*

mánudagur, 13. júlí 2020
Leiðari
25. febrúar 2016 13:12

Annus Horribilis?

Þegar horft er til næstu tíu mánaða þarf ekki mikið út af bregða til að árið 2016 geti orðið þýðingarmikið ár í mannkynssögunni.

european pressphoto agency

Þegar Elísabet Bretadrottning lýsti árinu 1992 sem Annus Horribilis, eða hræðilegu ári, var hún aðallega að vísa í hin ýmsu hneykslismál tengd börnum hennar og nánustu fjölskyldu. Þegar horft er til næstu tíu mánaða þarf ekki mikið út af bregða til að árið 2016 geti orðið raunverulegt Annus Horribilis – og það fyrir allan almenning en ekki bara eina gamla konu í Windsor-kastalanum.

Herir Rússa og Tyrkja eru nú virkir í Sýrlandi, einkum í kringum borgina Aleppo, og styðja þeir mismunandi aðila í sýrlenska borgarastríðinu. Samskipti Rússa og Tyrkja eru nú þegar mjög stirð eftir að þeir síðarnefndu skutu niður rússneska herþotu yfir Sýrlandi. Þarf ekki öflugt ímyndunarafl til að sjá fyrir sér að­ stæður sem leitt gætu til þess að hermenn ríkjanna tveggja hæfu skotárásir hver á annan.

Þá væri komin upp sú skelfilega staða að Nató-ríki væri komið í vopnuð átök við Rússa. Tyrkir myndu eflaust kalla til bandamenn sína í Nató. Afleiðingin væri annaðhvort stríð Nató við Rússland (hvaða form það stríð tæki), eða að Nató-ríkin myndu afneita Tyrklandi. Yrði það banabiti Nató og afleiðingarnar af því verða algerlega ófyrirsjáanlegar.

Í Bandaríkjunum virðast kjósendur staðráðnir í að binda enda á 240 ára sögu bandaríska lýðveldisins. Í forkosningum flokkanna tveggja er mestur þungi í framboði sósíalistans Bernie Sanders og hins popúl­íska særingamanns Donalds Trump. Ef annar hvor þeirra ber sigur úr býtum í forsetakosningunum sjálfum er nær öruggt að Bandaríkin munu missa stöðu sína sem eina stórveldi heimsins – stöðu sem núverandi forseti hefur reyndar gert mikið til að grafa undan.

Þeir eru margir sem munu gleðjast yfir þessu, en þeir hinir sömu ættu að hafa í huga að Evrópa var ekki friðsæl heimsálfa þegar stórveldin voru mörg.

Loftið hefur verið að síga úr hagkerfi heimsins síðustu mánuði. Kína, sem hefur verið drifkraftur heimsverslunarinnar undanfarna áratugi, er að verða bensínlaust og Evrópa hefur engin batamerki sýnt þrátt fyrir að seðlabanki Evrópusambandsins prenti peninga sem mest hann má. Evruríkin eru ennþá allt of skuldsett. Stýrivextir eru nærri núllinu þar sem þeir eru ekki neikvæðir sem þýðir að eina úrræði seðlabanka heimsins í næstu niðursveiflu verður enn meiri peningaprentun. Þrátt fyrir að hún hafi látið á sér standa hingað til mun verðbólga óhjákvæmilega fylgja í kjölfar slíkrar prentunar.

Vonandi rætist ekkert af ofansögðu, en rétt er að búa sig undir hið versta um leið og maður vonar hið besta.

Til að auka enn á óvissuna er allt eins líklegt að Bretland ákveði að yfirgefa Evrópusambandið í júní. Það væri ekki slæm ákvörðun fyrir Breta, en til skemmri tíma litið mun útgangan auka efnahagslega óvissu, ekki aðeins í Bretlandi heldur í Evrópu allri og raunar víðar.

Hér í hinu íslenska glerbúri líta hlutirnir ágætlega út. Hagvöxtur er mikill og kaupmáttaraukning sömuleiðis. Kröfuhafar eru búnir að punga út fyrir reisupassanum og kjósendur telja sig hafa efni á að kjósa yfir sig Pírata. Utan landsteinanna eru veður hins vegar válynd.

Óskandi er að við munum ekki þurfa að rifja upp ræðu Elísabetar um næstu áramót eða yfirbjóða hana í latínunni.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.