Töluverð umræða hefur verið um stöðu verðbréfamarkaðarins hér á landi og mikilvægi þess að efla hann fyrir atvinnulífið. Í þessari umræðu hefur verið bent á að aukin aðkoma erlendra fjárfesta sé ein lykilforsenda þess að tryggja fjármögnun og uppbyggingu íslenskra fyrirtækja með tilheyrandi atvinnusköpun og styrkingu samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Við getum gert ýmislegt til að auðvelda erlendum fjárfestum ákvörðun um að beina fjármagni í íslensk fyrirtæki.

Nasdaq auðveldar aðgengi erlendra fjárfesta

Ein mikilvæg ástæða þess að erlendir fjárfestar hafa ekki komið inn á markaðinn í ríkari mæli er séríslenskt verklag í verðbréfauppgjöri sem þeir eru óvanir og úreld umgjörð um framkvæmd þess. Íslenskt efnahagsumhverfi er agnarsmátt og fremur sveiflukennt í alþjóðlegum samanburði og við höfum ekki efni á því að búa við umgjörð sem ekki fylgir í einu og öllu alþjóðlegum kröfum í þessum efnum. Framkvæmdin verður að auka trúverðugleika og skapa traust meðal erlendra fjárfesta og byggja á regluverki í samræmi við alþjóðlega staðla. Framundan á næstu vikum verður stigið stórt skref í átt að farsælli breytingu fyrir íslenskan verðbréfamarkað en þá verður innleidd hér á landi ný Evrópulöggjöf um samræmt verklag verðbréfauppgjörs innan Evrópu ( CSDR ).

Nasdaq er einn af stærstu þjónustuveitendum á fjármálamarkaði í heimi. Fyrirtækið hefur gríðarlega reynslu af rekstri innviða á fjármálamarkaði á alþjóðavísu og nýtur mikils trausts. Nasdaq , sem á og rekur tvo af helstu innviðum á verðbréfamarkaði hér á landi, Nasdaq Iceland – Kauphöllina og Nasdaq verðbréfamiðstöð, leggur mikla áherslu á að öll umgjörð verðbréfaviðskipta hér á landi sé með þeim hætti að erlendir fjárfestar, sem og íslenskir geti framkvæmt viðskipti í alþjóðlega samræmdu umhverfi sem þeir þekkja og er traust. Við höfum því undirbúið okkur gaumgæfilega fyrir innleiðingu CSDR sem mun breyta landslaginu gríðarlega fyrir viðskiptavini Nasdaq hér á landi og annars staðar.

Alþjóðleg samkeppni og sameining

Á grunni nýrrar Evrópulöggjafar mun samkeppni verðbréfamiðstöðva yfir landamæri í Evrópu aukast, fjárfestum og útgefendum verðbréfa til hagsbóta. Líklegt er að verðbréfamiðstöðvar innan Evrópu sameinist eða samþætti rekstur sinn með hagræðingu og hagkvæmni að leiðarljósi. Þannig geta þær dregið úr kostnaði, veitt þjónustu yfir landamæri, og boðið upp á breiðara vöruúrval þar sem öryggi og skilvirkni í rekstri eru í forgrunni.

Í Hvítbók um framtíð fjármálakerfisins kom meðal annars fram að til þess að vega á móti þeirri óhagkvæmni sem smæð hagkerfisins veldur gæti verið mikilvægt að efla samstarf um sameiginlega innviði. Í því samhengi var lagt til að reynt yrði að tryggja Íslandi aðgang að innviðasamstarfi þvert á landamæri. Þetta hefur lengi verið til umræðu.

Við hjá Nasdaq störfum í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og teljum við því gríðarlega mikilvægt að huga að framtíðinni og tryggja að við sköpum umgjörð sem styður við íslenskt atvinnulíf, dregur úr hindrunum fyrir erlenda fjárfesta og heldur í við alþjóðlegar kröfur og vöruþróun. Það er því ekki að ástæðulausu að við horfum til Evrópu og tækifæra þar fyrir íslenskan markað. Okkar verkefni er að nýta ný tækifæri til að mæta þörfum viðskiptavina okkar og þróa þjónustuframboðið í þeirra þágu.

Nasdaq steig fyrstu skrefin í samþættingu verðbréfamiðstöðva í Evrópu með því að sameina verðbréfamiðstöðvar í sinni eigu árið 2017. Nasdaq verðbréfamiðstöð á Íslandi mun bætast í hóp þeirra með sameiningu við Nasdaq CSD SE næsta vor og verður þá hluti af samræmdri tækni- og þjónustuumgjörð Nasdaq CSD .

Ný þjónusta – stærsta framfaraskref á markaði í 20 ár

Við sameiningu munu skapast áður óþekkt tækifæri fyrir viðskiptavini Nasdaq verðbréfamiðstöðvar og íslenskan verðbréfamarkað. Við munum gera viðskiptavinum okkar kleift að gefa út verðbréf í evrum og fjárfestar munu geta valið um að gera upp viðskipti sín í evrum eða íslenskum krónum. Alþjóðlegir staðlar í framkvæmd uppgjörs og fyrirtækjaaðgerða munu draga úr áhættu og auðvelda erlendum fjárfestum svo um munar að eiga viðskipti og ljúka uppgjöri með íslensk verðbréf.

Við munum geta veitt innlendum viðskiptavinum okkar aðgengi að alþjóðlegum vörsluaðilum vegna viðskipta með erlend verðbréf og aðgengi erlendra verðbréfamiðstöðva og fjármálafyrirtækja að Nasdaq CSD mun auðvelda erlendum fjárfestum að eiga viðskipti með íslensk verðbréf. Einnig verður lögð rík áhersla á að styðja við innlend fjármálafyrirtæki í þjónustu þeirra við erlenda viðskiptavini, m.a. með því að veita þjónustu á þeim stöðlum sem erlend fjármálafyrirtæki nota.

Íslenskur verðbréfamarkaður stendur nú frammi fyrir einhverju stærsta framfaraskrefi á íslenskum verðbréfamarkaði í 20 ár. Hér er til mikils að vinna og vill Nasdaq vinna náið með viðskiptavinum sínum að því að tryggja að umgjörð íslensks verðbréfamarkaðar sé trúverðug. Greina þarf hvar draga megi úr séríslensku verklagi og hvort ástæða sé til að taka einhvern hluta löggjafar til endurskoðunar. Það mun auka líkurnar á að erlendir fjárfestar láti sjá sig í meira mæli sem á móti gerir markaðinn að ákjósanlegri kosti fyrir fyrirtæki að sækja inn á.

Höfundur er framkvæmdastjóri Nasdaq verðbréfamiðstöðvar.