*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Týr
1. apríl 2019 19:02

Allt vald til Alsace?

Ráðherrar hér sitja í skjóli kjósenda og Alþingis en ekki sérfræðingapanels í Alsace.

Róbert Spanó er varaforseti mannréttindadómstóls Evrópu.
Ómar Óskarsson

Týr er hugsi yfir því að dómsmálaráðherra á Íslandi hverfi úr ríkisstjórn vegna tillögu um dómara í Landsrétt. Alþingi afgreiddi skipunina með miklum meirihluta atkvæða í júní 2017 og dómararnir formlega skipaðir með forsetabréfi. Hæstiréttur dæmdi sömuleiðis í maí 2018 að skipan dómaranna við Landsrétt væri lögmæt þvert á kröfu Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns. Bæði Alþingi og Hæstiréttur sitja enn.

                                                                  * * *

Allar þrjár greinar ríkisvaldsins á Íslandi höfðu sem sagt staðfest lögmæti dómaranna við Landsrétt og þannig höfðu dómararnir sinnt störfum sínum hnökralaust á annað ár og almenn ánægja með hinn nýja dómstól. Íslenskt lýðræði og réttarríki höfðu afgreitt málið.

                                                                  * * *

Þá birtist Róbert Spanó, góðkunningi Vilhjálms, við fimmta mann í Mannréttindadómstólnum í Strassborg (MDE) og telur Landsréttardómara alla kolólöglega; dómstólinn og dóma hans því ónýta. Minnihluta þessarar dómdeildar MDE ofbauð hins vegar hve Róbert og félagar hefðu látið pólitískan skarkala frá Íslandi hafa áhrif á sig líkt og fram kom í harðorðu minnihlutaáliti.

                                                                  * * *

Ísland er vissulega aðili að mannréttindasáttmála Evrópu, en í lögum þess efnis er skýrt tekið fram í 2. grein: „Úrlausnir mannréttindanefndar Evrópu, mannréttindadómstóls Evrópu og ráðherranefndar Evrópuráðsins eru ekki bindandi að íslenskum landsrétti.“ Í 20. grein stjórnarskrárinnar er einnig skýrt að endanlegt dómsvald á Íslandi er í höndum íslenskra dómara, ekki erlendra.

                                                                  * * *

Það má ekki leyfa slíkum álitum að utan, þó þau séu skrifuð af Íslendingi, að verða að möl í gangverki dómskerfisins hér á landi. Landsréttur hlýtur að halda áfram sínum störfum eftir sem áður. Það er rétt og sjálfsagt að taka vel ábendingum utan úr heimi um íslensk málefni og skoða hvað megi betur fara. En að slíkar athugasemdir vegna smávægilegra frávika á málsmeðferð – sem allir eru sammála um að hafi ekki haft áhrif á réttláta málsmeðferð og enginn efast um hæfi eða hlutleysi dómaranna – eigi að setja heilt dómstig í uppnám eða valdi brotthvarfi ráðherra, er hreint rugl. Ráðherrar hér sitja í skjóli kjósenda og Alþingis en ekki sérfræðingapanels í Alsace.

                                                                  * * *

Þess vegna þurfa íslensk stjórnvöld að óska eftir endurmati yfirréttarins í Strassborg á þessu óvenjulega áliti og engin ástæða er til nokkurra aðgerða fyrr en það liggur fyrir.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.