*

laugardagur, 4. júlí 2020
Týr
21. júní 2020 09:08

Atvinnumálin á Alþingi

Týr áttar sig ekki á aukafundi Alþingis en Þórhildur Sunna Ævarsdóttir segir ástæðuna vera vegna ummæla fjármálaráðherra.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir er alþingismaður Pírata.
Haraldur Guðjónsson

Heimsfaraldurinn virðist genginn hjá í bili, en atvinnulífið á heljarþröm, svo stjórnarandstaðan hefur lagt Alþingi undir umræður um atvinnumálin hans Þorvaldar Gylfasonar hagfræðiprófessors. Almenningur veit að hag hans er vel borgið fyrst slík vegtylla og 2-3 vikna aukastarf í þægilegri innivinnu er fyrsta mál á dagskrá hjá stjórnarandstöðunni.

                                           ***

Að vísu er í ljós komið að það var aldavinur Þorvaldar og forn samstarfsmaður sem stakk upp á honum til umræddra starfa, án þess að það hafi nú verið í hans verkahring eða með nokkurri heimild til. En kannski er þar lausnin á atvinnuvanda Íslendinga fundin, að Lars Calmfors lofi öllum þeim vinnu, sem ekki hafa nóg annað að iðja

                                           ***

Samt sem áður var málið tekið upp á sérstökum aukafundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sem haldinn var að beiðni Samfylkingarþingmannsins Guðmundar Andra Thorssonar. Hann virtist telja sig þar vera í erindum þeirra Þorvaldar og Lars, en ekki íslensks almennings, og framgangan öll frekar einkennileg.

Týr áttar sig ekki vel á því til hvers þingið er að standa fyrir slíkum leikæfingum. Því svaraði hins vegar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og rétt ófráfarinn formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, af því að henni hefði þótt það óeðlilegt að fjármálaráðherra hafi „réttlætt þessi afskipti fjármálaráðuneytisins“. Sem sé þau afskipti að vilja að stjórnsýslan væri rétt en ekki háð duttlungum óviðkomandi Svía og vinar næstumritstjórans.

                                           ***

En svo fetti hún raunar líka fingur út í það hvaða skilaboð þetta sendi út í akademíuna og atvinnulífið, að „ef þú hagar þér ekki vel, þá færðu ekki vinnu við hæfi“. Sjálf er Þórhildur Sunna þó til sönnunar um hið gagnstæða, líkt og sjá má á ferilskrá hennar á vef Alþingis. Það er stutt lesning. Hún bætti þó snarlega úr því með því að segja í framhaldinu af sér sem formaður nefndarinnar, af mjög óljósum ástæðum, aðallega vegna þess að hún hafi sætt gagnrýni. Vilkat goð geyja, en ekki þykir Tý það fara Pírötum vel að kveinka sér undan gagnrýni eða „linnulausum árásum“ eins og hún komst að orði.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublað, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.