*

laugardagur, 29. febrúar 2020
Týr
29. september 2019 15:04

Alræði öreiganna

Forysta Eflingar hefur hagað sér „eins og verstu skúrkar í atvinnurekendastétt“.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Árni Sæberg

Það hefur verið átakanlegt að fylgjast með raunum verkalýðsins í verkalýðshreyfingunni síðastliðna daga. Ekki þó umbjóðendanna, heldur forystu starfsmanna á skrifstofu Eflingar (kjörorð: Stendur með þér!). Allt vekur það mjög áleitnar spurningar um stjórnarhætti og skaphöfn Sólveigar Önnu Jónsdóttur, sem þar tók völdin í fyrra og lét, að góðra sósíalista sið, hreinsanir verða sitt fyrsta verk.

                                                                  * * *

Fyrrverandi starfsmenn Eflingar hafa einn af öðrum sent frá sér yfirlýsingar í fjölmiðlum um viðskipti sín við Sólveigu Önnu og Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóra hennar. Það eru ófagrar lýsingar, en sennilegast urðu þau fleygust orðin um að „forysta Eflingar [hagaði] sér þannig eins og verstu skúrkar í atvinnurekendastétt“.

                                                                  * * *

Sólveig Anna hefur svarað því fullum hálsi, úthrópað gagnrýnendur sína sem lygara og óþurftarfólk, án þess þó að lýsa málavöxtum. Allt er það mjög sérkennilegt og lýsir hvorki þeim leiðtogahæfileikum, hófsemd né auðmýkt, sem vert er að verkalýðsforingjar auðsýni launþegum. Eða svo það sé sett í annað samhengi: Hvaða fyrirtæki eða forsvarsmaður fyrirtækis hefði getað hagað sér svona óátalið?

                                                                  * * *

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, fjallaði um þetta á vef sínum, þar sem hann fann að vinnubrögðunum en lét þó fyrst og fremst tilvitnanir í orð hinna fyrrverandi starfsmanna segja söguna. Sólveig Anna brást þó hálfu verri við í langri yfirlýsingu, þar sem hún kallaði hann alls kyns ónefnum (með vott af karlfyrirlitningu), sakaði hann um lygar og kallaði ömurlegan afturhaldstitt og mykjudreifara, óvin vinnuaflsins og sitthvað fleira. Sagði þó að sér þætti það bara skemmtilegt, „af því það er óumdeilanlega svo gaman fyrir láglauna- róttæklinga-konu eins og mig að verða vitni að hræsni, yfirborðsmennsku og ömurð valdakarla“.

                                                                  * * *

Það er erfitt að sjá að orð Björns geti verið tilefni þessara vanstilltu viðbragða. En skemmtilegt auðvitað að sjá hana – skilgetið afkvæmi hinnar velmegandi (borgaralegu!), vinstrisinnuðu menntastéttar, berja sér á brjóst sem öreiga. Það er álíka sannfærandi og verkalýðsbúningurinn sem framkvæmdastjórinn hennar, klæðist í vinnunni, köflóttu skyrturnar úr Vinnufatabúðinni. Öreigi með B.A.- og M.A.-próf í heimspeki, auk doktorsprófs í hugvísindum. En alræðið, það er ósvikið. 

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.