*

laugardagur, 29. janúar 2022
Örn Arnarson
2. janúar 2022 12:02

Áramótaandvarp fjölmiðlarýnis

Hér er um að ræða stutt andvarp fjölmiðlarýnis innblásið af helstu hugðarefnum hans eins og þau birtast í samnefndum dálki í Viðskiptablaðinu.

Að undanförnu hefur þeirri kenningu verið haldið á lofti að árið 2021 hafi þrátt fyrir allt aldrei gengið í garð enda hafi allt það sem gengið hefur á undanfarna tólf mánuði verið með sama hætti og tímabilið sem undan gekk. Við nánari skoðun má sjá hnökra á þessari kenningu: Hefðbundið röfl um áramótaskaup og svifryksmengun á útmánuðum bendir til þess áðurnefnd tímamót hafi sannarlega gengið í garð. Auk þess hefur á undanförnum misserum orðið vart við væntingar að hinu langa Covid-ári sem hófst veturinn 2020 fari að ljúka þrátt fyrir að endurtekið bakslag hafi orðið í baráttunni við veiruna undanfarin misseri.

Síðasta vetur stóðu vonir flestra til að bólusetning þorra landsmanna myndi losa þjóðlífið undan klafa sóttvarnaaðgerða og ógn veirunnar. Stjórnvöld lýstu því yfir að stefnan væri að meirihluti landsmanna yrði bólusettur um mitt ár. Gáfu flestir sér að ef það markmið næðist væri hægt að slaka á öllum sóttvarnaaðgerðum og lífið færi loks að ganga sinn vanagang.

Að vísu voru uppi efasemdir fyrstu mánuði ársins um að þetta markmið myndi nást. Enda var fátt sem benti til þess að nægilegt magn af bóluefni bærist til landsins og sé horft til hjákátlegs blaðamannafundar sem stjórnvöld boðuðu til þegar einn skókassi með nokkrum skömmtum af bóluefni barst til landsins var ekki mikils að vænta í þessum efnum.

En áætlanir stjórnvalda stóðust og snemmsumars voru allir landsmenn búnir að fá boð í bólusetningar. Fulltrúar flestra árganga gengu þakklátir til bólusetningar í hinni niðurníddu Laugardalshöll en hinir allra peppuðustu þurftu að fá sjálfan Dadda diskó til að þeyta skífum til þess að hjálpa sér yfir erfiðasta hjallann. Um það mætti hafa mörg orð sem ekki verða færð til bókar hér.

Þegar sumarsólin stóð hæst á lofti var svo öllum sóttvarnaaðgerðum hætt. Því var fagnað með miklum lúðrablæstri landsmanna sem vonlegt var. Ferðamönnum fjölgaði samhliða tilslökunum hér á landi og erlendis. Að sama skapi tóku Íslendingar við sér og hófu að herja á Tenerife á ný.

* * *

Íslenska afbrigðið

Lífið fékk loks að ganga sinn vanagang í sumar. Það stóð eigi að síður aðeins yfir í nokkrar vikur. Segja má að með sameiginlegu átaki sóttvarnayfirvalda og fjölmiðla hafi tekist að skjóta landsmönnum skelk í bringu vegna hins svokallaða delta afbrigðis kórónuveirunnar. Smitum tók að fjölga lítillega vegna þessa afbrigðis í júlílok. Eigi að síður var engum vafa undirorpið að bólusetningin veitti góða vörn en fæstir sem smituðust veiktust alvarlega.

Þegar smitum tók að fjölga lítillega í júlí fóru fyrirliðar baráttunnar gegn veirunni að hamra á því að um veldisvöxt væri að ræða og söngurinn um ástandið á Landspítalanum var enn á ný sunginn. Rétt er að taka fram að þessi söngur um ástandið á Landspítalanum er sunginn óháð öllum heimsfaröldrum á þessum árstíma enda eru embættismenn í fjármálaráðuneytinu á kafi við að berja saman fjárlög næsta árs. Ekki voru allir fjölmiðlar reiðubúnir til þess að dansa við sönginn í þetta sinn. Upplýst var um að heilbrigðisyfirvöld reyndu að fá Morgunblaðið til þess að fjarlægja frétt sem fjallaði um að nánast allir sem greinst hefðu með veiruna að undanförnu væru einkennalausir. Fréttin byggði á upplýsingum frá Landspítalanum sjálfum og fyrirsögn fréttarinnar var: 97 prósent einkennalaus eða nær einkennalaus. Í fréttinni, sem birtist 23. júlí, kemur fram að af þeim 369 sem þá voru greind með virk smit voru 358 með væg eða engin einkenni.

Ekki hefur verið enn upplýst hvers vegna erindrekar Landspítalans og Almannavarna vildu að Morgunblaðið fjarlægði þessa frétt af vef sínum en í henni var ekkert að finna annað en staðreyndir og tölfræðilegar upplýsingar sem þessar stofnanir höfðu opinberað. Enn sem komið er hefur ekkert heyrst frá Blaðamannafélagi Íslands vegna þessa máls og sætir það furðu í ljósi þess hvernig félagið hefur beitt sér að undanförnu.

Sama dag og umtöluð frétt birtist á vef Morgunblaðsins birti fréttamiðillinn Vísir frétt sem var unnin úr sömu upplýsingum og blaðamenn Morgunblaðsins gerðu að umfjöllunarefni. Fyrirsögn þeirra fréttar var: Tuttugu og átta börn í eftirliti á Covid-göngudeild. Lestur fréttarinnar veitir lesanda strax þau hughrif að þessi veiku börn liggi illa haldin á Landspítalanum vegna veirusýkingar. Blaðamaður sá enga ástæðu til þess að taka það fram að í eftirlitinu felst einungis það að sá sem hefur smitast fær símtal frá lækni sem spyr hann út í líðan. Framsetning Vísis flokkast undir ódýra æsifréttamennsku og ekkert hefur komið fram um að almannayfirvöld hafi gert athugasemdir við þennan fréttaflutning.

* * *

Tónninn sleginn fyrir nýtt ár?

Allar götur síðan hafa sóttvarnaaðgerðir verið hertar og fjölmiðlar klifað á því hversu margir greinast með smit á hverjum degi. Minna er fjallað um að fæstir sem smitast veikist með alvarlegum hætti og álagið á Landspítalanum vegna veirunnar er stöðugt og enginn vöxtur greinanlegur undanfarna mánuði. Sóttvarnaaðgerðir voru hertar í nóvember með vísun í ótta sóttvarnarlæknis um að fjölgun smita myndi leiða til glundroða á Landspítalanum. Í minnisblaðinu sem lá til grundvallar ákvörðuninni kom fram að þó svo að spítalakerfið á Íslandi væri ekki komið á neyðarstig mætti telja sterkar líkur á að ef ekki yrði brugðist við með takmörkunum innanlands þá myndi ekki líða langur tími þar til neyðarástand skapaðist í heilbrigðiskerfi landsins með ófyrirséðum afleiðingum.

Sóttvarnalæknir lýsti því yfir að ná þyrfti daglegum fjölda smita í um 50 með aðgerðum þangað til hjarðofnæmi næðist til að heilbrigðiskerfið réði við álagið. Frá því að sóttvarnaaðgerðir voru hertar í nóvember hafa dagleg smit verið að jafnaði á bilinu 100- 200 á degi hverjum. En á sama tíma hafa litlar breytingar orðið á fjölda þeirra sem hafa þurft aðhlynningu á sjúkrahúsum vegna kóvid. Það sama á við þá sem hafa veikst svo alvarlega að þeir hafa þurft að leggjast á gjörgæsludeild Landspítalans. Að jafnaði hafa um tuttugu legið á sjúkradeildum undanfarinn mánuð þrátt fyrir fjölgun smita.

Að óreyndu máli hefðu margir ætlað að sú staðreynd að bólusetning gegn veirunni sé að virka vel og Landspítalinn ráði vel við fjölgun smita leiddi til þess að umræða færi fram um gildi núverandi aðgerða og hvort það geti með góðu móti talist réttlætanlegt að halda þeim úti til ófyrirséðrar framtíðar þar til hjarðónæmi næst. Ljóst er að fátt mun breytast í þessum efnum fyrr en sú umræða fer fram en því miður er ekkert sem bendir til þess og því má búast við að komandi ár markist af sömu aðgerðum og nú eru í gildi. Að minnsta kosti er ekkert sem bendir til þess að fjölmiðlar muni stuðla að þeirri umræðu á næstu mánuðum.

* * *

Ósagðar fréttir

Það var ánægjulegt hversu mikið einstaklingum í hópi hluthafa skráðra fyrirtækja fjölgaði á árinu. Um mitt sumar áttu fleiri en 30 þúsund manns hlutabréf í félögum sem eru skráð í Kauphöllinni. Við árslok 2019 áttu um 8 þúsund manns slíka eign og hefur því hópurinn fjórfaldast á einungis tveimur árum.

Tvennt skýrir þessa þróun að mestu. Í fyrsta lagi lækkandi vaxtarstig sem hefur leitt til þess að þeir sem eiga sparnað hafa farið með fé sitt úr innstæðum yfir í aðrar eignir á borð við hlutabréf. Ber því þessi þróun vitni um ágæta stöðu flestra heimila. Í öðru lagi hefur skráðum félögum í Kauphöllinni fjölgað undanfarin ár og útlit er fyrir að framhald verði á næstu misseri.

Það sem er ekki síst áhugavert við þessa þróun er að almenningur hefur tekið í miklum mæli þátt í hlutabréfaútboðum félaga á leið á markað þrátt fyrir andstöðu verkalýðshreyfingarinnar. Ekki hefur farið fram hlutafjárútboð hér á landi á undanförnum árum án þess að helstu leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar hafi reynt að bregða fyrir því fæti. Flestum er í fersku minni framganga verkalýðsleiðtoga á borð við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, í aðdraganda hlutafjárútboðs Icelandair 2019 en hann lék sama leik fyrir vel lukkað útboð Síldarvinnslunnar. Drífa Snædal forseti ASÍ fór svo mikinn í aðdraganda skráningar flugfélagsins Play og í framhaldinu beindi Alþýðusambandið þeim tilmælum til landsmanna að þeir ættu ekki í viðskiptum við félagið. Það er ánægjulegt að þessi málflutningur forsvarsmanna hinna vinnandi stétta naut ekki hljómgrunns hjá almenningi - þar með talið hinum vinnandi stéttum - og vekur það upp áleitnar spurningar um erindi þessara leiðtoga verkalýðshreyfingarinnar.

Kór úrtöluradda varð fjölmennari þegar kom að skráningu Íslandsbanka. Þá voru efnahagsráðgjafar verkalýðshreyfingarinnar færðir í búning sérfræðinga úr háskólunum í fjölmiðlum sem sáu allt til foráttu að ríkið seldi hlut í Íslandsbanka í almennu útboði. Gagnrýnin var í formi stagls um að þarna hafi stjórnvöld afhent einhverri fámennri auðstétt verðmæti á vildarkjörum. Þetta reyndist auðvitað innantómt þvaður eins og þátttaka tugþúsunda Íslendinga í útboðinu sýnir. Nú þegar hálft ár er liðið frá útboðinu og ný ríkisstjórn hyggur á áframhaldandi sölu á hlut sínum í bankanum væri áhugavert ef að fjölmiðlar leituðu uppi þessa sérfræðinga til að fá álit þeirra á framhaldinu.

En annars má velta fyrir sér hvernig fjárfestavernd er háttað nú þegar þátttaka almennings á hlutabréfamarkaðnum er jafn mikil og raun ber vitni. Innleiðing tilskipana á borð við MiFID II takmarkar svigrúm fjármálafyrirtækja til þess að veita almenna fjárfestingaráðgjöf á hlutabréfamarkaði og umfang Íslandsbanka var slíkt að Bankasýslan réði til starfa þau fjármálafyrirtæki sem annars hefðu getað veitt almenningi fjárfestingaráðgjöf. Eftir stóð ráðgjöf sérfræðinga í verðmati fjármálafyrirtækja úr hópi stjórnmálamanna og landgönguliða þeirra.

Þátttaka almennings í þessum útboðum ber fjármálalæsi hans fagurt vitni. Hann hlustaði ekki á háværustu ráðgjöfina í þessum efnum. Reyndar er áhugavert að velta fyrir sér þessari miklu umræðu um að fjármálalæsi almennings sé ábótavant. Fátt bendir til þess að fyrir þeirri fullyrðingu sé fótur. Þannig má benda að hagtölur sýna að fólk hafi verið fljótt að aðlaga sig að breyttu vaxtarstigi og vaxtahorfum á undanförnum árum og nýtt sér kvikan markað endurfjármögnunar fasteignalána.

Þessum greinarstúf er ekki ætlað að vera nákvæm yfirferð yfir það sem gerðist á Íslandi á árinu sem er að líða. Hér er um að ræða stutt andvarp fjölmiðlarýnis innblásið af helstu hugðarefnum hans eins og þau birtast í samnefndum dálki í Viðskiptablaðinu. Vissulega er að mörgu að taka: Hér hefur ekkert verið minnst á smasshamborgarastaði og hvað þá hinu vasklegu framgöngu Fjölmiðlanefndar þegar kemur að því að koma böndum á hinn óhefta vöxt íslenskra hlaðvarpa á árinu.

Að því sögðu óskar höfundur lesendum Viðskiptablaðsins og landsmönnum öllum árs og friðar. 


Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.