Benóný Harðarson, forstöðumaður kjaradeildar Fagfélaganna sem af sumum hefur verið kallaður reiðasti maður Grindavíkur, hefur farið mikinn í fjölmiðlum, þar sem hann hefur sakað tvo veitingastaði um að þræla starfsfólki sínu út með því að vinna 16 tíma á dag 6 daga vikunnar.

Benóný nafngreindi veitingastaðina ekki beint en gaf hins vegar upp nægar upplýsingar um þá til þess að auðvelt væri að komast að því um hvaða staði ræddi.

Benóný hefur haldið uppteknum hætti, jafnvel eftir að mbl.is fékk í hendur kröfur Fagfélaganna, þar sem fram kemur að ekkert slíkt hafi átt sér stað.

Starfsfólk þetta vann ekki í nokkru einasta tilfelli 16 tíma vinnudag og komst raunar aldrei nálægt því, ekki í eitt skipti. Hvað þá sex daga vikunnar.

Gögnin sýna að öðru hverju hafi verið unnar 10 tíma vaktir en á móti komu mun styttri dagar.

Þegar gögnin komu fram, sem sýndu fram á að Benóný hafi ítrekað logið um alvarleika málsatvika, sagði Benóný að það væri nú óþarfi að hengja sig í smáatriðunum og óð svo áfram með sömu þvæluna í fjölmiðlaviðtölum, sem stangast á við gögn Fagfélaganna, sem hann sjálfur starfar fyrir.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 8. september 2022.