*

sunnudagur, 13. júní 2021
Örn Arnarson
30. nóvember 2020 07:23

Arðgreiðslur og upplýsingaóreiða

Það vekur athygli að seðlabankastjóri segir að eðlileg arðgreiðsla skráðs fyrirtækis gæti grafið undan gengi krónunnar.

Landspítalinn við Hringbraut.
Haraldur Guðjónsson

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri var fyrirferðarmikill í fjölmiðlum í kjölfar þess að peningastefnunefnd bankans ákvað að lækka vexti þvert á væntingar í síðustu viku. Daginn eftir vaxtalækkunina birtist viðtal Harðar Ægissonar viðskiptaritstjóra við Ásgeir í Fréttablaðinu. Þar spyr Hörður hvort einhver ástæða sé til þess að beina því til viðskiptabankanna að þeir haldi að sér höndum þegar kemur að arðgreiðslum á komandi ári. Sem kunnugt er þá eru sumir viðskiptabankanna með feikilega mikið eigið fé umfram kröfur Seðlabankans og það gerir þeim erfiðara um vik að ná ásættanlegri arðsemi eigin fjár.

Seðlabankastjóri svaraði spurningu Harðar með því að segja að ekki hafi verið lagt bann við arðgreiðslum heldur væri um tilmæli að ræða. Svo bætir Ásgeir við: „Það spilar líka hér inn í að í tilfelli eins banka, Arion banka, eru erlendir sjóðir umsvifamiklir í eigendahópnum og ég hef áhyggjur af því hvaða áhrif það hefði á gengi krónunnar ef bankinn myndi greiða út umtalsverða fjárhæð í arð til hluthafa þegar gjaldeyrismarkaðurinn er veikur fyrir.“

Þarna segir seðlabankastjóri efnislega að gjaldeyrismarkaðurinn sé svo veikburða að gengi krónunnar kynni að veikjast við það eitt að eigendur Arion myndu ákveða að greiða út arð á næsta ársfundi. Það hlýtur að vekja athygli þeirra útlendinga sem hafa fjárfest hér á landi að seðlabankastjórinn segir að eðlileg arðgreiðsla skráðs fyrirtækis gæti grafið undan gengi krónunnar og það valdi honum hugarangri. Það er umhugsunarefni að þeir fjölmiðlar sem tóku viðtal við Ásgeir í framhaldinu hafi ekki spurt hann frekar út í þessi ummæli og óskað eftir frekari skýringum á þeim. Ummælin vekja upp fjölda áleitinna spurninga: Telur seðlabankastjóri erlenda fjárfestingu varhugaverða í þessu ljósi? Einskorðast þessar áhyggjur seðlabankastjóra við Arion banka eða telur hann almennt að fyrirtæki sem eru að hluta í eigu erlendra fjárfesta greiði ekki út arð? Svona mætti lengi halda áfram.

Ummælin eru ekki síst áhugaverð í ljósi þeirrar staðreyndar að íslenska ríkið á stærsta hluta bankakerfisins og flestum er ljóst að óraunhæft er að það geti selt verulegan hluta Íslandsbanka eða Landsbanka án þess að erlendir fjárfestar taki þátt í kaupunum. Ekki verður séð að þær áhyggjur sem seðlabankastjóri lýsti í viðtalinu verði til þess að glæða áhuga erlendra fjárfesta á slíkri fjárfestingu.

Í þessu samhengi er rétt að benda á að fjöldi íslenskra fyrirtækja þjónustar alþjóðlega fjárfesta sem eiga hagsmuna að gæta hér á landi, meðal annars með útgáfu fréttabréfa á ensku þar sem farið er yfir það helsta af vettvangi efnahagsmála. Vafalaust hafa ummæli seðlabankastjóra ratað í slík rit og velta má fyrir sér hvaða hughrif þau hafa á lesendur – ekki síst þeirra sem muna eftir gjaldeyrishöftunum sem voru í fjármálakreppunni.

                                                    ***

Talandi um sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum: Útibú ríkisbankanna hafa verið meira og minna lokuð stóran hluta ársins vegna faraldursins án þess að viðskiptavinir þeirra hafi fundið fyrir því. Stjórnendur bankanna hafa þó ekki setið auðum höndum. Eins og þeir sem fylgjast með fjölmiðlum hafa tekið eftir hafa ríkisbankarnir sótt í sig veðrið og staðið fyrir tónlistarviðburðum á Netinu, gerð fræðsluþátta um allt milli himins og jarðar og beitt sér fyrir allskonar samfélagslegum verkefnum á borð við að jafna kynjahalla viðmælenda fjölmiðla auk þess að kolefnisjafna allt það sem á vegi þeirra verður. Svo aðeins örfá dæmi séu tekin.

Þessi nýsköpun ríkisbankanna vekur upp spurningu um hvort þarna megi ekki finna málamiðlun milli þeirra sem vilja að ríkið haldi eignarhlut sínum í Íslandsbanka og Landsbanka og þeirra sem telja fráleitt að ríkið bindi á bilinu 300-400 milljarða af skattfé í áhætturekstur á samkeppnismarkaði. Væri ekki hægt að feta bil beggja og taka gömlu FL Group-fléttuna – það er að segja að selja bankareksturinn úr ríkisbönkunum til einkaaðila og svo geta stjórnendur þess sem eftir er í höndum hins opinbera haldið áfram að reka góðgerða- og viðburðadrifna mannræktararminn?

                                                    ***

Fyrsta frétt kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins á laugardag fjallaði um fjárveitingar stjórnvalda til Landspítalans. Í fréttinni var fullyrt að ríkið gerði kröfu um að Landspítalinn skerði rekstur spítalans um 4,3 milljarða króna á næsta rekstrarári. Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir, fréttamaður RÚV, tók svo viðtal við Ólaf Darra Andrason, framkvæmdastjóra fjármálasviðs spítalans, sem eðli málsins bar sig illa vegna þessa mikla niðurskurðar á sama tíma og álag á heilbrigðiskerfinu er með mesta móti. Í Silfrinu daginn eftir var svo klifað á að spítalanum væri gert að hagræða fyrir 4,3 milljarða á næsta ári og var ekki annað að sjá en að þáttastjórnandi og viðmælendur væru með böggum hildar vegna þessa.

Gallinn við þennan fréttaflutning er að hann á ekki við rök að styðjast. Það þarf ekki annað en að fletta upp í frumvarpi fjárlaga næsta árs til að sjá að stjórnvöld gera 0,5% aðhaldskröfu til heilbrigðis- og öldrunarstofnana á næsta ári og þýðir það um 400 milljóna króna aðhald í tilfelli Landspítalans. Frétt RÚV um málið á laugardaginn var um fimm mínútur að lengd og hefði fréttamanni hugkvæmst að ræða við einhvern annan en Ólaf Darra um málið – til að mynda einhvern nefndarmann í fjárlaganefnd – hefðu staðreyndir málsins sennilega komið í ljós. En í stað þess fékk þessi ímyndaði niðurskurður upp á 4,3 milljarða að hanga í loftinu óáreittur þar til að stjórnvöld fundu sig knúin til að leiðrétta málið.

Í tilkynningu sem birt var á vef Stjórnarráðsins á mánudag er áréttað að hagræðingarkrafan sem gerð er til Landspítalans á næsta ári sé 400 milljónir og að heildarframlög til reksturs spítalans muni nema tæplega 80 milljörðum sem er hækkun um ríflega fjóra milljarða milli ára. Í enda tilkynningarinnar er skýrt tekið fram að þrátt fyrir að rekstrarhalli Landspítalans undanfarin ár nemi 3,8 milljörðum þá muni stjórnendur fá svigrúm næstu ár til að vinna hann upp. Með öðrum orðum: Uppsafnaður hallarekstur spítalans leggst ekki ofan á 400 milljón króna hagræðingu næsta árs. Þessi leiðrétting á frétt RÚV frá því á laugardag komst ekki inn í kvöldfréttatíma ríkisfjölmiðilsins. Þess í stað var sett frétt inn á vef RÚV þar sem fullyrðingin um 4,3 milljarða niðurskurð á rekstri Landspítalans var endurtekin.

                                                    ***

Eins og fjallað var um á þessum vettvangi í síðustu viku fór sú staðreynd fyrir brjóstið á mörgum að Einar Þorsteinsson, þáttastjórnandi Kastljóssins, var vel undirbúinn og spurði gagnrýnna spurninga þegar Már Kristjánsson, formaður farsóttanefndar Landspítalans, sat fyrir svörum í síðustu viku um hópsmitið á Landakoti. Þeir sem gagnrýndu Einar ættu að hafa himin höndum tekið þegar Sigríður Hagalín Björnsdóttir tók viðtal við Drífu Snædal, forseta ASÍ, í sama þætti á þriðjudagskvöld.

                                                    ***

Í þættinum fékk Drífa að halda langar ræður um áhugamál sín án þess að þáttastjórnandi spurði hana út í ýmsar fullyrðingar sem í besta falli teljast vafasamar. Þannig klifaði forseti ASÍ á að ríkið gerði kröfu um að Landspítalinn ætti að skera reksturinn um 4,3 milljarða á næsta ári þvert á þær upplýsingar sem fram hafa komið. Einnig fullyrti forsetinn að útreikningar hagfræðideildar Landspítalans á launaþróun hér á landi í evrópskum samanburði – meðal annars þá miklu kaupmáttaraukningu sem landsmenn hafa notið undanfarin ár – sem birst höfðu fyrr um daginn væru vitlausir þar sem þeir tækju ekki tillit til þróunar verðlags. Sem er ekki rétt enda tekur samanburður á kaupmætti tillit til verðbólgu. Þá gagnrýndi Drífa áform stjórnvalda um að hækka frítekjumark fjármagnstekna úr 150 þúsund krónum í 300 þúsund á þeirri forsendu að þar væri verið að hygla fámennri auðstétt á kostnað öreigastéttarinnar. Staðreynd málsins er sú að um 220 þúsund manns greiða skatt af fjármagnstekjum á ári hverju og ætti því þessi aðgerð að koma flestum heimilum vel.

                                                    ***

Og þessu tengt: Á þriðjudag sendi Félag fréttamanna frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem stjórn RÚV er gagnrýnd harðlega fyrir að segja upp þremur fréttamönnum „ á sama tíma og neyðarástand ríki og aukin krafa sé um stöðugar og traustar fréttir“.

                                                    ***

Enn fremur segir í yfirlýsingunni: „Þegar dregið er úr getu fjölmiðla til að stunda gagnrýna blaðamennsku er hætta á að aðgengi almennings að nákvæmum og greinargóðum upplýsingum skerðist. Þetta er sérstaklega hættulegt á tímum upplýsingaóreiðu,“ segir í yfirlýsingu Félags fréttamanna.

                                                    ***

Mikið álag hefur verið á lögreglunni á tímum hertra sóttvarnaaðgerða. Þannig var sagt frá því að lögreglan hefði stöðvað unga menn í Garðabæ sem ógnuðu lýðheilsu landsmanna með því að vera úti í fótbolta. Þá bárust fréttir af því að lögreglan þurfti að bregðast við með snarræði þegar grunsemdir vöknuðu upp um að 16 ára unglingur væri með fleiri en tíu skólasystkini sín í heimsókn um helgina. Grunur lögreglu reyndist á rökum reistur eftir að hún hafði legið á glugga heimilisins og var því gripið til aðgerða sem afstýrðu þessari aðför að lýðheilsu landsmanna.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.