Fátt fer jafn mikið í taugarnar á „góða“ fólkinu og Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra. Brynjar gerir það enda að leik sínum að pakka skoðunum sínum inn í kaldhæðni og húmor þannig að þær ergi sem flesta sósíalista, auðsjáanlega vegna þess að viðbrögðin veita honum ánægju.

Týr er sæmilega læs á húmor og kaldhæðni og hefur ekki orðið var við að skoðanir Brynjars hafi verið öfgafullar – gamaldags stundum, en maðurinn er nú einu sinni kominn af léttasta skeiði.

***

Margir sósíalistar hafa gefist upp á að hjóla í Brynjar með skömmum vegna þess að það hefur ekki tilætluð áhrif, hann móttekur ekki skömmina. Hvað er þá til bragðs að taka ef maðurinn tekur ekki við skömminni og skýtur bara fastar til baka?

Jú, þá er reynt að beita útskúfun – refsingum frá fornöld sem voru aflagðar fyrir margt löngu á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Sósíalistar eru mjög hrifnir af því að endurvinna úreltar aðferðir, sem allt sæmilega skynsamt fólk veit að tilheyra fortíðinni af ástæðu. Þarna gætir smá misskilnings um hvað hringrásarhagkerfið snýst, en sósíalistar hafa svo sem aldrei náð góðum skilningi á hagkerfum yfir höfuð.

***

Stjórnendur lítilla hlaðvarpa hafa fengið yfir sig holskeflu sósíalista í miklu tilfinningauppnámi sem æsa sig yfir því að Brynjari sé veittur vettvangur til að tjá sig. Þeir tilkynna efni tengt honum á samfélagsmiðlum í gríð og erg, með það að marki að þagga niður skoðanir mannsins, einfaldlega vegna þess að þeir eru honum ósammála og þeir þola ekki að aðrar skoðanir en þeirra eigin heyrist.

Það var furðuleg uppákoma um liðna helgi þegar Kristján Kristjánsson, annars afbragðsfínn þáttastjórnandi Sprengisands, tók einhvern furðulegan snúning í viðtali sínu við Guðlaug Þór Þórðarson umhverfisráðherra, þar sem hann virtist reyna að fá ráðherrann til að úthýsa Brynjari og skoðunum hans úr Sjálfstæðisflokknum.

***

Sem betur fer hafa útskúfunarsinnar ekki haft erindi sem erfiði við útskúfun Brynjars, frekar en við skömmunina.

Týr er þó áhyggjufullur yfir þessari yfirgengilegu útskúfunarmenningu gagnvart venjulegu fólki, með skoðanir sem seint geta talist öfgafullar, og virðist miða að því að festa í sessi einhverja ríkishugsun. Þessir tilburðir eru stórhættuleg ógn við málfrelsi í landinu.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 1. desember 2022.