*

fimmtudagur, 17. október 2019
Andrés Magnússon
7. október 2019 14:07

Almannaútvarp

Samkvæmt nýlegri rannsókn í átta Evrópulöndum náði almannaútvarp ekki útbreiðslu meðal almennings. Og þegar svo er komið, hver er tilgangurinn með rekstri almenningsútvarps?

Haraldur Guðjónsson

Hér var í liðinni viku fjallað nokkuð um Ríkisútvarpið (RÚV), meðal annars vegna mælinga á hlustun á hljóðvarp þess, sem bendir til þess að þar sé óbrúanlegt kynslóðabil. Fáir hlusta á Rás 1 og tölfræðin bendir eindregið til þess að hún höfði aðeins til elstu kynslóðanna. Rás 2 stóð sig skár í því að höfða til yngra fólks, en þá er ósvarað spurningunni um hvers vegna skattgreiðendur eigi að halda úti útvarpsstöð til þess að keppa við einkastöðvar, sem af hlustendatölum að dæma standa sig betur í að höfða til hlustenda. Í framhaldinu var á sama hátt spurt hver væri tilgangurinn með ríkisrekstri á sjónvarpsrás, sem hefði erlent afþreyingarefni að uppistöðu. 

Það væri hæpið út af fyrir sig, en fráleitt á dögum alþjóðlegrar sóknar ólínulegrar dagskrár Netflix, Amazon, Apple og ámóta miðla, en þá var óminnst á Youtube, sem gefur nánast hverjum sem er kost á að ná til fjöldans með myndefni. Efast var um að íslenska ríkið ætti að freista þess að keppa við netrisana í kaupum og flutningi á erlendri afþreyingu. Undirritaður játaði að vel mætti vera að sérstakur tilgangur væri með rekstri ríkisfjölmiðils, en að núverandi rekstrarfyrirkomulag og umfang ætti sér það ekki. Því þyrfti einlæga og opinskáa umræðu um hlutverk RÚV og endurskoðun þess. 

***

Sú skoðun var og sett fram að markmið með ríkisútvarpi gæti vart verið önnur en þau sem snúa að (þjóð)menningu og þjóðmálaumræðu, því sem getur átt ríkt gildi en ekki endilega miklar vinsældir eða tekjumöguleika. Því sem sameiginlegur skilningur ríkti á að þyrfti að rækta en þrifist tæplega á sviptivindasömum akri markaðarins. 

Voru svo nefndar hugmyndir eða hugdettur um nálgun við þau markmið, sem hlúð gætu að sérstakri dagskrá af því taginu, án þess að trufla afþreyingarmiðla á frjálsum markaði. Þetta þarf að ræða, því það gengur ekki að hafa sjálfala ríkisstofnun í áskrift að skattfé með reglulegum hætti og eins háum ríkisstyrkjum —  beinum og óbeinum —  í hvert sinn sem reksturinn fer úr böndunum. Sem gerist ekki sjaldan. Það hvetur til ábyrgðarleysis í rekstri og hver getur keppt við slíkan keppinaut? 

 ***

Tilverugrundvöllur Ríkisútvarpsins hvílir á sérstöðu þess. Að það sinni einhverju nauðsynlegu hlutverki sem aðrir geti ekki eða geri ekki. Hér áður fyrr voru ýmis öryggissjónarmið tínd til um það, en þau eru fyrir bí, bæði vegna tæknibreytinga og þess hvernig Ríkisútvarpið sjálft reyndist vanrækja þau á ögurstundu. Um sérstakt menningarhlutverk RÚV er varla deilt, þó ekki séu menn á einu máli um hversu vel það sé rækt. 

Aðrir benda á fréttastofuna, að hún njóti mikils trausts og sé nauðsynleg til þess að viðhalda almennri upplýsingu um líðandi stund og álitaefni hennar, af hlutleysi og sanngirni. Þrátt fyrir allar traustsmælingarnar er almenningur ekki á einu máli um það og virðist raunar nokkuð skiptast eftir pólitískum skoðunum. Það eitt felur í sér að RÚV hefur mistekist ætlunarverk sitt að því leytinu. Það er forsenda þess, að hið opinbera standi í viðkvæmum rekstri á fréttastofu, að það ríki almenn og víðtæk viðurkenning á hlutleysi hennar, óháð stjórnmálaskoðunum, stétt, búsetu, aldri eða öðru slíku. 

Loks er nokkru loðnara hlutverk, sem Ríkisútvarpið leggur mikla áherslu á, en það er að það sé „almannaútvarp“, að það eigi sérstakt erindi og skyldur við almenning. Sumt af því skarast vitaskuld við ofangreint, en með hugtakinu er vísað til fjölþættara og æðra hlutverks þess gagnvart almenningi. 

 ***

Um hlutverk RÚV sem almannaútvarps má efast. Eða a.m.k. hvernig því tekst upp við það. Af hlustunarmælingum þeim, sem áður var minnst á, er altjent ljóst að RÚV höfðar ekki til almennings með sama hætti og á árum áður, sér í lagi þá er það hafði einkarétt og einokun á útvarpsútsendingum. Nú þegar er svo komið að nokkru meira er hlustað á frjálsu stöðvarnar, en Rás 1, sem helst leitast við að sinna þessu almannaútvarpshlutverki, hefur aðeins 23,5% hlustun meðal allra aldurshópa, en hjá fólki undir fimmtugu aðeins 2,5% hlustun. Af því einu er ljóst að blessaður almenningurinn kærir sig sífellt minna um almenningsútvarpið. 

 ***

Hér er þó e.t.v. ekki aðeins við Ríkisútvarpið eða starfsmenn þess að sakast. Mögulega á það aðeins í vonlausri baráttu við breyttan tíðaranda, neysluhætti og tækninýjungar. Rétt eins og sjálfur Ása-Þór mátti reyna, hefur enginn betur í glímu við Elli kerlingu. 

Íslenskt ríkisútvarp dregur mjög dám af hinni evrópsku hefð í þeim efnum, einkum frá BBC í Bretlandi og DR í Danmörku. Ríkisútvarp í þeim löndum stendur ekki síður á traustum merg og hefur til þess pólitískt fulltingi, þó þar hafi raunar líka í auknum mæli gætt vantrausts á pólitískum forsendum hin síðari ár. En það er þetta með tíðarandann, sem kann að reynast þeim örðugra við að eiga.

Reuters-stofnunin í Oxford hefur nýverið birt rannsókn (dr. Anne Schulz og Rasmus Kleis Nielsen), sem gerð var með stuðningi finnska ríkisútvarpsins Yle, á almannaútvarpi í átta Evrópulöndum, í Bretlandi, Finnlandi, Frakklandi, Grikklandi, Ítalíu, Spáni, Tékklandi og Þýskalandi. Helstu niðurstöður hennar voru þær að hlustendur og áhorfendur almannaútvarps væru aldraðir, vel menntaðir og með pólitískar skoðanir af ýmsu tagi (þó traustinu væri misskipt). Fyrir vikið mistækist þeim flestum það ætlunarverk sitt að veita almenna og alhliða fréttaþjónustu, þær hefðu allar nema ein misst af netbyltingunni, og ættu á hættu að eiga ekki erindi við þorra almennings. 

Sérstaklega hefði þeim mistekist að höfða til ungs fólks og þeirra sem ekki hefðu aflað sér mikillar formlegrar menntunar, svo mjög að það mætti heita vonlaust að ná til þeirra úr þessu. Flestar fréttastofurnar nutu mikils trausts og helstu fréttatímar vinsælir, en það hrykki þó ekki til. Almannaútvarpið næði ekki til almennings. Þetta er sjálfsagt ekki fjarri stöðunni á Íslandi. Og þegar svo er komið, hver er tilgangurinn með rekstri almenningsútvarps sem almenningur hafnar?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.