*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Týr
27. nóvember 2021 16:01

Ásgeir brýnir sverðið

Það má þó aldrei vanmeta vilja stjórnmálamanna til gleðja fjölbreytta hópa með annarra manna peningum.

Aðsend mynd

Samhliða því að gefa út nýja bók um hagsögu landnámsins situr Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri nú við það að brýna sverðið – því að hann veit sem er að það er langur og erfiður bardagi framundan. Reyndar hefur Ásgeir ýjað að því í nokkurn tíma að það væru bardagar framundan.

* * *

Í ítarlegu viðtali við Þjóðmál í sumar gaf hann sterklega til kynna að vextir myndu hækka með haustinu ef ríkið myndi ekki draga úr útgjöldum. Hann hefur látið sambærileg ummæli falla síðan þá, en það sem meira máli skiptir þá hefur Seðlabankinn þegar hækkað vexti nokkuð rösklega á liðnum mánuðum. Hækkanirnar eru strax orðnar áþreifanlegar og að öllu óbreyttu munu vextir halda áfram að hækka næstu mánuði, þó enn sé nokkuð í að vaxtastigið verði það sama og það var við undirskrift Lífskjarasamninganna vorið 2019.

* * *

Týr hefur eftirlátið kollega sínum Óðni að fjalla með ítarlegum og vönduðum hætti um efnahagsmál hér á síðum Viðskiptablaðsins, en þess í stað einblínt sjálfur á stjórnmál og önnur þjóðfélagsmál. Týr veit þó sem er að Ásgeir mun ekki komast hjá því að taka pólitíska slagi á næstunni, hvort sem honum líkar betur eða verr, og það er því full ástæða til að velta fyrir sér stjórnmálahliðinni á því sem framundan er.

* * *

Það má gera ráð fyrir því að ríkisstjórnin reyni að ná tökum á verðbólgunni en það má þó aldrei vanmeta vilja stjórnmálamanna til gleðja fjölbreytta hópa með annarra manna peningum. Stjórnarandstaðan er veik, reyndar mjög veik, en hún mun samt krefjast aukinna ríkisútgjalda í vetur og kvarta sáran fyrir hönd háværustu hagsmunahópanna. Þá víkja almannahagsmunir fyrir sérhagsmunum, svo vitnað sé í eitt popúlískasta slagorð seinni ára. Þá er ótalin verkalýðshreyfingin. Þrátt fyrir brotthvarf reiðasta fólksins úr Eflingu munu þau sem eftir eru leggja alla áherslu á að hækka laun enn frekar – og þannig keyra verðbólguna upp á ný.

Mögulega þarf Ásgeir að vera sverð og skjöldur almennings.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.