Í síðustu viku birtust í samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð, sem heimila að lögbundnum upplýsingum um matvörur verði miðlað til neytenda með stafrænum hætti. Þetta þýðir að fyrirtækjum verður heimilað að veita neytendum upplýsingar um innihaldsefni, ofnæmisvalda og næringargildi í gegnum stafrænar lausnir.

Ætla má að þau 90% þjóðarinnar sem eiga snjallsíma muni nálgast upplýsingarnar með því að skanna strikamerki vörunnar með símanum sínum. Sömuleiðis má gera ráð fyrir að í verzlunum verði skannar, sem lesa strikamerki líkt og verðskannarnir sem margir þekkja en verða með stærri skjá sem birtir allar upplýsingar um vöruna.

Þetta væri stórt stökk inn í upplýsingavædda framtíð í matvörugeiranum. Með því að miðla upplýsingum í gegnum app komast innflutningsfyrirtæki hjá þeim mikla kostnaði sem fylgir því að þurfa að endurmerkja t.d. allar vörur frá Norður-Ameríku, eingöngu vegna þess að þar er næringargildi gefið upp á skammt en ekki á 100 grömm eins og Evrópureglur kveða á um. Stafrænar leiðir geta líka leyst úr þeim vanda að umbúðir sumra matvara frá Bretlandi eru ekki lengur löglegar á Íslandi eftir Brexit.

Fyrir neytendur eru kostirnir við þessa breytingu augljósir. Minni kostnaður við merkingar matvöru ætti að stuðla að lækkun verðs á viðkomandi vörum. Sívaxandi krafa er frá neytendum um meiri upplýsingar um matvörur, t.d. uppruna, rekjanleika, vistspor, umhverfis- og gæðavottanir og fleira sem aldrei kemst fyrir á niðursuðudós eða súpupakka. Það auðveldar framleiðendum til muna að mæta slíkum kröfum að geta miðlað upplýsingunum með stafrænum hætti. Fyrir neytandann þýðir stafræn miðlun að hægt er að sníða upplýsingarnar að einstaklingnum og því sem hann vill eða vill ekki þegar hann kaupir matvörur.

Hér er því um stórt sameiginlegt hagsmunamál neytenda og verzlunarinnar að ræða.

Höfundur er Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.