*

laugardagur, 25. janúar 2020
Huginn og muninn
20. október 2019 08:33

Arion banki og SÍS

Ummæli um að Arion banki væri farinn að minna á Sambandið vöktu athygli.

Merki Sambands íslenskra samvinnufélaga.

Arion banki sendi frá sér afkomuviðvörun í vikunni þar sem fram kom að aflögð starfsemi og eignir til sölu hefðu þriggja milljarða króna neikvæð áhrif á afkomu bankans á þriðja ársfjórðungi. Eðlilega vakti þetta mikla athygli en Arion banki hefur verið með endemum „óheppinn“ í útlánum sínum og fyrir vikið fengið í fangið fyrirtæki eins og United Silicon, Primera Air og Primera Travel Group. Snorri Jakobsson, forstöðumaður greiningar hjá Capacent, var ekkert af skafa af því í vikunni þegar hann sagði að Arion banki væri „farinn að minna á Sambandið“.

Kannski hefur þessi samlíking farið fyrir brjóstið á einhverjum en hrafnarnir eru aftur á móti vissir um að hún hefur vakið kátínu hjá gömlum framsóknarmönnum en sterkur strengur var á milli Framsóknarflokksins og Sambands íslenskra samvinnufélaga á sínum tíma. Framsóknarmenn réðu líka ríkjum í Búnaðarbankanum heitnum en svo skemmtilega vill til að Arion banki á ættir að rekja til Búnaðarbankans. Búnaðarbankinn og Kaupþing sameinuðust árið 2003 og árið 2004 var nafninu breytt í KB banki og á því herrans ári 2007 var nafninu breytt í Kaupþing banki, sem eins og allir lesendur Viðskiptablaðsins vita, fór á hausinn og upp úr rústunum reis Arion banki.

Fyrir þá sem ekki muna þá drottnaði Samband íslenskra samvinnufélaga, með sína löngu pólitísku arma, yfir íslensku atvinnulífi í áratugi. Í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar molnaði undan SÍS-veldinu, mestmegnis vegna óhóflegra skulda þess við lánadrottna. Fyrir þá sem ekki vita þá er hröfnunum ljúft að upplýsa að Sambandið lifir enn góðu lífi og hefur höfuðstöðvar við Glerárgötu á Akureyri. Fróðleiksfúsir geta fræðst meira um starfið, sem reyndar er í mýflugumynd miðað við hvernig það var á árum áður, á vefsíðunni samvinna.is.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.