Mikið umrót og almennar verðlækkanir voru á hlutabréfamörkuðum um allan heim á árinu 2022.

Innrás Rússa í Úkraínu hafði mikil áhrif sem og orkukreppan sem fylgdi í kjölfarið. Vaxtahækkanir seðlabanka gerðu einnig fjárfestum lífið leitt.

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn fór ekki varhluta af þessari þróun. Heildarvísitala Aðalmarkaðar, sem mælir meðalverðbreytingar allra félaga á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland, lækkaði um 17% á árinu 2022 en einungis 12% þegar tekið hefur verið tillit til arðgreiðslna. Þetta eru mikil umskipti frá árinu á undan þegar arðsleiðrétt Heildarvísitalan hækkaði um 42%.

Verðþróunin 2022 var í takt við erlenda markaði, ýmist heldur skárri eða heldur verri. Sambærilegar vísitölur á mörkuðum Nasdaq í Kaupmannahöfn, Helsinki og Stokkhólmi lækkuðu um 4%, 12% og 22%, þýska DAX vísitalan lækkaði um 12% og Nasdaq og S&P 500 vísitölurnar í Bandaríkjunum lækkuðu um 33% og 19%, en breska FTSE 100 vísitalan hækkaði um 1%.

Árið á íslenska markaðnum var heldur ekki verra en svo að ef litið er á síðustu 5 ár þá er árleg meðalávöxtun á markaðnum 14% þrátt fyrir lækkun síðasta árs. Svo má ekki gleyma því að hlutabréf 12 félaga af 30 í Kauphöllinni hækkuðu í verði á síðasta ári.

Það er líka gleðilegt að á þessu umrótsári gekk uppbygging íslenska markaðarins áfram vel. Fjögur fjölbreytileg ný félög bættust í Kauphöllina. Ölgerðin og Nova voru skráð á Aðalmarkað og Alvotech og Amaroq Minerals á First North vaxtarmarkaðinn. Alvotech færði sig svo yfir á Aðalmarkaðinn í lok árs.

Skráning Alvotech er sérstaklega merkileg fyrir þær sakir að félagið var einnig skráð í Nasdaq kauphöllina í New York og varð með því fyrsta félagið til að skrá sig bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi. Ég tel að nokkur efnileg íslensk vaxtarfyrirtæki í stærri kantinum gætu haft mikið gagn af því að feta í fótspor Alvotech.

Þegar betur er að gáð var árið 2022 ár uppbyggingar og framfara á íslenskum hlutabréfamarkaði, þrátt fyrir óróa og verðlækkun.

Þá hélt fjárfestum á markaðnum áfram að fjölga. Einstaklingar tóku virkan þátt í útboðum Ölgerðarinnar og Nova, en merkilegt nokk þá var fjöldi frumútboða á íslenska markaðnum (2) sá sami og á þeim þýska!

Nýir erlendir fjárfestar komu inn á markaðinn í tengslum við ákvörðun vísitölufyrirtækisins FTSE Russell að hækka gæðaflokkun íslenska markaðarins, sem nú telst nýmarkaður (e. emerging market). Þessi ákvörðun FTSE Russell voru stór tíðindi og mikil viðurkenning fyrir það uppbyggingarstarf sem hefur átt sér stað á undanförnum árum. Aldrei áður hefur íslenski markaðurinn verið flokkaður jafn hátt.

Virkni markaðarins var, í takt við ofangreint, góð. Fjárhæð viðskipta var u.þ.b. á pari við 2021, og um þremur fjórðu hlutum meiri en 2020, og fjöldi viðskipta, sem er góð vísbending um þátttöku einstaklinga og erlendra fjárfesta, jókst um 15%.

Það sem meira er að virkni markaðarins, mæld sem fjárhæð viðskipta í hlutfalli af stærð markaðarins, var í línu við markaðina í Nasdaq systurkauphöllunum í Helsinki, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Og hvergi eru viðskipti með lítil félög (e. small cap) á þessum mörkuðum jafn virk og á Íslandi og einungis í Stokkhólmi eru viðskipti virkari með meðalstór félög (e. mid cap).

Nú gæti marga rekið í rogastans, enda lenska að tala um hversu grunnur íslenski markaðurinn er og hversu lítið þarf til að hreyfa verð á honum. En það er ekki bara virknin á markaðnum sem stenst samanburð við nágrannaþjóðirnar heldur er flökt í verði ekki óvenjulega mikið hér.

Samanburður á daglegum breytingum á heildarvísitölum Nasdaq markaðanna fjögurra á Norðurlöndunum sýnir raunar að sveiflur í verði á milli daga voru að jafnaði minnstar á íslenska markaðnum á síðasta ári.

Þegar betur er að gáð var árið 2022 ár uppbyggingar og framfara á íslenskum hlutabréfamarkaði, þrátt fyrir óróa og verðlækkun. Skráð félög og þau sem koma ný inn á markaðinn munu njóta þessarar uppbyggingar til lengri tíma. Góðar væntingar eru um að okkur verði frekar ágengt á næstu misserum og árum.