Walter Benjamin vísaði í einni ritgerð sinni í prentverk eftir Paul Klee sem nefnist „Angelus Novus“. Í verkinu gefur að líta engil sem virðist vera að fjarlægjast eitthvað sem hann starir á. Augu hans og munnur eru galopin og vængir hans útþandir. Benjamin vildi meina að svona liti Engill sögunnar út, sem sneri andliti sínu að fortíðinni. Á meðan við sjáum það sem virðist vera keðja atburða sér hann aðeins eitt stórslys, þar sem rústir af rústum ofan hlaðast óendanlega upp fyrir fótum hans. Hann væri til í að staldra við og safna rústunum saman, en stormur blæs frá Paradís sem tekur í vængi hans af þvílíkum krafti að hann getur lítið gert. Þessi stormur sem þeytir honum í framtíðina honum að baki á meðan rústirnar halda áfram að hlaðast upp fyrir framan hann, er það sem við nefnum í daglegu tali framfarir.

Mér er oft hugsað til þessa dæmis þegar ég velti fyrir mér þróun hagstærða. Þegar við skoðum söguna þá er það væntanlega einna helst til þess að læra af henni og gera betur næst. Batnandi manni er best að lifa og við búumst held ég langflest við að allt fari á besta veg. Þegar ég spyr viðmælendur mína um það hvort þeir séu bjartsýnir á horfur mála þá man ég í fljótu bragði ekki eftir neinum sem hefur svarað þeirri spurningu neitandi. Nýlega kom út íslensk þýðing bókar eftir fyrrum stjórnarformann Northern Rock sem nefnist á íslensku „Heimur batnandi fer“ (e. The Rational Optimist). Mig grunar sterklega að bók sem bæri titilinn „Allt fer fjandans til“ myndi ekki seljast jafn vel.

Hagkerfi okkar og samfélag gengur að mörgu leyti fyrir því að allt fari á besta veg. Ég þekki ekki marga bölsýnismenn sem myndu veita frumkvöðli lán til að stofna nýtt fyrirtæki og ég á enn eftir að sjá stjórnmálamann sem myndi segja kjósendum sínum að allt muni fara í fokk ef hann yrði kosinn. Raunin er hins vegar sú að við höfum ekki hugmynd um hvað gerist í framtíðinni og sama hversu klár eða forsjál við teljum okkur vera þá þarf ekki mikið til að breyta forsendum okkar algjörlega. „Þetta reddast“ segjum við samt flest á meðan stormurinn þeytir okkur áfram.