*

mánudagur, 1. júní 2020
Óðinn
27. ágúst 2019 09:11

Ásgeir Jónsson, Bjarni Ben og Davíð

Óðinn viðrar hugmyndir að fyrstu verkum Seðlabankastjóra og undrast yfir skorti á viðbrögðum frá formanni Sjálfstæðisflokksins.

Haraldur Guðjónsson

Nýr seðlabankastjóri tók við embætti á þriðjudag. Óðinn væntir mikils af Ásgeiri Jónssyni og óskar honum velfarnaðar í krefjandi starfi.

* * *

Eitt fyrsta embættisverk Ásgeirs hlýtur að vera að rétta hlut þeirra einstaklinga og félaga sem Seðlabankinn hefur beitt órétti, að ekki sé sagt einelti, til að mynda við gjaldeyriseftirlit. Einnig hlýtur Ásgeir að upplýsa um starfslokasamning yfirmanns gjaldeyriseftirlitsins og tilurð hans. Ítem hvort í skúffum bankans leynist aðrir slíkir samningar, uppfylltir sem óuppfylltir.

* * *

Í upphafi fyrsta starfsdags nýs Seðlabankastjóra kom fram að líklegt væru að stýrivextir myndu lækka frekar. Það eru jákvæðar fréttir. En þær breyta engu ef stóru viðskiptabankarnir þrír halda áfram að sér höndum í útlánum.

* * *

Það gera þeir meðal vegna þess að krafa eftirlitsaðila um eiginfjárhlutfall er alltof há, sem auðvitað krefst hærri vaxtamunar og þar af leiðandi hærri útlánsvaxta. Einnig ákvað Seðlabankinn vorið 2018 að breyta fyrirkomulagi bindiskyldu lánastofnana. Fram að því hafði bundið fé borið vexti í samræmi við innlánsvexti Seðlabanka. Samkvæmt ákvörðun bankans skiptist hún í tvennt þar sem helmingur hennar bæri enga vexti en hinn sömu vexti og áður.

* * *

Þessar ákvarðanir Seðlabanka og Fjármálaeftirlits lenda auðvitað ekki á neinum öðrum en lántakanum.

* * *

Hjá bönkunum er borð fyrir báru í þessum efnum, enda eru þeir best fjármögnuðu bankar í heimi, svo ákaflega að það skerðir samkeppnishæfni þeirra verulega. Svona ef þeir hefðu samkeppni. Eins og sakir standa leiðir það þó aðeins til tregara og dýrara lánsfjár, sem skekkir peningalega stöðu einstaklinga jafnt sem atvinnulífs og bjagar áhættumat fjárfestinga.

* * *

Bjarni Benediktsson gagnrýndi einkabankann Arion banka harðlega fyrir að greiða Höskuldi Ólafssyni, fyrrverandi bankastjóra, 150 m.kr. í starfslokagreiðslu. Þetta kallaði Bjarni bruðl. Óðinn tekur undir orð Bjarna og verður að viðurkenna að hann skilur ekki hvað stjórn bankans var að hugsa. Hvert vandræðamálið hafði þá komið upp á vakt bankastjórans. United Silicon er þeirra stærst. Stjórn Arion banka hlýtur einnig að hafa verið ljóst, þegar ákveðið var að breyta ráðningasamningi Höskuldar, að veruleg útlánaáhætta steðjaði að bankanum vegna Wow air og Primera air. Tal um að félagið væri á leið á markað og Höskuldur ómissandi á þeirri vegferð er óskiljanlegt. Gengi félagsins hefði líklegast hækkað við brotthvarf Höskuldar, enda skildi hann eftir sig slóð vandræðamála í Valitor sem bakaði Arion banka, eigandanum, verulegt fjárhagstjón.

* * *

Ákvörðunin var tekin þegar íslenska ríkið átti 13% eignarhlut í bankanum. Fulltrúi Bankasýslu ríkisins samþykkti þessa ákvörðun, en bankasýslan er undirstofnun fjármálaráðuneytisins, þó tilgangurinn með henni sé vissulega sá að halda bankaeignum ríkisins í armslengd frá ráðuneytinu og koma í veg fyrir pólitísk afskipti af þeim.

* * *

Á endanum ber því Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ábyrgð á fulltrúa bankasýslunnar, þó hann hafi raunar komið í stjórn Arion á mektardögum Steingríms J. Sigfússonar í fjármálaráðuneytinu. En nú er þessi staða upp komin svo eftir situr spurningin: Hvað mun Bjarni hafast að í málinu annað en að harma það í orði?

* * *

Óðinn saknar mjög viðbragða sem þessara frá formanni Sjálfstæðisflokksins. Hvert ólánsmálið kemur upp hjá ríkinu á fætur öðru en ekkert heyrist frá formanninum. Vaðlaheiðargöng urðu tvöfalt dýrari. Landspítalinn stefnir í að keyra marga milljarða fram úr fjárlögum. Íslandspóstur varð tæknilega gjaldþrota, en forstjórinn sérstakur trúnaðarmaður Engeyinganna og sonur hans framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Ísavia tapar milljörðum á Wow air. Laun ríkisforstjóra dúndrast upp á vakt trúnaðarmanns og vinar Bjarna sem formanns kjararáðs.

* * *

Og ekkert heyrist frá Bjarna. Um til dæmis að skynsamlegt væri að einkavæða Keflavíkurflugvöll líkt og Danir gerðu með Kastrup á síðustu öld. Eða að Vaðlaheiðargöng voru frá upphafi fullkomlega vanhugsað rugl rétt fyrir kosningar. Rétt er þó að halda til haga að Bjarni, líkt og flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, var mótfallinn ríkisábyrgð á lánum til Vaðlaheiðarganga.

* * *

Í orkupakkamálinu hefur einmitt þetta veikt stöðu Bjarna. Sjálfstæðismenn, sem ella hefðu mikla þolinmæði fyrir afstöðu formannsins, hafa hana ekki. Á sama tíma er annar formaður Sjálfstæðisflokksins ritstjóri Morgunblaðsins og sér orkupakkanum allt til foráttu, og margir flokksmanna, sem treysta þeim manni enn best, þrátt fyrir linnulausar árásir á hann, fyrst utanflokks og svo af minni spámönnum innanflokks. Menn leggja við hlustir þegar Davíð Oddsson segist hafa verulegar áhyggjur af fullveldi þjóðarinnar í orkupakkamálinu og EES-samstarfinu öllu.

* * *

Þetta hefur sett Sjálfstæðisflokkinn í alveg sérstaklega erfiða stöðu. Óðin grunaði ekki að þetta gæti gerst vegna orkupakkans. En það hefur gerst. Og vandi Bjarna er sá að líklega fylgir helmingur flokksmanna Davíð Oddssyni í málinu. Í hjarta sér ef ekki heila. Engu skiptir hvort hann hefur rétt eða rangt fyrir sér, því menn bera enn til hans traust og taka mark á því þegar hann kveður fast að orði. Traust sem Bjarni gæti svo auðveldlega áunnið sér en misnotar hvert dauðafæri til að gera.

* * *

Það er þeim mun hryggilegra vegna þess að Bjarni Benediktsson er traustur maður og heill í sínum verkum. En það er engu líkara en að hann sjái vart lengur út fyrir veggi fjármálaráðuneytisins, þegar hann á einmitt að hafa alla yfirsýn og tala skýrt inn til flokks síns og út til þjóðarinnar sem formaður Sjálfstæðisflokksins, sem þrátt fyrir þrautagöngu liðins áratugar er enn stærsti stjórnmálaflokkur þjóðar og þings; kjölfestuflokkur íslenskra stjórnmála.

* * *

Á komandi hrekkjavöku verður kjörtímabilið hálfnað og um leið má segja að aðdragandi Alþingiskosninganna 2021 muni hefjast. Fyrir liggur og að það er þörf á að huga að breytingum í ráðherraliði sjálfstæðismanna af ýmsum ástæðum og enginn tími til þess betri en um það leyti er þingstörf hefjast í haust. Væri ekki ráð að gera gagngerar breytingar á ríkisstjórninni, meðal annars með það fyrir augum að koma Bjarna úr daglegu og einstaklega tímafreku vafstri fjármálaráðuneytisins í ráðuneyti sem er stöðu hans bæði samboðið og til þess fallið að hann geti sýnt þá pólitísku forystu um stórt og smátt sem menn vænast af formanni Sjálfstæðisflokksins?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.