*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Leiðari
26. mars 2021 19:12

Ár óvissunnar

Afkomubati ríkissjóðs í fyrra frá því sem spáð hafði verið myndi duga fyrir bróðurhluta nýs Landspítala.

Haraldur Guðjónsson

Í fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026 og Þjóðhagsspá Hagstofunnar sem birtar voru síðdegis á mánudag kom fram að efnahagssamdráttur síðasta árs, og halli ríkissjóðs, hefði verið nokkuð minni en óttast hafði verið.

Hagsamdrátturinn mældist 6,6% í fyrra, en 7,6% samdrætti var spáð í síðustu Þjóðhagsspá í októberbyrjun, og í júní síðastliðnum spáði Hagstofan 8,4% samdrætti. Til samanburðar nam samdrátturinn 6,8% árið 2009, sem þá var sá mesti frá upphafi þjóðhagsreikningagerðar árið 1945. Við sluppum því naumlega við það Íslandsmet á COVID-árinu.

Afkoma ríkissjóðs var einnig talsvert betri en á hafði horfst. Í Fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 sem lögð var fram síðasta haust var gert ráð fyrir 272 milljarða króna halla, en tölur Hagstofunnar gefa nú til kynna að hann hafi numið um 200 milljörðum sléttum. Það er dágóð summa fyrir ríkissjóð.

Horfur út áætlunartímann bötnuðu að sama skapi umtalsvert. Er nú gert ráð fyrir að skuldasöfnun ríkissjóðs stöðvist eftir fjögur ár, þegar opinberar skuldir nemi 54% vergrar landsframleiðslu, í stað 60% sem gert var ráð fyrir í haust. Þar munar á þriðja hundrað milljörðum á verðlagi dagsins í dag, sem aftur er fínasta upphæð.

Þótt myndin sem teiknuð er upp sé orðin örlítið bjartari, er hún enginn dans á rósum, eins og gefur að skilja. 200 milljarða halli á einu ári er eftir sem áður reiðarslag fyrir ríkissjóð, og skuldastaðan sem stefnt er að enn tæplega tvöföldun á hálfum áratug. Þrátt fyrir allan fjárausturinn er því spáð að atvinnuleysi fari ekki undir 5% fyrr en árið 2025.

Á miðvikudagsmorgun ákvað peningastefnunefnd Seðlabankans að halda stýrivöxtum óbreyttum í sögulegu lágmarki sínu, og margir spá því að þar verði þeir út árið. Líklega hafa þær fregnir sem á okkur dundu þegar líða tók á daginn gert það enn líklegra að svo verði, og jafnvel slegið á þær örlítið hærri verðbólguvæntingar sem gert höfðu vart við sig að sögn nefndarinnar.

Rauði þráðurinn í þeim horfum, spám og ákvörðunum stjórnvalda sem hér hefur verið vikið að er þó sú gríðarlega óvissa sem enn ríkir. Hún kemur skýrt fram í áðurnefndum bata á afkomu ríkissjóðs frá síðustu spá, sem myndi duga fyrir bróðurhluta nýs Landspítala, svo dæmi sé tekið, svo ekki sé minnst á þær sviptingar sem líkast til urðu á efnahagsforsendum margra næstu misserin síðdegis á miðvikudag.

Þessi óvissa hefur vitanlega verið til staðar frá því að faraldurinn hófst, og segja má að sú sem nú ríkir blikni í samanburði við ástandið fyrir rétt um ári síðan. Hún litar allar horfur og spár og torveldar áætlanagerð, og þar má finna áþreifanlegri fórnarlömb en afkomu og framtíðarskuldastöðu ríkissjóðs.

Slá má því föstu að þegar upp verður staðið muni mörg fyrirtæki hafa háð þrotlausa lífsbaráttu, jafnvel í á annað ár, til þess eins að falla óhjákvæmilega í valinn þegar öll kurl verða komin til grafar. Það kann ekki síður að vera sárt, að eflaust verða mörg störf, fyrirtæki og annarskonar starfsemi lögð niður, sem síðar kemur í ljós að hefðu lifað af, og jafnvel blómstrað.

Auðvitað er þó óvissa alltaf til staðar þótt hún sé heldur meiri en oft áður. Huga þarf að framtíðinni eftir faraldurinn. Stjórnvöld hafa réttilega stigið skref til að hvetja til nýsköpunar og byggja undir hagvöxt framtíðar. Mörg ár mun taka fyrir ferðaþjónustuna að ná vopnum sínum á sama tíma og nýsköpunargeirinn er í miklum blóma. Þar liggur leiðin fram á við út úr faraldrinum.

Atburðir gærdagsins voru aðeins nýjasta beygjan í þeim væntingarússíbana sem einkennt hefur síðastliðið ár. Við skulum krossleggja fingur og vona að hún verði sú síðasta.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.