*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Týr
14. september 2018 10:18

Alltaf jólin

Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra er ekki eiginlegt að leika jólasvein, en við blasir að það var þessu verði, sem stjórnarsamstarfið var keypt.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Af hálfu fjármálaráðuneytis og ríkisstjórnar er þetta fínt fjárlagafrumvarp, vel í takt við áherslur stjórnarflokkanna í kosningabaráttunni liðið haust. Hvað útgjöldin varðar að minnsta kosti og það er það, sem frumvarpið er: það er útgjaldafrumvarp. „Allir fá þá eitthvað fallegt …“ eins og Jóhannes frá Kötlum kvað forðum, þessi sami og við annað tækifæri spurði: „Sovét-Ísland, óskalandið, hvenær kemur þú?“

***

Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra er ekki eiginlegt að leika jólasvein, en við blasir að það var þessu verði, sem stjórnarsamstarfið var keypt. Útgjöldin eru í samræmi við það að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er breið miðjustjórn, sem hefur það helsta markmið að sitja út kjörtímabilið, koma á stjórnfestu í landinu og sanna að hér geti ríkt pólitískur stöðugleiki. Farnist þeim það vel.

***

Hins vegar eru ýmsar blikur á lofti, svo vel má efast um að hér ræði um varanlega útgjaldaaukningu. Ekki er útséð hvað verður um fyrirhugaða snertilendingu efnahagslífsins, hagvöxtur er meiri en gert var ráð fyrir, einkaneysla enn mikil, viðsjár á vinnumarkaði, gengismálin ótrygg og óvíst að verðbólgu verði haldið í skefjum. Og hversu áreiðanlegar eru forsendur fjárlagafrumvarpsins ef til áfalla kemur í flugrekstri og ferðageira?

***

Í augnablikinu horfir vel um efndir á útgjaldaloforðum, en það bólar ekki á andlaginu. Hvenær kemur Bjarni með skattalækkanir og jólin, eins og um var rætt? Hann lofaði lækkun skatta og lækkun tryggingagjalds, einfaldara skattkerfi (líka varðandi vaskinn), og að skattlagning fjármagnstekna miðaðist við raunávöxtun. Þær efndir mega ekki bíða lengi.

***

Sumir treysta loforðunum þó vel, við söluna á CCP skipti sköpum að kóreski kaupandinn treystir því að fyrirætlanir stjórnvalda, um að lyfta skuli af þökum vegna endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði, nái fram að ganga. Fyrir forystumenn ríkisstjórnarinnar er slík traustsyfirlýsing ánægjuleg. Hitt er verra ef ríkisstyrkir eru orðnir söluvara. — Það er ekki leiðin til að halda hagkerfinu gangandi, að stjórnmálamenn deili út gjöfum til góðu barnanna, heldur að þeir skapi umhverfi þar sem dugandi fólk og fyrirtæki geta spjarað sig sjálf, landi og lýð til heilla.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðiðundir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is