Árið sem nú er að líða í aldanna skaut var um margt sérstakt. Kvefpestin Covid-19 setti vitanlega mjög mark sitt á samfélagið þetta árið, líkt og árið á undan.

Þó að bjartara sé yfir íslensku atvinnulífi þá hefur þessi kreppa komið mjög illa við hluta þess. Sérstaklega ferðaþjónustuna sem blæðir að auki vegna galinna launahækkana síðustu ár, sem leidd eru af hinu opinbera. Í fyrra tapaði ferðaþjónustan um 105 milljörðum króna samkvæmt gögnum Hagstofunnar.

Hurð skall nærri hælum í alþingiskosningunum í september. Engu munaði að vinstri öflin með sína gjaldþrota hugmyndafræði næðu völdunum í landinu. Sú stjórn sem mynduð var í framhaldinu er vitanlega skárri en sú eyðileggingarstefna en óvíst er hvort hún verður góð.

Það er þó ánægjulegt að sjá að ráðherraskipan hefur skánað. Ekki síst í heilbrigðisráðuneytinu þar sem ferskir vindar blása með komu Willums Þórs Þórssonar. Það tók Willum korter að fela Sjúkratryggingum Íslands að fella brott ákvæði úr rammasamningi við sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga um tveggja ára starfsreynslu sem skilyrði fyrir greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Hvað gekk Svandísi Svavarsdóttur annars til í því máli?

Síðan voru tíðindin um að Willum hafi fengið Björn Zoëga til ráðgjafar við breytingar á Landsspítalanum. Og að loksins sé ætlunin að gera breytingar á rekstri og yfirstjórn spítalans á næstunni - sem eru löngu tímabærar.

Það sem voru hins vegar nokkur vonbrigði í kosningunum var hversu veiklulegur Sjálfstæðisflokkurinn var í kosningabaráttunni, sérstaklega framan af. Skilaboð flokksins til kjósenda voru óskýr, engin voru kosningaloforðin og það var eins og þeir sem stýrðu kosningabaráttunni hafi haldið að litmyndir af frambjóðendum myndu gera gæfumuninn.

Það reyndist misskilningur. Fylgi Sjálfstæðisflokksins féll og féll alveg fram á síðustu vikuna og þá voru margir hægrimenn orðnir vondaufir. Sumir voru reyndar þeirrar skoðunar að betra væri að fá hreina vinstri stjórn í stað þeirrar vinstristjórnar sem var að falla. Tíminn mun auðvitað leiða það í ljós.

* * *

Það sem var ánægjulegast við kosningaúrslitin var gengi Sósíalistaflokksins. Ekki bara vegna þess að sósíalisminn er helstefna heldur líka vegna þess að forystumaður flokksins er einhver allra mesti falsmaður sem tekið hefur þátt í íslenskum stjórnmálum.

„Kapítalisti hlýtur að þurfa að eiga kapítal og ég átti ekki kapítal," sagði Gunnar Smári Egilsson í Dagmálum 13. september 2021.

Í framhaldinu af þessum ummælum fjallaði Óðinn um snákasölumanninn í Viðskiptablaðinu í haust:

Gunnar Smári Egilsson útskýrði fyrir áhorfendum Dagmála Morgunblaðsins í síðustu viku muninn á því að vera kapítalisti og starfsmaður. Gunnar var að eigin sögn bara starfsmaður með valrétti hjá fjarskipta- og fjölmiðlarisanum Dagsbrún, sem meðal annars átti Vodafone og 365 miðla, Stöð 2, Fréttablaðið, DV og prentsmiðjur erlendis svo eitthvað sé nefnt.

Reyndar var það svo að hann fékk þessi réttindi, valréttina, þegar hann var forstjóri því að sá sem gegndi stöðunni í stórfyrirtækinu á undan honum hafði haft þessi réttindi. Hann hafi því í raun verið fórnarlamb aðstæðna sinna.

Valréttina fékk hann til viðbótar forstjóralaununum. Launin námu 5,1 milljón á mánuði árið 2005, á núverandi verðlagi. Árið 2006 námu launin rúmum 7 milljónum króna á mánuði.

* * *

En stenst þetta skoðun?

Þann 14. febrúar 2006 sendi fjarskiptaog fjölmiðlarisinn Dagsbrún tilkynningu til Kauphallar Íslands um kaup Gunnars Smára á 30,8 milljónum bréfa í félaginu. Samkvæmt tilkynningunni átti Gunnar Smári 50,6 milljónir hluta í félaginu eftir kaupin á genginu 5,54. Á núvirði nemur þessi fjárhæð 568,2 milljónum króna.

Þá er Dagsbrúnarsagan ekki öll sögð. Til viðbótar hlutnum í einkaeigu átti Gunnar Smári á þessum degi 35% hlut í Fjárfestingafélaginu Selsvör ásamt Árna Haukssyni og Þórdísi Sigurðardóttur. Það félag átti 29 milljónir hluta í Dagsbrún og var hlutur Gunnars Smára óbeint í félaginu 114 milljóna króna virði. Samtals átti hann því hluti í Dagsbrún, beint og óbeint, fyrir 682 milljónir króna á núverandi verðlagi.

Í pallborðsumræðum Dagmála í gær var Gunnar Smári spurður út í téða tilkynningu og fullyrti hann þá, ranglega, að um væri að ræða kauprétt sem fylgdi starfinu og „varð aldrei að hlutabréfum". Þegar nánar var gengið á hann játti hann því að hafa átt „smá hlut" í Dagsbrún á „einum tímapunkti".

„Ég átti bara lítinn ævisparnað þarna inni," sagði sósíalistaforinginn um hundruð milljóna króna hlut sinn.

* * *

Það er því haugalygi þegar Gunnar Smári Egilsson segist ekki hafa átt kapítal. En staðreyndin er sú að Gunnar Smári átti hlutabréf fyrir um 700 milljónir króna þegar mest lét. Ef maður er ekki kapítalisti þá, hvenær verður maður þá kapítalisti?

* * *

Það verður að segjast að þeir sem aðhyllast frjálst markaðshagkerfi voru sofandi í aðdraganda kosninga. Dellukenningar vinstrimanna fengu að vera óáreittar, þeim var ekki svarað og við það eitt öðlast þær trúverðugleika og trúnað almennings.

Þetta er mikið umhugsunarefni. Óðinn telur að ein ástæða þess sé að stjórnmálaflokkarnir eru komnir á ríkisjötuna, eins og svo margir þættir þjóðlífsins. Á árinu 2021 fá flokkarnir samtals 728 milljóna króna styrk frá ríkinu. Tengsl raunheima og stjórnmálaheimsins hafa trosnað. Ekki bara milli Sjálfstæðisflokksins og atvinnulífsins, en ekki síður við vinstri flokka líkt og Vinstri græna og Samfylkingu. Allir flokksformenn á Alþingi komu þessum óskapnaði á laggirnar. Það voru þau Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Sigurðsson, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón A. Kristjánsson.

Síðan þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn aftur og aftur samþykkt aukin framlög til stjórnmálaflokka á Alþingi. Hvers vegna í ósköpunum?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .