Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hélt ræðu á friðartónleikum í Hallgrímskirkju í vikunni þar sem hann kallaði eftir því að dreginn yrði lærdómur af innrás Rússa í Úkraínu. Týr tekur undir mikilvægi þess, heilum hug, en er hins vegar ósammála Kára um að lærdómurinn skuli vera sá að læra ekki af reynslunni, eins og skilja má af því sem síðar fylgdi. Kári hélt nefnilega áfram:

„Við tryggjum ekki öryggi okkar og frið á Íslandi með því að hafa hér erlendan her eða með því að vera í hernaðarbandalagi. Við eigum að tilbiðja friðinn, við eigum að skrifa um hann, við eigum að yrkja um hann, við eigum að syngja um hann. Við hlúum að öryggi okkar með því að láta heiminn vita, svo ekki verði um villst, að við séum friðsæl þjóð sem tekur ekki þátt í hernaði."

Þessi málflutningur hljómar vitaskuld fallega, en hann er ekki aðeins einfeldningslegur, hann er beinlínis hættulegur. Friðarhugsjón, söngur og blóm í hári munu ekki vernda hina friðelskandi íslensku kjána fyrir ágangi vitstola einræðisherra.

* * *

Árið 2007, skömmu eftir að varnarliðið tók föggur sínar saman og áður en Íslendingar höfðu samið við NATO um loftrýmisgæslu, fóru tvær rússneskar sprengjuflugvélar inn á íslenska loftrýmiseftirlitssvæðið. Um leið og varnir voru færðar niður færðu Rússar sig nær, enda er Ísland á hernaðarlega eftirsóknarverðu svæði; á Norðurskautssvæðinu, á milli Norður-Ameríku og Evrópu. Ísland er svo sannarlega á radar utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, sem spókaði sig í íslenskri lopapeysu sem piltur, en móðir hans var kyndilberi viðskiptasambands Rússa og Íslendinga um áratugaskeið og var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2006.

* * *

Íslendingar komast upp með að vera krúttlegir friðelskandi kjánar einmitt vegna þess að bandalagsþjóðir halda uppi vörnum landsins og ógninni í skefjum. Eini vitræni lærdómur Íslendinga af stríðshörmungunum er að sækja varnarlið aftur til bandalagsþjóða, nú þegar óvinurinn sýnir klærnar.

Úrsögn úr NATO væri ígildi ástarbréfs til Pútín - og hann myndi vafalaust þiggja heimboðið.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .