

Fyrir helgi birti áfrýjunarnefnd samkeppnismála úrskurð í máli Símans gegn Samkeppniseftirlitinu (SKE). Í mjög stuttu máli snýr málið að markaðssetningu á Enska boltanum. Vorið 2020 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði brotið gegn þremur skilyrðum sátta, sem gerðar höfðu verið við Eftirlitið. Í kjölfarið var fyrirtækið sektað um 500 milljónir króna vorið 2020.
Síminn áfrýjaði og fyrir síðustu helgi birti áfrýjunarnefndin úrskurð. Í úrskurðarorðum nefndarinnar er Samkeppniseftirlitið gert afturreka með tvö af þremur skilyrðum sem það taldi Símann hafa brotið gegn og þeim atriðum vísað til nýrrar meðferðar og ákvörðunar hjá Eftirlitinu. Eftir stendur brot gegn einu skilyrði sáttarinnar og sektin þar með lækkuð úr 500 milljónum króna í 200. Þykir hröfnunum þetta ansi merkileg niðurstaða enda ekki oft sem sektir eru lækkaðar um heilar 300 milljónir í einu vetfangi.
Samkeppniseftirlitið virðist ekki sjá þetta sömu augum og hrafnarnir. Það sendi frá sér tilkynningu um leið og úrskurður áfrýjunarnefndarinnar lá fyrir. Í henni segir að nefndin hafi staðfest að Síminn hafi brotið gegn sátt og verið sektaður um 200 milljónir króna. Ekki er einu orði minnst á að Samkeppniseftirlitið hafi áður lagt 500 milljóna króna sekt á Símann.
Halldór Brynjar Halldórsson, lögmaður Símans, skrifar um málið á Linkedin þar sem hann segir m.a.: „Með úrskurðinum var stórum hluta ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins vísað til baka (tvö meint brot af þrem) og sektarfjárhæð lækkuð um 60%. Einhvern veginn tókst Samkeppniseftirlitinu að senda frá sér fréttatilkynningu þar sem minnst er á hvorugt þessara atriða.“ Páll Gunnar Pálsson og félagar hans hjá Samkeppniseftirlitinu mættu nú alveg sýna smá auðmýkt í sínum tilkynningum og reyna að minnsta kosti að koma grundvallarupplýsingum til skila.
Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.