Aðventan er tími samverustunda með fjölskyldum og vinum, tími hefða, jólabaksturs og Malts og Appelsíns. Aðventan er einnig tími jólaverslunar enda desember mikilvægasti mánuður ársins hjá flestum kaupmönnum. Kortavelta í verslunum er rúmlega helmingi meiri í jólamánuðinum einum saman en að meðaltali í öðrum mánuðum ársins.

Samkvæmt Rannsóknarsetri verslunarinnar nam velta í verslunum 47 milljörðum króna í desember í fyrra. Gróflega má ætla að um 10 milljarða króna af jólaveltunni megi rekja til innkaupa á jólamatvörum og aðra 10 milljarða til jólagjafa. Hagfræðingum er tamt að ræða jólaverslun út frá efnahagslegum áhrifum fyrir þjóðarbúið í heild. Minna fer þó fyrir annarri hlið jólaverslunar sem er hið svokallaða allratap (e. deadweight loss) sem af jólagjöfunum hlýst. Við val á gjöfum er fyrirfram verið að ákveða neyslu fyrir aðra. Við veljum gjöf sem við teljum að þiggjanda muni hugnast miðað við ákveðið verð. Hættan er þó sú að í huga þiggjanda er verðmæti gjafarinnar ekki hið sama og í huga gefanda, m.a. því smekkur þeirra er ólíkur. Allratapið er þá mismunurinn sem þarna myndast á milli.

Erlendar rannsóknir benda til þess að allratap jólanna geti verið um 10-30% af verðmæti jólagjafa - m.ö.o. glataður ábati sem fer forgörðum því rangar jólagjafir urðu fyrir valinu hjá gefanda. Ef við heimfærum þetta á Ísland má ætla að allratap íslenskra jóla sé um 3 milljarðar króna árlega, gróflega áætlað. Milljarðar sem enda sem hagfræðilegt allratap undir jólatrjám landsmanna. En hagfræðingar eiga auðvitað ekki að stýra jólahefðum. Til allra hamingju. Enda hafa gjafir tilfinningalegt gildi, hjá okkur flestum, sem erfitt er að meta til fjár. Á endanum er það hugurinn sem skiptir meira máli en innihaldið. Gleðileg jól.

Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs SA.