*

mánudagur, 13. júlí 2020
Týr
3. nóvember 2019 09:04

Allt í sóma

Miðað við umfjöllun fjölmiðla og umræðu á samfélagsmiðlum þá er Ísland eitt pólitískasta land í heimi.

Haraldur Guðjónsson

Allt í sóma? Ef marka má fjölmiðla er Ísland eitt pólitískasta land í heimi. Það má meðal annars ráða af þeim listum sem CreditInfo tekur saman um helstu umfjöllunarefni frétta, en þar raða stjórnmálaflokkar, ráðuneyti og Alþingi sér í efstu sætin, viku eftir viku. Hið sama má segja af samfélagsmiðlunum, þar sem fólk er undirlagt af hneyksli vikunnar, sem undantekningalítið má rekja til stjórnmálanna á einn eða annan hátt. Stjórnmálamennirnir allir meira og minna illa gefnir eða illa innrættir og nánast allt sem þeir gera rangt og vont, eilítið mismunandi þó eftir því hvar gagnrýnendurnir staðsetja sjálfa sig.

                                                                 * * *

Um hitt virðast þó flestir sammála, að sjálf stjórnmálin séu sennilegast slæm og mannspillandi. Sem gerir það auðvitað merkilegra að flestir — fyrir utan stöku frjálshyggjusérvitringa — hafa þá lausn helst fram að færa að auka valdsvið stjórnmálanna og umsvif ríkisvaldsins. Af biturri reynslu getur Týr þó fullyrt að það er ekki heillavænlegt að fóðra úlfinn.

                                                                 * * *

Samt er það nú svo, að heilt yfir litið líður Íslendingum vel. Þar virðist sama hvort litið er á hagvísa eða kannanir um lífshamingju fólks, hvarvetna eru Íslendingar í fremstu röð. Um margt er það auðvitað þeim sjálfum að þakka, en þótt stjórnmálin séu ekki óskeikul þá virðast þau ekki standa mjög í vegi fyrir velsæld almennings. Eða a.m.k. ekki takast vel upp við það ef þeim gengur illt eitt til.

                                                                 * * *

En svo er spurning hvort almenningur er svo upptekinn af stjórnmálunum. Nýjustu niðurstöður Gallups benda a.m.k. ekki sérstaklega til þess. Fylgi flokka breytist sáralítið, mest innan vikmarka, en næstum fjórðungur tekur ekki afstöðu eða hyggst skila auðu. Það lýsir ekki brennandi áhuga eða þjóðfélagsólgu.

                                                                 * * *

Auðvitað bjátar eitt og annað á, eins og alltaf. Kannski hið helsta sé vöruverð á þessum örmarkaði við ysta haf, en Týr les stórfréttir af spakvitrum Íslendingum á Spáni, sem komist hafa að því að framfærslukostnaður sé lægri þar en hér. Það er allt rétt, þó draga megi í efa að sældarlíf þeirra væri með sama hætti ef þeir drægju lífið fram á spænskum meðallaunum. Nú eða ekki, svona þegar haft er í huga að þar hefur viðvarandi atvinnuleysi verið í kringum 20%. Það er því gleðiefni að á Íslandi í dag höfum við aðrar og meiri áhyggjur, eins og sést af því að fremstu aðgerðasinnar þjóðarinnar eru froðufellandi yfir því hvort grauturinn sé frá Sómasamlokum eða Jömm.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.