kerfisgalla kjaralíkansins er allra hagur. Áform í sáttmála ríkisstjórnarinnar um styrkingu ríkissáttasemjara eru framfaraskref sem duga skammt. Alvöru framfarir fælust í verulegri fækkun stéttarfélaga og kjarasamninga, sem mun ekki gerast – hvatarnir eru engir. Einnig mætti eiga sér stað fækkun heildarsamtaka og aukið vægi þeirra á kostnað stéttarfélaganna. Þá verða ríki og sveitarfélög að styrkja vinnuveitendahlutverk sitt og leita góðra fyrirmynda t.d. í Svíþjóð og Danmörku.

Áform um umbætur á kjaralíkaninu árin 2012- 2016 runnu út í sandinn. Núverandi forysta hefur engan áhuga á breytingum sem stuðla að stöðugleika, eins og á hinum Norðurlöndunum. Allir skaðast og launafólk mest.

Það stefnir í enn eina erfiða kjaralotu. Stéttarfélögin 140 munu setja fram fjölda krafna sem fara langt umfram getu atvinnulífsins til að mæta þeim. Ekki þarf spámann til að sjá fyrir komandi kröfur um verulega hækkun lægstu launa, styttri vinnutíma, lengra orlof og gamalkunnar leiðréttingarkröfur.

Við verðum og munum sveigja af þessari leið.

Höfundur er formaður Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.