*

miðvikudagur, 3. mars 2021
Óðinn
6. júní 2017 10:01

Atgervisflótti uppfinningamanna

Háir jaðarskattar eru líklegir til að reka verðmætaskapandi uppfinningamenn á flótta.

european pressphoto agency

Árið 1876 mun Alexander Graham Bell hafa fundið upp talsímann og ári síðar stofnaði hann símafyrirtækið Bell Telephone Company. Árið 1886 áttu ríflega 150.000 Bandaríkjamenn símtæki. Árið 1916 fann James L. Kraft upp leið til að gerilsneyða ost og stofnaði fyrirtækið Kraft Foods Inc., sem er eitt stærsta matvælafyrirtæki Bandaríkjanna og er með um 100.000 manns í vinnu. Árið 1968 bjó Ralph Baer til sjónvarpsleik sem gerði spilurum kleift að stýra deplum á sjónvarpsskjánum með stýriskífum. Í dag er stærð tölvuleikjamarkaðarins metin á um 75 milljarða Bandaríkjadala, eða um 7.430 milljarða íslenskra króna. Á miðjum áttunda áratugnum fann Michael Ter Pogossian upp svokallaðan PET skanna, sem notaður er í ótalmörgum sjúkrahúsum og á svipuðum tíma fann Samar Basu upp leið til að gera litíum rafhlöð­ur endurhlaðanlegar, en þessar rafhlöður eru notaðar í nær öllum raftækjum í dag. Árið 1981 hóf Charles Simonyi að hanna nokkur af arðbærustu forritum í Office pakka Microsoft.

***

Flýja háa skatta

Allir þessir menn eru með öflugustu frumkvöðlum og uppfinningamönnum síðustu áratuga, en annað eiga þeir sameiginlegt. Þeir voru allir innflytjendur í Bandaríkjunum. Óðinn ætlar ekki í þessum pistli að ræða ágæti frjálsra fólksflutninga og mikilvægi þess að setja sem fæstar tálmanir fyrir slíkum flutningum. Óðinn hefur gert það áður og mun eflaust gera það aftur í framtíðinni.

***

Það sem Óðinn ætlar að fjalla um nú eru áhrif skattlagningar á hegðun þessa efnahagslega mikilvæga hóps sem uppfinningamenn eru. Nýleg grein eftir þau Ufuk Akcigit, Salomé Baslandze og Stefanie Stantcheva, „Taxation and the International Mobility of Inventors“, sem birtist í American Economic Review fjallar um það hversu mikil áhrif skattlagning á tekjur uppfinningamanna hefur á ákvörð­un þeirra um dvalarstað. Það er einmitt úr þessari grein sem Óðinn fékk lánaðan listann yfir uppfinningamennina sem þessi pistill hófst á.

***

Misverðmætir uppfinningamenn

Mikið hefur verið talað um atgervisflótta eða vitsmunaleka, en hér á landi hefur hún einkum snúist um ungt fólk sem nýlega hefur lokið námi en ákveður af einhverjum ástæðum að leita sér að vinnu annars staðar en hér heima á Íslandi. Nú er það hins vegar svo að í köldum veruleika hagfræðinnar þá eru ekki allir frumkvöðlar jafn mikils virði. Greinarhöfundar notuðu tölfræðilegar upplýsingar frá einkaleyfastofu Bandaríkjanna og einkaleyfastofum í Evrópu til að greina annars vegar staðsetningu uppfinningamanna þegar sótt er um einkaleyfi og hins vegar til að greina það hversu oft er vísað í þessi einkaleyfi í vísindagreinum. Þessar tilvísanir gefa vísbendingu um það hversu mörg einkaleyfi viðkomandi uppfinningamenn hafa fengið og hversu mikilvæg þau eru fyrir vísindin og samfélagið almennt. Um er að ræða öll einkaleyfi sem gefin voru út á árunum 1977-2000.

***

Meðaluppfinningamaðurinn fær um 11-42 tilvísanir í sín einkaleyfi, en meðaltalið hjá hugmyndaríkasta eina prósentinu er hins vegar 1.019 tilvísanir. Að meðaltali eiga þeir uppfinningamenn sem eru í þessu eina prósenti 54 einkaleyfi, uppfinningamenn í topp fimm prósentunum eiga að meðaltali 29,3, en að meðaltali eiga hin 95% aðeins um 3,5 einkaleyfi á mann.

***

Greinarhöfundar skoða einnig tekjuskatt í þeim löndum sem um ræðir, en það eru Kanada, Frakkland, Þýskaland, Bretland, Ítalía, Japan, Sviss og Bandaríkin. Flest bendir til þess að hugmyndaríkustu uppfinningamennirnir séu „djúpt í hæsta skattþrepinu“, eins og það er orðað í greininni. Líkurnar á því að uppfinningamaður sé í hæsta skattþrepi viðkomandi lands minnka hins vegar hratt þegar neðar er farið í listann. Hærri tekjuskattar og jaðaráhrif hærri skattþrepa hafa því meiri áhrif á þennan smáa hóp uppfinningamanna en aðra.

***

Mun líklegri til að flytja

Því er áhugavert að sjá að af topp 1% uppfinningamönnunum flytja um 4,6% þeirra á milli landa á tímabilinu sem um ræðir. Þetta kann e.t.v. ekki að hljóma sem hátt hlutfall, en þegar haft er í huga að meðal þeirra uppfinningamanna sem ekki ná í topp 5% þá flytja að­ eins 0,7% þeirra á milli landa á tímabilinu. Það er því miklu líklegra að verðmætustu uppfinningamennirnir flytji milli landa.

***

Ekki nóg með það heldur sýna niðurstöður rannsóknarinnar að skattprósenta hefur umtalsverð áhrif á það hvert þeir flytja. Eftir því sem hæsta þrep tekjuskattsins er hærra því færri uppfinningamenn flytja til við­ komandi lands og einnig eru heimamenn líklegri til að flytja í burtu. Þar sem skattprósentan er hagstæðust er hlutfall erlendra topp-uppfinningamanna einnig hæst.

***

Erfitt er að flytja niðurstöður rannsóknarinnar yfir á íslenskan veruleika, enda eru það fjölmargir aðrir þættir sem geta haft áhrif á það hvort uppfinningamenn og hugmyndaríkir einstaklingar flytja á milli landa. Heilt yfir gefur rannsóknin hins vegar tilefni til að ætla að háir jaðarskattar á hátekjufólk hafi neikvæð áhrif á vilja þeirra til að vinna í viðkomandi ríki. Það er alltaf slæmt ef of háir skattar flæma burt fólk eða fjármagn, en til lengri tíma litið hefur flótti þessa mikilvæga minnihluta mun meiri og alvarlegri áhrif á hagvöxt en flótti margra annarra, jafnvel þótt um sé að ræða eignafólk.

***

Þetta er eitthvað sem íslenskir stjórnmálamenn ættu að hafa í huga næst þegar vinstrimenn veifa hugmyndum um hátekjuskatt eða fjölgun skattþrepa. Skatttekjur ríkissjóðs aukast ekki ef þeir flýja land sem mest verðmæti skapa.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.