Mikilvægasta orðið þegar kemur að því að berjast gegn loftlagsbreytingum er atvinna, sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti í ræðu sinni á þinginu í Washington DC í síðustu viku. Þá voru liðnir 100 dagar frá því að þessi valdamesti núlifandi Framsóknarmaður tók við embætti.

Í orðum Bidens, sem ég var þess heiðurs aðnjótandi að hitta þegar ég heimsótti Barack Obama ásamt öðrum norrænum forsætisráðherrum í forsætisráðherratíð minni, felst viðhorf sem er í algjörum samhljómi við mitt viðhorf til stjórnmálanna. Á öllum vandamálum er lausn: Vandi er verkefni.

Vísindi og nýsköpun

Fyrir rúmu ári síðan stóð heimsbyggðin frammi fyrir ógnarstóru verkefni, heimsfaraldri kórónuveiru. Sá tími sem liðinn er frá því að ég stóð með samstarfsfólki mínu í ríkisstjórn, Katrínu Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssyni, í tómri Hörpu og kynnti fyrstu aðgerðir okkar í viðspyrnu fyrir Ísland hefur verið krefjandi fyrir fyrirtæki og heimili á Íslandi. En þessi tími hefur líka fært okkur dýrmætan lærdóm um gildi vísinda og nýsköpunar og órjúfanleg tengsl þessara tveggja mikilvægu þátta í framþróun lífsgæða í heiminum.

Undirstaða lífsgæða

Íslendingar hafa áður staðið frammi fyrir gríðarstórum verkefnum sem þeir hafa leyst af mikilli skynsemi og framsýni. Hitaveituvæðing Íslands er eitt þeirra verkefna sem má segja að hafi verið fyrstu orkuskiptin í sögu Íslands og ætti að sönnu að vera fyrirmynd annarra þjóða. Annað verkefni sem mig langar að nefna er sjávarútvegurinn og stjórn fiskveiða. Með kvótakerfi í fiskveiðum náðum við stjórn á nýtingu auðlindarinnar á vísindalegum grunni og á sjálfbærum grunni. Bæði þessi verkefni grundvallast á þekkingu og vísindum sem síðan hefur verið byggt ofan á með nýsköpun sem skilar fyrirtækjunum, starfsfólkinu og samfélaginu öllu verðmætum sem standa undir miklum lífsgæðum.

Í gamla daga sögðu menn oft „lengi tekur sjórinn við“, orðatiltæki sem sýnir viðhorf fyrri tíma til þessa gríðarmikilvæga hluta lífkerfis heimsins. Umgengni við hafið og viðhorf til þess hefur gjörbreyst. Á sama hátt hefur viðhorf okkar til náttúrunnar og gæða hennar breyst. Eins hefur viðhorf okkar til lands og náttúru breyst, ekki síst með tilkomu ferðaþjónustunnar sem nýtir landið á annan hátt en til dæmis landbúnaður og orkuiðnaður.

Stærsta verkefni samtímans

Viðhorf okkar til þess sem kallað hefur verið stærsta verkefni samtímans, loftlagsbreytinganna, er líka smám saman að breytast – og verður að breytast til að við getum tekist á við það með sama krafti og við tókumst á við veiruna. Eins og Biden hefur boðað vestanhafs er lykillinn að því að berjast gegn hamfarahlýnun sá að fjárfesta í fólki og þekkingu og skapa tækifæri og störf í grænum geirum. Við þekkjum þessa geira, þeir hafa verið burðarás íslensks efnahags í áratugi: Sjávarútvegur, orkuframleiðsla, landbúnaður, skapandi greinar, ferðaþjónusta, hugverkaiðnaður.

Þeir sem sjá fyrir sér að leiðin til þess að búa til nýtt og öflugt grænt hagkerfi sé að kippa öllum meginkerfum heimsins úr sambandi, að við hættum að ferðast, að við á Vesturlöndum sættum okkur við lakari lífsgæði, að þau sem búa í þróunarlöndunum sætti sig við hægari lífsgæðaaukningu, þeir sem telja að dómsdagsspár séu lykillinn að almennri breytingu á viðhorfum og hegðun, þeir munu ekki leiða heiminn í lausn þessa vanda. Í þessu verkefni eins og öðrum þarf samvinnu, þekkingu og framsýni til að leysa málin.

Tækifærin í grænni atvinnusköpun

Við í ríkisstjórn Íslands höfum lagt mikla áherslu á nýsköpun á kjörtímabilinu og sérstaklega í þeim aðgerðum sem ráðist hefur verið í vegna heimsfaraldursins. Það er í mínum huga ljóst að atvinnulífið er lykillinn að hraðri grænni viðspyrnu. Ísland og íslenskt atvinnulíf eiga mikil tækifæri í grænni atvinnusköpun, það sannar sagan. Ég hef velt því fyrir mér hvort ein leiðin til að sýna skýra græna fjárfestingarstefnu og framtíðarsýn í loftlagsmálum væri sérstakt loftlags- og nýsköpunarráðuneyti. Eitt er allavega ljóst að kraftur viðskipta- og atvinnulífs og þekking vísindanna eru blandan sem stuðla að umbótum og framförum í heiminum. Það þekkjum við Framsóknarmenn, hvort sem við búum í Hvíta húsinu eða Hrunamannahreppnum.

Höfundur er formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.