Þegar ég lauk BA-námi vorið 2004 fékk ég símhringingu frá þjónustufulltrúa í bankanum mínum. Hún hélt langa tölu um að nú væri ég fullorðinn og þyrfti því að huga að framtíðinni. Til að auðvelda mér þessi umskipti sagði hún bankann vilja veita mér svokallað námslokalán. Á þeim tímapunkti átti ég ekkert.  Þar sem ég ætlaði í framhaldsnám hafði ég lítinn hug á að skuldsetja mig umfram yfirvofandi LÍN-hlekki og afþakkaði.

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

Þegar ég lauk Mastersnámi haustið 2005 hringdi annar þjónustufulltrúi og sagði mér að nú væri lífið að byrja. Ég færi bráðlega að stofna fjölskyldu og láta almennilega finna fyrir mér á vinnumarkaði. Til að hjálpa mér vildi bankinn endilega lána mér námslokalán sem ég átti að nýta sem útborgun upp í húsnæðislán. Bankinn væri að sjálfsögðu tilbúinn til að lána mér slíkt líka.

Ég benti fulltrúanum á að ég gæti ekki með nokkru móti staðið undir greiðslum af þessum gylliboðum sem bankinn væri að bjóða mér. Hún sagði bankann vera mér ósammála.  Ég harkaði þó af mér átroðninginn og hafnaði ævivarandi skuldsetningu minni pent.

Í staðinn náði ég að safna mér svolitlu sparifé og  fór í bakpokaferðalag. Þegar ég kom heim sumarið 2006 átti ég enn eitthvað eftir af sparnaðinum. Ég var hins vegar bæði heimilis- og atvinnulaus.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Enn á ný var ég boðaður á fund í bankann. Þar var mér sagt að ég hefði enn rétt á námslokaláni, ég væri hreinlega vitlaust ef ég tæki ekki húsnæðislán á 4,15% verðtryggðum vöxtum og auk þess gæti bankinn auðveldlega hjálpað mér yfir atvinnuleitarhjallann með nokkur hundruð þúsund króna yfirdráttarláni. Til viðbótar benti fulltrúi bankans mér á að ég væri galinn að geyma spariféð inni á bók þegar vextir peningamarkaðssjóðs bankans væru 15%. Manísk skuldbindingarhræðsla, sem oft bakaði mér annarskonar vandræði, aftraði mér frá því að stinga mér á bólakaf í þessa æsilegu skuldalaug sem bankinn minn bauð mér að synda í. Ég þakka fyrir hana á hverjum degi síðan.

Ég fór á heimasíðu allra stóru bankanna á meðan ég skrifaði þennan pistil. Þeir bjóða allir enn upp á námslokalán. Ég vona að þeim fylgi ekki sami átroðningur og þegar það var verið að reyna að pranga þeim upp á mig.

Endahnúturinn birtist í Viðskiptablaðinu 1. júní 2011.