*

sunnudagur, 13. júní 2021
Örn Arnarson
1. janúar 2021 13:01

Áramótaandvarp

Fjölmiðlarýnir fer yfir ár heimsfaraldursins og óskar lesendum Viðskiptablaðsins árs og friðar.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir og Alma Möller landlæknir.

Þegar þetta er skrifað hefur árið 2020 ekki enn runnið sitt skeið á enda. Miðað við það sem á undan er gengið er óvarlegt að ganga út frá því sem vísu að þetta skelfilega ár renni nokkurn tímann í aldanna skaut. Eigi að síður er rétt að vona hið besta og að árið 2021 heilsi okkur á tilsettum tíma. Við þau tímamót er rétt að líta um öxl og stikla á stóru þegar kemur að árinu sem vonandi fer að líða og kemur aldrei aftur.

Eins og flestir vita er það helst að frétta af Íslandi að veðrið er mismunandi vont. Á útmánuðum 2020 voru veður válynd og þótti mörgum nóg um. En annars hófst árið með hefðbundnum hætti: Röfl um flugelda, svifryk og áramótaskaup í byrjun árs ásamt öðrum dægurfregnum sem fljótt hverfa í gleymskunnar dá. Fréttirnar á fyrstu mánuðum ársins einkenndust með öðrum orðum af umræðum um stöðu ferðaþjónustunnar, verkfallshótunum stéttarfélaganna og öðrum fyrirsjáanlegum leiðindum.

Af vettvangi fjölmiðla fyrstu mánuði ársins stendur það helst upp úr að starfsmaður Ríkisútvarpsins lofaði hlustendum sínum að bylting yrði á Íslandi ef nýr útvarpsstjóri yrði ráðinn úr röðum Sjálfstæðismanna. Varð það ekki í fyrsta sinn sem hlustendur þurftu að hlýða á áköll um byltingu úr viðtækjum sínum á árinu. Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi í haust að eðlilegt væri að fólk rændi völdum af lýðræðislega kjörnum stjórnmálamönnum ef þingið samþykkir ekki meingallaða samsuðu hins svokallaða stjórnlagaráðs.

Ekki hefur enn verið efnt til byltingar. Stefán Eiríksson, fyrrverandi borgarritari og lögreglustjóri, var ráðinn útvarpsstjóri meðal annars vegna mikillar reynslu af samfélagsmiðlum og leikarar og dægurtónlistarmenn af yngri kynslóðinni ráfa enn um götur miðbæjarins í leit sinni að nýrri stjórnarskrá og þeim 40 milljörðum sem hún á að færa úr sjávarútveginum yfir í hinar skapandi listir á ári hverju.

* * *

Faraldurinn drepur á dyr

Þegar líða tók á febrúarmánuð varð flestum ljóst að kórónuveiran myndi leiða til heimsfaraldurs með gríðarlegum búsifjum og skellurinn yrði mikill hér á landi meðal annars vegna mikilvægis ferðaþjónustunnar fyrir efnahagskerfið. Segja má að stjórnvöld hafi þá stigið með afgerandi hætti fram og boðað fjölþættar aðgerðir til þess að styðja við efnahagslífið og það sama má segja um stjórnendur Seðlabankans sem boðuðu að þeir myndu gera meira frekar en minna til að vinna gegn samdrættinum sem fyrirséð var að kórónuveirufaraldurinn myndi valda.

Áhugavert er að skoða fréttaflutning fjölmiðla frá þessum tíma. Flestir miðlar skýra með greinargóðum hætti frá því hvaða afleiðingar faraldurinn kunni að hafa á mikilvægar atvinnugreinar þannig að enginn velktist í vafa að um meiri háttar efnahagslegt áfall væri að ræða. Fréttastofa Ríkisútvarpsins markaði sér ákveðna sérstöðu á þessum tíma en nánast allar fréttir RÚV um efnahagsleg áhrif faraldursins snérust um stöðu mála í Skútustaðahreppi.

* * *

Alheimsfaraldur en ekki Primaloft-plága

Sem fyrr segir þá varð ekki uppi teljanleg skelfing meðal landsmanna þegar fréttir bárust af fyrstu Íslendingunum sem höfðu smitast af kórónuveirunni. Almenningur leit á þetta sem einhvers konar Primaloft-plágu sem herjaði fyrst og fremst á millistjórnendur í Garðabæ og á Seltjarnarnesi sem höfðu farið á skíði í Sviss og Austurríki á meðan vetrarfrí grunnskóla stóð yfir í febrúar. Það breyttist fljótt.

Þegar ljóst varð að smitum var að fjölga hér á landi steig Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og alþingismaður, fram fyrir skjöldu og krafðist þess að landinu yrði lokað og að öllum Íslendingum sem kæmu til landsins yrði gert að fara í sóttkví í Egilshöll. Það vakti athygli að Bændasamtökin tóku ekki undir þessa kröfu Ingu en sem kunnugt er þá hafa þau lagst alfarið gegn innflutningi á hráu ófrosnu kjöti frá Tenerife og öðrum svæðum Evrópu vegna sóttvarnasjónarmiða.

Þrátt fyrir að þessi skoðun Ingu hafi fallið í grýttan jarðveg þegar hún var sett fram í febrúarlok fjölgaði fylgismönnum hennar þegar líða tók á árið. Þá tóku málsmetandi hagfræðingar og fleiri þungavigtarmenn undir þessi sjónarmið og töluðu fyrir að loka hreinlega landinu til að „læsa inn kaupmáttinn“ eins og það var kallað af stjórnlyndum haftasölumönnum um miðja síðustu öld.

* * *

Óður til sóttvarnayfirvalda

Við upphaf sóttvarnaaðgerða stjórnvalda bar á mikilli samstöðu meðal þjóðarinnar. Landinn virtist einsetja sér að takast á við þessa veiru með áhlaupi í nánast heilagri sannfæringu um að þríeykið svokallaða – þau Alma Möller landlæknir, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir – væri óskeikult með öllu. Þau tóku nánast yfir sviðið og útskýrðu aðgerðirnar – tilgang þeirra og markmið – með þeim hætti að þjóðin hlustaði og hlýddi. Yfirlýst markmið var að fletja út kúrfuna þannig að óheft dreifing veirunnar myndi ekki valda álagi sem heilbrigðiskerfið myndi ekki ráða við. Þegar landsmenn voru beðnir um að halda sig heima fyrir gegndu þeir því og popparar landsins fundu sig knúna til þess að gefa út dægurlög til heiðurs þessu ágæta fólki.

Fyrir utan Ingu Sæland voru ekki margar sem gagnrýndu aðgerðir sóttvarnayfirvalda síðla vetur. Það er einna helst Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi alþingismaður, sem kemur upp í hugann í þessu samhengi. Áhugavert er að rifja upp opið bréf sem hann skrifaði til sóttvarnalæknis ásamt Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur. Í bréfinu, sem var birt í aprílbyrjun, voru sóttvarnayfirvöld gagnrýnd harðlega af Frosta og Ólínu fyrir að ætla að fletja út kúrfuna í stað þess að grípa til aðgerða sem gætu útrýmt veirunni.

Þórólfur sóttvarnalæknir svaraði bréfinu stuttu síðar og sagði að það væri með öllu óraunhæft að ætla að stöðva útbreiðslu veirunnar með öllu og landsmenn ættu að búa sig undir að lifa með þessari veiru í marga mánuði, jafnvel misseri. Vissulega lögðu fleiri orð í belg. Allir áttu þeir það sameiginlegt að vera ekki stjórnmálamenn enda hefur þögn þeirra í umræðum um sóttvarnaaðgerðir og markmið þeirra og fórnarkostnað verið nánast æpandi á árinu með örfáum undantekningum.

* * *

Svikalogn að sumri

Vel gekk að ráða niðurlögum fyrstu bylgju veirunnar. Þegar líða tók á sumarið var eins og áhyggjur landsmanna af áhrifum kórónuveirunnar hefðu gufað upp. Í stað þess að miðla af sérfræðiþekkingu sinni á sóttvarnaaðgerðum fór landinn að rífast um auglýsingar sem Íslandsstofa lét gera til að kynna Ísland sem áfangastað á alþjóðavettvangi og myndband þar sem nýtt merki Knattspyrnusamband Íslands var kynnt til sögunnar á meðan fólk ferðaðist þvers og kruss um Ísland í einmuna veðurblíðu. Rétt er að taka fram að báðar þessar kynningar fengu einhverjar alþjóðlegar viðurkenningar í haust.

Og á sama tíma fylltust byggingavöruverslanir og verslunarmiðstöðvar af fólki sem var einsett að brýna neysluklóna. Allir þjóðvegir voru þéttskipaðar af bifreiðum með fjölskyldum að njóta helstu náttúruperlna Íslands: Dýragarðsins í Slakka og Staðarskála. Fyrir utan KFC, Dominos og Hlölla voru raðir fullar fólki sem var að nota ferðaávísun stjórnvalda til að njóta rjómans af því sem veitingahúsaflóra landsins hefur að bjóða.

Stutt gaman-viðvarandi leiðindi

Með öðrum orðum var gaman um stutta hríð í sumar og ferðagleði landsmanna veitti veikburða ferðaþjónustu tímabundna vítamínssprautu. En gamanið kárnaði fljótt. Síðla sumars tók smitum að fjölga á ný. Á sama tíma urðu þær raddir háværari sem sögðu að stjórnvöld stæðu frammi fyrir tveimur valkostum: Annars vegar að hleypa erlendum ferðamönnum til landsins og eiga hættu á mikilli dreifingu veirunnar. Hins vegar að loka á ferðamenn í þeirri von að halda veirunni í skefjum þannig að kennsla og menningarlíf gæti haldist með sæmilega eðlilegum hætti í vetur. Stjórnvöld kusu seinni kostinn og veittu þeirri viðspyrnu sem ferðaþjónustan sýndi í sumar náðarhögg þegar ákveðið var að bæta sóttkví við tvöfalda skimun á landamærunum.

Segja má að fyrirheit um að strangar landamærareglur gætu leitt til þess að lífið gengi sinn vanagang með tilheyrandi menningar- og íþróttalífi þrátt fyrir veirusmit hafi engan veginn staðist. Þjóðfélagið hefur verið úr skorðum frá því í haust og fátt sem bendir til þess að það muni breytast mikið – það er að segja þar til bólusetningar gegn veirunni hefjast af krafti og hjarðónæmi myndast. Svokallaðar tilslakanir sem gerðar voru á sóttvarnareglum á aðventunni eru ekki til marks um að fólk muni geta sér frjálst um höfuð strokið bráðlega.

Þær voru allar innan þess ramma sem rúmast innan rauða viðbúnaðarstigsins samkvæmt litakóðunarkerfinu sem Almannavarnir kynntu í desember. Í raun og veru er það undrunarefni að ekki skuli hafa farið fram meiri umræða um þennan þátt málsins. Er það enn ein sönnun þess að stjórnmálamenn hafa leitast eftir fjarvistarsönnun þegar kemur að umræðum um sóttvarnaaðgerðir. Þrátt fyrir að almenn sátt ríki um aðgerðirnar er misræmið á milli reglna það mikið og áhrif þess á efnahagslega afkomu einstakra geira það alvarleg að full þörf er á að umræða um hvað megi hugsanlega betur fara án þess að setja markmið aðgerðanna í hættu fari fram á hinum pólitíska vettvangi.

Vissulega hefur verið bent á að sóttvarnaaðgerðir hér á landi hafi síst verið meira íþyngjandi en í öðrum Evrópuríkjum. Það kann að vera rétt en þó umdeilanlegt þegar rýnt er í smáatriðin. En það er að hægt að horfa á hina hliðina á peningnum og spyrja einmitt hvort það séu ekki einmitt góðar og gildar ástæður fyrir því að aðgerðirnar hér gætu verið mun vægari en í stærri ríkjum Evrópu þó svo að sömu markmiðum sé náð á endanum. Í þessu samhengi má nefna að Ísland er eitt dreifbýlasta land álfunnar og almenningssamgöngur eru notaðar í litlu mæli. Í raun og veru geta Íslendingar farið gegnum hversdaginn og sinnt sínum verkefnum án þess að komast í það mikið návígi við ókunnuga að það ógni markmiðum sóttvarnaaðgerða.

* * *

Krókurinn og nýja normið

Þrátt fyrir að bjartsýni ríki um þessar mundir vegna þess að bóluefni er á leið til landsins og flestir beri þá von í brjósti að bjartari tímar séu fram undan er hætt við því að leiðin kunni að vera skrykkjóttari en margir ætla. Í raun og veru segir litviðvörunarkerfi Almannavarna allt sem segja þarf í þeim efnum.

Hættustigið er rautt nú við áramót með verulega íþyngjandi takmörkunum fyrir landsmenn alla. Miðað við það sem sóttvarnayfirvöld hafa gefið út er langur vegur þangað til þau leggja til að þjóðfélagið fái að ganga sinn vanagang – það er að segja eins og við skilgreindum hann í ársbyrjun 2020. Þegar litaviðvörunarkerfið var opinberað á aðventunni var lægsta viðvörunarstigið kynnt til sögunnar sem „nýja normið“.

Það er vissulega fagnaðarefni að sóttvarnayfirvöld hafi kosið að heiðra minningu Péturs Kristjánssonar með þessa nýja litakerfi en að sama skapi umhugsunarvert að hinu „nýja normi“ fylgja áfram meiri háttar takmarkanir á athafnafrelsi landsmanna. Ljóst er að varlega verður stigið til jarðar þegar kemur að því að færa viðbúnað úr rauða stiginu sem nú gildir og því er ekki óvarlegt að álykta sem svo að harðar sóttvarnaaðgerðir verði í gildi langt fram á næsta ár.

Augljóslega mun hraðinn á bólusetningar landsmanna ráða miklu þar um en rétt er að hafa í huga nýleg ummæli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um að þörf gæti verið á áframhaldandi sóttvarnaaðgerðum þó svo að veiran hafi verið kveðin niður. Þrátt fyrir að þessi ummæli kalli óvírætt á frekari skýringar af hálfu ráðherra hefur hún ekki verið krafin um slíkt enn sem komið er.

* * *

Af stjórnmálum

Stjórnvöld brugðust snemma við þeim efnahagslegu áskorunum sem stafar af kórónuveirufaraldrinum. Fjármálastefna ríkisstjórnarinnar hefur að einhverju leyti verið ábyrg undanfarin ár og í krafti lágrar skuldastöðu gat ríkissjóður aukið útgjöld verulega til þess að mæta áhrifum efnahagsáfallsins sem fylgdi í kjölfar faraldursins. Tíminn mun auðvitað leiða í ljós hversu miklum árangri þessar aðgerðir munu koma til með að skila og svara spurningum um hvort önnur úrræði hefðu ekki skilað meiri árangri. En taka verður viljann fyrir verkið sökum þeirrar miklu óvissu sem við var að eiga við upphaf faraldursins.

Ekki verður sagt að samtal stjórnar og stjórnarandstöðu um efnahagsaðgerðir vegna faraldursins hafi verið gagnlegar. Sem fyrr segir réðst ríkisstjórnin í mikla útgjaldaaukningu við upphaf faraldursins – aukningu sem ekki sér fyrir endann á. Á sama tíma virðist eina erindi stjórnarandstöðunnar vera að leggja til enn frekari útgjaldaaukningar og gildir einu til hvaða málaflokks er horft. Á meðan virðist svo vera þverpólitísk sátt um undarleg mál á borð við að gera alla frjálsa fjölmiðla háða ríkisstyrkjum og takmarka innflutning á fersku kjöti frá Evrópu þannig að neytendur eigi þann eina kost að kaupa verra kjöt af íslenskum bændum og greiða fyrir það hærra verð.

Á þessum kosningavetri er ekki að vænta að yfirboðum um enn frekari útgjaldaaukningu ríkisins linni. Það leiðir hugann að getu ríkissjóðs til þess að fjármagna hallareksturinn – réttara sagt á hvaða kjörum það verður gert. Þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi lækkað stýrivexti skart á árinu hefur lækkunin ekki að öllu leyti skilað sér í vaxtarófið á skuldabréfamarkaðnum.

Í þessu samhengi má nefna að þegar þetta er skrifað eru heimili landsins að fjármagna fasteignalán sín á sambærilegum kjörum og ríkið. Að óbreyttu mun þetta kalla á áskoranir við stjórn fjármála þjóðarskútunnar á komandi ári. Reykjavíkurborg hefur fundið smjörþefinn af þessari þróun en kjörin sem borginni bauðst í nýafstöðnu skuldabréfaútboði voru umtalsvert verri en í skuldabréfaútboði sem fór fram í vor.

Vissulega eru aðrir kostir á borðinu: Ríkið gæti hæglega gripið til erlendrar lántöku á umtalsvert betri kjörum en býðst nú á innlendum skuldabréfamarkaði til að fjármagna hallareksturinn og svo er auðvitað spurning hvenær Seðlabankinn grípur til boðaðrar magnbundinnar íhlutunar á skuldabréfamarkaði. Jafnframt má velta fyrir sér hversu lengi lífeyrissjóðirnir geti í raun staðið á hliðarlínunni á íslenska skuldabréfamarkaðnum. Svo mörg voru þau orð. Fjölmiðlarýnir óskar lesendum Viðskiptablaðsins árs og friðar.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.