Óðinn fjallar í dag í Viðskiptablaðinu um nýtt handboltahús. Það er í besta falli einkennilegt að halda tvo blaðamannafund um mál og geta þess að allt sé klappað og klárt - nema hver eigi að borga.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á blaðamannafundinum á mánudag gaf í skyn að Harpan hafi verið umdeild en nú sé mikil sátt um hana. Rétt eins og yrði um nýja handboltahöll. Hér má lesa pistilinn í heild sinni.

Harpa vont dæmi

En aftur að blaðamannafundinum. Katrín Jakobsdóttir er hin vænsta manneskja og heldur ágætum þræði í mörgum málum. En þegar kemur að peningum þá er aldrei nokkurt vit í því sem hún segir. Bara alls ekkert.

***

Katrín nefndi bygg­ingu tónlistarhússins Hörpu en hún var mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra þegar ákveðið var að halda áfram með byggingu hússins, eftir að byggingarfélagið um húsið varð gjaldþrota. Um Hörpu sagði Katrín:

Ég myndi segja að eft­ir á að hyggja séu all­ir sam­mála um að það hafi verið skyn­sam­leg fjár­fest­ing fyr­ir báða aðila.“

Það er afskaplega óheppilegt að Katrín skyldi minnast á Hörpu. Eins ágætt og það hús nú er og það sem þar fer fram, þá er Harpa skólabókardæmi um ríkisforsendur sem ekki standast.

Ríkið og Reykjavíkurborg komu sér saman um að greiða framlag til hússins í 35 ár, frá 2011 til 2046. Ríkið átti að greiða 54% og Reykjavíkurborg 46%. Þetta framlag nam 1,7 milljarði króna árið 2021 en það er verðtryggt.

***

Rekstur Hörpu hefur gengið miklu verr frá fyrsta degi en áætlanir gerðu ráð fyrir. Árið 2021 greiddi ríki og borg að auki rekstrarframlag að fjárhæð 450 m.kr., en slíkt framlag hefur verið greitt frá 2013, og viðbótarrekstrarframlag að fjárhæð 335 m.kr. Samtals 785 m.kr. Í upphaflegum áætlunum stóð ekki til að nein rekstrarframlög væru lögð fram af hálfu eigenda.

Árið 2021 tapaði félagið 203 m.kr. króna og það ár greiddu eigendur 149 m.kr. króna inn í reksturinn í formi hlutafjár.

Samkvæmt upphaflegum áætlunum átti rekstur Hörpu að kosta ríki og Borg 1.668 milljónir króna árið 2021. Reksturinn kostaði eigendurna hins vegar 2.666 m.kr. eða 59% meira.

***

Niðurstaðan er þessi. Það er alrangt að Harpan hafi reynst skynsamleg fjárfesting. Harpan var reyndar aldrei fjárfesting því aldrei stóð til að hún myndi skila arði. En það hefur komið í ljós að Harpan var en heimskulegri framkvæmd en flestir óttuðust. Hægt er að hafa mörg orð um hvers vegna. Hönnun hússins er dýr, húsið er gríðarlega stórt og skynsamlegt hefði verið að byggja mun minna hús.

Pistill Óðins birtist Viðskiptablaðinu sem kom út í dag, fimmtudag inn 19. janúar 2022. Áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér og blaðið í heild sinni hér.