Á Íslandi eru lagðir ofurtollar á búvörur, sem oftast gera nánast vonlaust að flytja þær inn á viðráðanlegu verði. Þetta er gert til að vernda innlenda búvöruframleiðslu. Tollarnir hafa þá sérstöðu á meðal skatta ríkisins að Alþingi hefur framselt ráðherra ákvörðunarvald um hvort þeir séu lagðir á eða ekki. Ástæðan er væntanlega að stundum er innlenda búvaran ekki til, og innflutt vara yrði svo dýr ef tollar væru ekki felldir niður eða lækkaðir að hætt væri við uppreisn í kjörbúðum.

Framkvæmd landbúnaðarráðherra á valdi sínu virðist hins vegar oft háð tilviljunum, geðþótta eða persónulegum áherzlum. Þannig eru mýmörg dæmi um að ráðherra neiti að fella niður tolla af vörum, sem eru ekki framleiddar á Íslandi, til dæmis kinda-, geita- og buffalaostum eða lífrænum kjúklingi. Í einu tilviki tók það ráðherra tæpt ár að afgreiða umsókn um tollalækkun á lífrænni mjólk. Stundum eru tollar lækkaðir þótt ekki sé skortur á innlendri framleiðslu, væntanlega þá ef innflytjandinn er ráðherra þóknanlegur og stundum eru tollar lækkaðir og hækkaðir innan sama tímabils.

Í þessum dæmum má sjá ljóslifandi ástæður þess að afskipti ráðherra af skattlagningu eru bönnuð í stjórnarskrá. Í réttarríki eiga ráðherrar ekki að hafa vald um það hvort skattar eru lagðir á eður ei.

Nú hafa allir tollar á innflutning verið felldir niður – nema af búvörum. Í þessum eina málaflokki virðist vera breið pólitísk samstaða um að breyta engu og viðhalda vitleysunni.

Eins og stundum áður er þá dómstólaleiðin ein fær. Fimm innflutningsfyrirtæki hafa nú höfðað mál til að láta á það reyna hvort geðþóttaskattar þessir standist stjórnarskrána. Eins og venjulega þora ráðamenn ekki að viðurkenna að kerfið sé löglaust, heldur bíða niðurstöðu dómara – neytendum og atvinnulífinu til tjóns.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.