*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Leiðari
8. mars 2015 12:15

Ástæða til bjartsýni

Traust á stofnunum og fyrirtækjum er minna en áður og markaðurinn er að mörgu leyti frumstæðari en hann var fyrir hrun.

Haraldur Guðjónsson

Þótt liðin séu hátt í sjö ár frá hruni gætir áhrifa þess enn um samfélagið allt. Augljósasta dæmið um þetta eru gjaldeyrishöftin, sem að vísu er búið að lofa að séu á leiðinni á brott, en áhrifanna gætir víðar. Traust á stofnunum og fyrirtækjum er minna en áður og markaðurinn er að mörgu leyti ekki aðeins einfaldari heldur frumstæðari en hann var fyrir hrun. Þá þarf ekki að fjölyrða um aðgengi fyrirtækja að erlendu lánsfé.

Í Viðskiptablaðinu í dag er hins vegar fjallað um tvo atburði, sem báðir benda til þess að farið sé að rofa til í fjármálakerfinu. Fyrst ber að nefna skuldabréfaútgáfu Arion banka í evrum, en ekki virðast allir hafa kveikt á því að það sem gerir þessa útgáfu frábrugðna flestum öðrum útgáfum fjármálafyrirtækja eftir hrun, er að bréfin eru ekki sértryggð með neinum hætti. Með öðrum orðum virðist tiltrú erlendra markaða á íslenska fjármálakerfinu vera farin að styrkjast og er orðin nægilega mikil til að ekki þarf að tryggja skuldabréfaútgáfu með íbúðalánum íslensks almennings. Þetta er jákvætt.

Eins var áhugavert að lesa um að Tryggingamiðstöðin stefnir nú á útgáfu víkjandi skuldabréfs á árinu. Það að þetta sé fréttnæmt er áhugavert í sjálfu sér og segir margt um þá stöðu sem við erum nú í, en þetta mun vera fyrsta útgáfa slíks skuldabréfs hér á landi frá hruni. v Víkjandi skuldabréf fengu, eins og margir aðrir fjármálagerningar, á sig vont orð í kjölfar hrunsins. Var jafnvel talað um „svíkjandi skuldabréf“, en þessi afstaða ber bæði vott um fordóma og fáfræði. Víkjandi skuldabréf geta verið hinn eðlilegasti hlutur í eiginfjárstýringu fyrirtækja, eins og forstjóri TM fer yfir í samtali við Viðskiptablaðið. v Þá má nefna í þessu sambandi það sem forstjóri Olís segir í ítarlegu viðtali að eftir hrun þá hættu olíufyrirtækin nær alfarið að gera framvirka samninga um olíukaup. Vera kann að slíkir samningar séu ekki lífsnauðsynlegir, en möguleikinn verður að vera til staðar.

Eins og áður segir þá er það til marks um þá lægð sem íslenski fjármálamarkaðurinn lagðist í eftir hrun að þessar tvær skuldabréfaútgáfur séu jafn fréttnæmar og þær þó eru, en þær eru vonandi einnig fyrirboði um að betri tíð sé fram undan. Að aðgengi íslenskra fyrirtækja að erlendu lánsfé verði meira og betra en verið hefur og að fyrirtæki geti nýtt sér fjölbreyttari kosti við skipulagningu efnahagsreikninga sinna. Eins og greiningardeildir hafa bent á þá eru mörg skráð fyrirtæki stútfull af fé og verður það seint talið til hagkvæmustu fjármögnunarkosta. Því er eðlilegt að fyrirtæki eins og Tryggingamiðstöðin hagi málum sínum þannig að hægt sé að skila þessu fé til hluthafa, sem geta ávaxtað það betur en með því að láta það liggja á reikningum fyrirtækisins. Þetta á að sjálfsögðu við um fleiri fyrirtæki en TM. Nú stefnir í að hluthafar skráðra fyrirtækja fái 28 milljarða króna í arðgreiðslur og með kaupum fyrirtækja á eigin bréfum. Þetta fé mun væntanlega renna í aðrar fjárfestingar og blása enn meira lífi í íslenskt atvinnulíf. Það er því full ástæða til bjartsýni fyrir þetta ár.

Stikkorð: Leiðarar Leiðari
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.