*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Huginn og muninn
12. desember 2021 10:02

Arðgreiðslur og grunnlaun

Formaður BSRB, stærstu hagsmunasamtaka opinberra starfsmanna á Íslandi, sakar Samtök atvinnulífsins um áróður.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Aðsend mynd

Hið opinbera leiðir nú launaþróunina í landinu samkvæmt frétt sem Morgunblaðið birti á dögunum. Með fréttinni fylgir graf, sem byggir á upplýsingum frá kjaratölfræðinefnd og Hagstofu Íslands. Grafið sýnir svart á hvítu að launavísitala starfsmanna ríkis og sveitarfélaga er komin langt fram úr launavísitölu almenna markaðarins.

Daginn eftir að Mogginn birti þessa frétt vöktu Halldór Benjamín Þorbergsson og félagar hans í Samtökum atvinnulífsins (SA) athygli á því að samkvæmt úrvinnslu Hagstofunnar á skattskrám hefði starfsfólki á vinnumarkaði fjölgað um eitt þúsund á fjórum árum eða frá september 2017 til september 2021. Það sem vakti óhug hrafnanna við þennan lestur er að á þessu tímabili hefur opinberum starfsmönnum fjölgaði um 9 þúsund en starfsfólki í einkageiranum hefur fækkað um 8 þúsund. Báknið heldur áfram að blása út skattgreiðendum til vansa.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, ritaði í framhaldinu grein, sem birtist á Vísi undir fyrirsögninni „Áróður hagsmunasamtaka stórfyrirtækja“. Hún reynir eftir fremsta megni að hrekja þennan fréttaflutning og birtir graf sem sýnir að meðaltal grunnlauna á almenna markaðnum sé hærra en á hinum opinbera. Þetta er auðvitað glórulaus framsetning því allir vita að opinberir starfsmenn fá greitt fyrir hverja mínútu sem þeir vinna fram yfir hefðbundinn vinnutíma og það er ekkert leyndarmál að yfirvinna er oft inni í grunnlaunum á almenna markaðnum. Auðvitað segja heildarlaun því söguna en ekki grunnlaun.

Sonju Ýr er tíðrætt um að SA séu hagsmunasamtök stærstu fyrirtækja landsins, „fyrirtækja sem mörg hver greiða gríðarháar arðgreiðslur“ svona eins og það sé glæpur hjá vel reknum fyrirtækjum að greiða eigendum sínum arð – eigendum sem eru meðal annars lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna. Auðvitað ber að lesa þessa grein Sonju Ýrar í því ljósi að hún fer fyrir stærstu hagsmunasamtökum opinberra starfsmanna á Íslandi.  

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.