Óðinn fjallar í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, um árið sem var að líða.

Það var margt ánægjulegt sem gerðist á líðandi ári. En svo það sem var síðra.

Óðni sýnist að kjörnir fulltrúar, bæði í sveitarstjórnum og á Alþingis, hafi gjörsamlega misst tökin á rekstri hins opinbera.

Hér er brot úr pistlinum en áskrifendur geta lesið hann í heild hér.

2022 – árið sem hægri menn vilja gleyma

Það sem er hvað ömurlegast við þetta ár sem er að líða að kjörnir fulltrúar hafa gjörsamlega misst tökin á rekstri hins opinbera.

Reykjavíkurborg er komin í þá stöðu að fjárfestar eru hættir að sýna skuldabréfum borgarinnar sama áhuga og áður. Vinstri menn eru enn þeirrar skoðunar að allt sé í lukkunnar velstandi hjá borginni og bera fyrir sér samanburð við hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. En þeir viljandi gleyma því að borgin hefur fegrað bækurnar með 94 milljarða uppfærslu á eignum Félagsbústaða frá árinu 2013.

Eins er staða Orkuveitunnar mikið áhyggjuefni. Þrátt að orkuverð og álverð sé mjög hátt þá er afkoma Orkuveitunnar slök, ólíkt Landsvirkjun sem mun líklega eiga sitt besta ár í ár. Að auki hefur Orkuveitan vanrækt viðhald á borholum, veitukerfum og öllu því sem máli skiptir í rekstrinum.

***

Mestu vonbrigðin

En stærsta svekkelsi ársins í huga Óðins er ríkisreksturinn. Það vita allir, sem eitthvað vita, að fæstir vinstri menn kunna að fara með annarra manna fé. Það eru hins vegar ólýsanleg vonbrigði að Sjálfstæðisflokkurinn skuli taka þátt í slá Íslandsmet í útgjaldaukningu ríkissjóðs frá árinu 1991.

Það sem gerðist á lokadögum umræðunnar um fjárlögin lýsandi fyrir algjört aðhaldsleysi í ríkisrekstrinum.

Kona, sem rekur sjónvarpsstöð norður í landi, sendi fjárlaganefnd bréf og biður um pening. Sjónvarpsstöðin er þegar að fá styrki upp á 21 milljón í ár vegna rekstursins. Styrki, sem eru ekki aðeins fráleitir vegna þess skattgreiðendur eiga ekki að styrkja atvinnustarfsemi, heldur einnig vegna þess að styrkirnir skerða ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla gagnvart stjórnvöldum því verið er að véla með styrkina frá ári til árs og því fyrirsjáanleikinn enginn fyrir þá fjölmiðla sem ella myndu deyja hröðum dauðdaga.

Aðeins ein fær og skynsamleg lausn er á vanda einkarekinna fjölmiðla. Færa framlög til Ríkisútvarpsins að minnsta kosti til þess horfs sem var fyrir nokkrum árum, en ríkisfjölmiðilinn fær í dag 1.250 milljónum meira að raunvirði en árið 2013.

Í reynd eru engin rök fyrir rekstri ríkisútvarps. Allra síst er það íslenska tunga, en það helsta sem Óðinn sér af ríkismiðlinum, fyrir utan skandinavískar þáttaraðir, er vefurinn – sem er einhverra hluta vegna skrifaður á bjagaðri færeysku.

Óðinn tekur þó fram að sjónvarpsstöðin N4 er alveg hreint ágæt stöð sem hann myndi án nokkurs vafa kaupa áskrift af ef stjórnendurnir teldu ekki að aðrir en áhorfendur hennar ættu greiða fyrir þjónustuna.

En fjárlaganefndin sá auðvitað aðeins þann eina kost að auka halla ríkisins, skuldsetninguna hans og skatta barna og barnabarna um eitt hundrað milljónir króna til að bæta fréttaþjónustu á landsbyggðinni - um landsbyggðina.

Pistill Óðins birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í gær, fimmtudaginn 29. desember. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.