*

föstudagur, 18. október 2019
Leiðari
19. janúar 2014 10:29

Almenningur á markað

Nýsköpun er einn af grundvöllum hagvaxtar til lengri tíma litið og nýsköpunarfyrirtæki þurfa á fjárfestingu að halda.

Hörður Kristjánsson

Í vikunni skaut þeirri hugmynd upp aftur að almenningur ætti að fjárfesta meira í nýsköpunarfyrirtækjum og að beinlínis ætti að hvetja til slíkrar fjárfestingar með skattaívilnunum. Sveinbjörn Höskuldsson, einn stofnenda fyrirtækisins Nox Medical, mælti fyrir þessu í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 og tók Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, undir með honum. 

Nú er það svo að í lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, sem samþykkt voru í árslok 2009, var mælt fyrir um skattaafslátt sem þennan, sem reyndar var háður því að hlutafjárkaupin væru hluti af hlutafjáraukningu viðkomandi fyrirtækis. Ákvæðið var svo fellt út úr lögunum ári seinna.

Forsendur hugmyndarinnar eru réttar. Nýsköpun er einn af grundvöllum hagvaxtar til lengri tíma litið og nýsköpunarfyrirtæki þurfa á fjárfestingu að halda. Það er hins vegar ekki heppilegt að ætla að sækja það fjármagn til einstaklinga. Það er gömul klisja að níu af hverjum tíu nýsköpunarfyrirtækjum mistekst ætlunarverkið og verða gjaldþrota. Það er eðlilegt, enda er um áhættusaman rekstur að ræða. Fagfjárfestar sem sérhæfa sig í fjárfestingum sem þessum dreifa fjármagninu og áhættunni á mörg fyrirtæki í þeirri von að þeir hitti á næsta Twitter eða Facebook og að sú fjárfesting muni vega upp á móti tapinu af hinum fyrirtækjunum níu.

Það er beinlínis ábyrgðarlaust að ætla að hvetja almenning, sem er síður en svo líklegri til að velja „réttu“ fyrirtækin en sérfræðingarnir, til að festa fé sitt með svo áhættusömum hætti. Hlutabréf hafa hækkað mjög í verði undanfarið og ef einstaklingar vilja njóta þessarar ávöxtunar geta þeir keypt hlutabréf í skráðum bréfum eða í hlutabréfasjóðum.

Reynsla síðustu ára hefur sýnt að slík fjárfesting er langt frá því að vera áhættulaus, en er þó áhættuminni en í nýsköpunarfyrirtækjum. Hlutabréf þeirra eru sjaldnast skráð á markað og upplýsingaskylda þeirra er mun takmarkaðri en skráðra fyrirtækja. Markaður með bréfin er líka mun minni en með skráð bréf og því erfiðara fyrir fjárfesta að selja bréf ef til þess kemur. Fjárfesting sem þessi er heppileg fyrir fjárfesta sem geta horft til langs tíma og hafa burði til að taka á sig mögulegt tap. 

Þar með er ekki sagt að þessi umræða sé öll á villigötum. Frosti nefndi í sömu frétt, og Hannes Frímann Hrólfsson segir svipaða hluti í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag, að hugsanlega gætu lífeyrissjóðir komið meira að fjárfestingu í nýsköpunarfyrirtækjum. Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, sagði á fundi í desember í fyrra að slík fjárfesting gæti verið heppilegur hluti af áhættudreifingu sjóðanna. Hófleg fjárfesting í nýsköpun gæti hækkað ávöxtun sjóðanna án þess að auka markaðsáhættu. Bar hann saman meðalávöxtun skráðra hlutabréfa í Bandaríkjunum og ávöxtun sjóða sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum og komst að því að söguleg meðalávöxtun þessara tveggja eignaflokka var svipuð, en fylgni á milli ávöxtunar þeirra nær engin. Því geti fjárfesting í nýsköpun verið heppilegur hluti af áhættustjórnun. 

Grundvallaratriðið í umræðunni um hugsanlega aðkomu lífeyrissjóðanna að fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja verður hins vegar alltaf að vera hagsmunir lífeyrissjóðanna. Ef það þjónar hagsmunum þeirra og sjóðfélaga að fjárfesta í nýsköpun þá ber að skoða það vandlega, en alls ekki á að líta á lífeyrissjóðina sem óþrjótandi uppsprettu fjármagns fyrir aðra. Það hefur farið nóg fyrir slíkri hugsun hingað til.

Leiðarinn birtist í Viðskiptablaðinu 16. janúar 2014. Áskrifendur geta nálgast blaðið allt hér að ofan undir liðnum tölublöð.

Stikkorð: nýsköpun
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.