Klukkan 14 í dag fögnum við því í Eldborg Hörpu að 20 ár eru liðin frá stofnun Samtaka atvinnulífsins. Það gerum við m.a. með því að gefa út sögu samtakanna, Frá Þjóðarsátt til Lífskjarasamnings. Það er mannlegt að líta um öxl á tímamótum sem þessum, en það er enn mikilvægara að líta fram á veginn. Við ætlum því að velta fyrir okkur hvernig Ísland, og þá einkum atvinnulífið, gæti horft við okkur að 20 árum liðnum, árið 2039.

Umhverfismál eru ein af stóru áskorunum atvinnulífsins í dag og verða það áfram næstu tvo áratugina. Engin stór verkefni, sem mannkynið stendur frammi fyrir, verða leyst eingöngu af hinu opinbera. Samstarf atvinnulífs, ríkis, sveitarfélaga og almennings er lykill að lausn þessa vanda. Ríkisstjórnin hefur þegar sett og fjármagnað metnaðarfulla loftslagsstefnu og efnt til samstarfs við okkur í atvinnulífinu. Samkvæmt stefnunni verður Ísland orðið kolefnishlutlaust árið 2039. Það sem er kannski meira um vert, að nýta gott fordæmi okkar og samstarf á Norðurlöndum og Evrópska efnahagssvæðinu til að fá stórveldin til að láta ekki sitt eftir liggja.

Eftir tvo áratugi hafa aðilar vinnumarkaðarins komið sér saman um að taka upp norrænt vinnumarkaðslíkan. Ný vinnubrögð munu leiða vinnumarkaðinn úr átakafarvegi og vítahring of mikilla launahækkana og verðbólgu, sem því miður hefur of oft einkennt hann. Áhersla verður lögð á verðstöðugleika til að standa vörð um kaupmátt almennings og að halda uppi hagvexti og framleiðni í atvinnulífinu.

Eigi hagkerfið að vaxa á sama hraða næstu 20 árin eins og hin síðustu 20 árin, þá þurfa útflutningsverðmæti að vaxa um einn milljarð á viku. Stærstu atvinnugreinar okkar, ferðaþjónusta, sjávarútvegur og orkufrekur iðnaður, byggja afkomu sína alla á sjálfbærri nýtingu íslenskrar náttúru. Vexti þessara greina eru því sett náttúruleg takmörk. Stór hluti nýrra útflutningsverðmæta þarf því að koma úr öðrum greinum og þar er nýsköpun því lykilatriði. Hugvitinu eru engin takmörk sett. Nýsköpunarstefna sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kynnti nýlega mun hjálpa til að tryggja að að 20 árum liðnum verði komin til sögunnar ný fyrirtæki og nýjar atvinnugreinar sem engin leið er að spá fyrir um.

Áhersla á samkeppnishæfni atvinnulífsins gagnvart viðskiptalöndum okkar er lykill að betri lífsgæðum okkar allra. Til viðbótar við stöðugt verðlag, stöðugan gjaldmiðil og góðan jarðveg fyrir nýsköpun þá þarf laga- og skattaumhverfið að vera eins og best gerist. Það stefnir í að Ísland eigi þann vafasama heiður að vera heimsmeistari í háum opinberum útgjöldum og háum sköttum þegar miðað er við landsframleiðslu.

Að 20 árum liðnum verðum við vonandi í meðaltali þróaðra ríkja hvað þetta varðar. Þá verðum við líka búin að láta af þeim ósið að þurfa alltaf að hafa lagaumhverfið aðeins flóknara og meira íþyngjandi en annars staðar í Evrópu. Í krafti smæðar og tæknibreytinga verðum við búin að tryggja að öll samskipti fyrirtækja og hins opinbera verða stafræn, einföld og sem allra mest sjálfvirk. Við verðum í fararbroddi í stafrænni stjórnsýslu og einföldu, en þó öflugu, laga- og eftirlitsumhverfi.

Hið opinbera, almenningur og fyrirtæki eru öll hluti af sama samfélaginu. Við erum öll á sama báti og deilum sömu örlögum. Því öflugra sem atvinnulífið er því fleiri og tryggari störf getur það skapað og því meiri skatta getur það greitt til að standa undir samneyslu, eins og öflugu velferðar- og menntakerfi. Ef okkur tekst að efla atvinnulífið til enn frekari dáða næstu 20 árin þá þarf ekki að hafa áhyggjur af lífsgæðum landsmanna.

Eyjólfur Árni Rafnsson er formaður Samtaka atvinnulífsins og Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri.