*

föstudagur, 18. september 2020
Leiðari
1. janúar 2020 14:01

Árið sem hægja fór á hagkerfinu

Eftir fordæmalausan uppgang í efnahagslífinu frá árinu 2012 til og með 2018 fór að hægja á hagkerfinu síðasta vetur.

Haraldur Guðjónsson

Í viðskiptalífinu verður ársins 2019 líklega helst minnst fyrir þrennt. Þetta var árið þegar margra mánaða þrautagöngu Wow air lauk með gjaldþroti og árið þegar niðursveiflan í efnahagslífinu hófst. Þessu til viðbótar þá skóku fréttir af meintum mútugreiðslum Samherja í Namibíu íslenskt þjóðlíf. Enn er verið að rannsaka mál Samherja og því ekki tímabært að draga ályktanir.

Eftir fordæmalausan uppgang í efnahagslífinu frá árinu 2012 til og með 2018 fór að hægja á hagkerfinu síðasta vetur. Þá var óvissa vegna kjaraviðræðna á almennum vinnumarkaði, Wow réri lífróður, verðbólguvæntingar fóru hækkandi og krónan gaf eftir um tíma. Nú er rúmt ár síðan Seðlabankinn hækkaði stýrivexti en það var í nóvember árið 2018. Voru vextirnir hækkaðir um 0,25 prósentustig eða í 4,5%. Þegar þetta gerðist höfðu þeir verið óbreyttir í 16 mánuði og ekki hækkað í þrjú ár.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta gerðist. Wow varð gjaldþrota í lok mars og á svipuðum tíma tókust samningar á almennum vinnumarkaði, sem nefndir hafa verið lífskjarasamningar. Á rúmu ári hafa stýrivextir Seðlabankans lækkað úr 4,5% í 3,0% og hafa þeir ekki verið lægri síðan verðbólgumarkmið var formlega tekið upp árið 2001 en samkvæmt því er stöðugt verðlag skilgreint sem 2,5% verðbólga á tólf mánuðum.

Það sem einkennir efnahagsástandið í dag er að Íslendingar eru, líklega í fyrsta skiptið, að upplifa niðursveiflu í stöðugleika. Þó að hagvöxtur mælist nú nálægt núllinu þá hafa lífskjörin ekki að gefið eftir. Í þessu tilliti verður afar fróðlegt að fylgjast með þróun efnahagslífsins næstu mánuði.

Í bókinni 300 stærstu, sem Frjáls verslun gaf út í nóvember, sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að þó það yrði einhver samdráttur á árinu 2018 væru horfurnar í efnahagslífinu tiltölulega góðar. „Að þessu sögðu þá óttast ég reyndar að þetta sé of gott til að vera satt og að þessar jákvæðu spár gangi ekki eftir. Sérstaklega hef ég áhyggjur af erlendum efnahagshorfum sem gætu haft áhrif á ferðaþjónustuna hér heima. Hins vegar mun ríkisfjármálastefnan einnig geta spilað stórt hlutverk – svigrúm er fyrir aukin ríkisútgjöld.“

Það var samt ekki bara svartnætti yfir íslensku viðskiptalífi á árinu því eftir nokkur mögur ár tók hlutabréfamarkaðurinn við sér. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um ríflega 30% á árinu og af þeim 19 félögum sem skráð eru á aðallistann hafa 16 þeirra hækkað í verði það sem af er ári. Þá bættust tvö ný félög á aðallistann en það voru Kvika banki og Iceland Seafood International. Höfðu bæði félögin verið á First North markaðnum. Eitt félag bættist síðan á First North á árinu en það var fasteignaþróunarfélagið Kaldalón. Þá ber að geta þess að Marel, sem hlaut viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar fyrir ári síðan, var skráð í Euronext kauphöllinni í Amsterdam í júní. Var skráningin til viðbótar við skráningu hlutabréfa Marel í íslensku kauphöllinni og var því um tvíhliða skráningu að ræða.

Krónan hlýtur Viðskiptaverðlaunin

Eins og lesendur Áramóta vita hlýtur Krónan Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar árið 2019. Gréta María Grétarsdóttir tók við sem framkvæmdastjóri Krónunnar í september árið 2018 og hefur heldur betur látið til sín taka. Krónan hefur markvisst lagt áherslu á umhverfisog lýðheilsumál. Þessar áherslur hafa vakið verðskuldaða athygli.

Í apríl 2019 fékk Krónan Kuðunginn, sem er umhverfisviðurkenning umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Viðurkenninguna fékk Krónan fyrir að hafa síðustu árum markvisst unnið að samfélagslegri ábyrgð og umhverfismálum í sínum rekstri. Í nóvember hlaut fyrirtækið viðurkenningu frá Samtökum atvinnulífsins fyrir framtak ársins á sviði umhverfismála. Viðurkenninguna fékk Krónan fyrir að hafa haft jákvæð áhrif á umhverfi sitt og fyrir að sýna frumkvæði með nýjum verkefnum til að draga úr sóun og umhverfisáhrifum fyrirtækisins. Þessu til viðbótar fengu tvær verslanir Krónunnar Svansvottun Umhverfisstofnunar núna í haust og er það í fyrsta skiptið sem verslun fær slíka vottun.

Þessi áhersla Krónunnar á samfélagslega ábyrgð ætti að vera öðrum til eftirbreytni ekki síst þegar haft er í huga að reksturinn hefur sjaldan gengið betur.  Rekstur hefur verið yfir áætlunum á fyrstu þremur ársfjórðungum 2019. Veltan á fyrstu níu mánuðum ársins nam 27,1 milljarði króna og því líklegt að hún verði á bilinu 35 til 36 milljarðar á rekstrarárinu. Til samanburðar nam veltan um 28 milljörðum árið 2018, sem og árið 2017. Síðustu þrjú ár hefur Krónan skilað á bilinu 700 til 850 milljóna króna hagnaði á ári. Á þessu ári stefnir í að hagnaðurinn fari yfir milljarð.

Krónan er vel að því komin að hljóta Viðskiptaverðlaunin 2019.

Leiðarinn birtist fyrst í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í fyrradag.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.