*

laugardagur, 14. desember 2019
Óðinn
30. janúar 2018 15:55

Árlegur heimsósómi Oxfam

Aldrei nokkurn tímann í veraldarsögunni hefur fátæku fólki í heiminum fækkað jafnhratt og einmitt nú.

epa

„Í augnablikinu höfum við öfgakennda útgáfu af kapítalisma sem gagnast aðeins þeim sem eru á toppnum. Þess vegna viljum við að ríkisstjórnir taki stjórn á hagkerfum okkar svo þau gagnist öllum, en ekki aðeins auðugum minnihlutanum.“ 

                                            ***

Svo hljóðaði tíst frá opinberum reikningi bresku góðgerðasamtakanna Oxfam, sem sent var út þann 22. janúar síðastliðinn. Tilefnið var árleg útgáfa heimsósómaskýrslu samtakanna um misskiptingu auðs og tekna í heiminum. 

                                            ***

Í einföldu máli segir í skýrslunni að um 82% af öllum auð sem varð til í heiminum árið 2017 renni til ríkasta eins prósents jarðarbúa. Fátækasti helmingur heims fékk ekkert af þessum nýja auð í sínar hendur. Þá kemur fram í skýrslunni að 42 ríkustu einstaklingar heims eiga nú jafnmikið og þeir 3,7 milljarðar einstaklinga sem minnst eiga. Ríkasta prósentið á meira en hin 99 prósentin til samans. 

                                            ***

Meiri eða minni ríkisafskipti 

Skýrslan, sem líkt og fyrri ár er gefin út í tengslum við árlega ráðstefnu vel tengda og ríka fólksins í Davos í Sviss, er sérhönnuð til að styðja við þann málflutning að misskipting auðs og tekna sé ein alvarlegasta váin sem yfir mannkyninu vomir. Að allt stefni í bál og brand nema ríkisstjórnir heimsins taki sér enn meira vald yfir borgurum sínum og taki hærra hlutfall launa þeirra og eigna traustataki undir því yfirskyni að dreifa skuli auðnum. 

                                            ***

Þetta sést skýrt á tístinu, sem Óðinn vitnar til í upphafi pistilsins, en í skýrslunni er hreinlega lagt til að ríkisstjórnir taki beint yfir stærri hluta hagkerfisins – hvort sem það yrði gert með eignaupptöku eða „kaupum“. 

                                            ***

Það kaldhæðnislega er að í skýrslu Oxfam segir að tveir þriðju milljarðamæringa heimsins – í Bandaríkjadölum talið – hafi erft auð sinn, eða aflað hans með einokunarviðskiptum eða vegna óeðlilegra tengsla við opinbera aðila (e. cronyism).       

                                            ***

Einokun þrífst hvergi betur en þar sem ríkisvaldið verndar einokarann og það segir sig sjálft að ekki er hægt að hagnast á óeðlilegum tengslum við spillta stjórnmálamenn nema þar sem vald hins opinbera er nógu mikið. Í lágmarksríki frjálshyggjunnar hafa stjórnmála- og embættismenn ekki nógu mikið vald til að það borgi sig fyrir athafnamenn eða fyrirtæki að múta þeim. 

                                            ***

Ef við viðurkennum þær forsendur Oxfam að ójöfnuður sé of mikill og að hann sé skaðlegur ætti lausnin frekar að felast í því að minnka umfang ríkisvaldsins en að auka það. 

                                            ***

Lausn Oxfam, eins og við er að búast, er hins vegar að hækka skatta á efnafólk og tekjuháa. En hverju myndi það raunverulega skila í baráttunni við fátækt? Sean O’Grady benti á það í grein í breska blaðinu Independent að ef allur auður þeirra allra ríkustu yrði gerður upptækur og honum dreift á alla jarðarbúa fengi hver manneskja aðeins nokkur þúsund krónur í sinn hlut. 

Óðinn vill ekki gera lítið úr því að nokkur þúsund króna eingreiðsla sé há fjárhæð fyrir þá allra fátækustu, en það er ekki fjárhæð sem endist lengi. O’Grady bendir einnig á það að þegar jaðarskattar á hæstu tekjurnar voru hvað hæstir í Bretlandi á árunum 1974-1979 jókst ójöfnuður í stað þess að dragast saman, þvert á það sem Oxfam vill ná fram. 

                                            ***

En þar komum við einmitt að fílnum í herberginu. Markmið Oxfam er ekki að draga úr þjáningu þeirra fátæku, heldur að berjast fyrir löngu úreltum sósíalisma. Gott dæmi um þetta er grein sem Duncan Green, yfirmaður greiningardeildar Oxfam, skrifaði árið 2010, þar sem hann hrósar stjórnvöldum í Venesúela í hástert fyrir árangurinn sem náðist hafði í að minnka ójöfnuð þar í landi. 

                                            ***

Engum sem fylgst hefur með þróun mála í Venesúela dettur í hug að mæla með því núna að taka upp stefnumál Chavez og Maduro, en þetta er draumaland stjórnenda Oxfam. 

                                            ***

Gölluð aðferðafræði 

Óðinn hefur áður fjallað um aðferðafræðilega galla við skýrslur Oxfam, en telur rétt að árétta þessa gagnrýni enn á ný. Í skýrslu Oxfam er aðeins horft á hreina eign – nettóeign – en ekki verga eignastöðu. Það þýðir að ekki er að finna neinn Kínverja í fátækasta tíundarhluta heimsbyggðarinnar, en fjöldi Bandaríkjamanna er þar hins vegar. 

Það er vegna þess að fjöldi Bandaríkjamanna, ungt fólk og námsmenn til dæmis, hafa tekið lán en hafa ekki náð að mynda eignir á móti. Möguleikinn til að skuldsetja sig er ekki merki um sára fátækt, heldur þvert á móti merki um að efnahagslegar horfur viðkomandi eru jákvæðar. 

Annars myndi engin lánastofnun veita viðkomandi lán. Kínverskur kotbóndi er ekki með sömu skuldabyrðina og námsmaður í Kaliforníu, en aðeins í hugum starfsmanna Oxfam er sá fyrrnefndi betur staddur en sá síðarnefndi. 

                                            ***

Allt mælt í dollurum 

Þá er áhugavert að skoða áhrif gengissveiflna á auðsöfnun í mismunandi löndum. Óðinn hefur margoft bent á það að sveiflur í mældum auði ákveðinna hópa skýrast að stórum hluta af gengissveiflum. 

Þær tölur sem Oxfam notar byggja nefnilega á markaðsgengi viðkomandi gjaldmiðla, fært yfir í Bandaríkjadali, en ekki hefur verið leiðrétt fyrir kaupmætti. Það þýðir að þar sem gjaldmiðlar hafa fallið mest í verði miðað við Bandaríkjadal mælist minnkun auðs mest. 

                                            ***

Fyrir árið 2015 þýddi það að auður heimila í Rússlandi og Úkraínu minnkaði um 40% frá árinu 2014, en það skýrðist nær alfarið af algeru hruni viðkomandi gjaldmiðla gagnvart dalnum. 

                                            ***

Í fyrra var sömu sögu að segja. Auður á hvern fullorðinn Japana jókst um 19,4% á milli áranna 2015 og 2016, en á sama tíma styrktist japanska jenið um 19,3%. Af þeim fimm löndum þar sem auður á hvern einstakling jókst mest árið 2016 voru fjögur þar sem viðkomandi mynt styrktist mest gagnvart dalnum. 

                                            ***

Gengissagan heldur áfram í nýjustu skýrslunni. Þau fjögur ríki þar sem auður á hvern einstakling jókst mest í fyrra í dölum talið, Pólland, Ísrael, S-Afríka og Rússland, eru einmitt meðal þeirra fimm ríkja þar sem viðkomandi gjaldmiðill styrktist mest gagnvart Bandaríkjadal á sama tíma. Sömu sögu má segja af neðsta hluta listans. 

Þau þrjú ríki þar sem auður skrapp mest saman í fyrra, Japan, Tyrkland og Egyptaland, eru meðal þeirra fimm ríkja þar sem viðkomandi gjaldmiðill veiktist mest. Gengi egypska pundsins veiktist um 51% gagnvart dalnum og auður á hvern Egypta skrapp saman um 50,2%. Skýrara getur þetta vart verið. 

                                            ***

Raunverulegur árangur 

Aldrei nokkurn tímann í veraldarsögunni hefur fátæku fólki í heiminum fækkað jafnhratt og einmitt nú og er það frjálsum viðskiptum og markaðshagkerfinu að þakka. Sú staðreynd að Kína og Indland hafa að stórum hluta kastað sósíalískri hagstjórn á öskuhaug sögunnar skýrir að stórum hluta þennan árangur.

                                            ***

Jöfnuður í heiminum öllum er einnig sífellt að aukast. Ben Southwood, yfirmaður greiningardeildar Adam Smith Institute, bendir á að hlutfall þeirra sem þurfa að lifa á tveimur Bandaríkjadölum eða minna á dag féll úr 69,6% árið 1981 í 43% árið 2008 og er enn lægra í dag. 

Svo notaður sé annar mælikvarði þá voru 44% jarðarbúa með minna en 1,9 dali í tekjur á dag, en árið 2015 var þetta hlutfall komið í 10%. Þetta er stórkostlegur árangur, sem stefnt yrði í hættu ef farið yrði eftir forskrift Oxfam og aðdáenda þeirra.

Stikkorð: Oxfam auður viðskipti
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.