Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Okkur er treyst fyrir miklum auðlindum og það er skylda okkar að nýta þær á ábyrgan og sjálfbæran hátt, þannig að eigandi fyrirtækisins, íslenska þjóðin, fái notið ávinningsins af starfi okkar.

Landsvirkjun byggir á traustum grunni en fyrirtækið hefur frá stofnun verið leiðandi í uppbyggingu íslenska raforkukerfisins og byggt upp öflugan raforkubúskap til hagsældar fyrir þjóðina. Þetta hefur fyrirtækið gert í farsælu samstarfi við viðskiptavini sína í rúma hálfa öld. Sá trausti grunnur sem fyrirtækið byggir á hefur gert frekari verðmætasköpun mögulega, bæði með öflugu markaðsstarfi og aukinni orkuvinnslu og skilvirkni.

Til að skjóta enn styrkari stoðum undir reksturinn og leggja grunn að stórauknum arðgreiðslum Landsvirkjunar hefur á undanförnum árum verið gripið til margvíslegra aðgerða.

Endursamið um hærra verð

Landsvirkjun er þátttakandi á alþjóðlegum raforkumarkaði. Um 80% af orkusölu Landsvirkjunar fara til alþjóðlegra stórnotenda raforku, sem starfa víða um heim og leita hagstæðustu kjara fyrir sína starfsemi. Á undanförnum árum hefur verið endursamið við stóra viðskiptavini. Samningarnir eru meðal stærstu viðskiptasamninga sem gerðir eru á Íslandi og því miklir hagsmunir í húfi.

Við endursamninga og nýja samninga hefur verið samið um sambærilegt verð og býðst á helstu samkeppnismörkuðum, s.s. í Noregi og Kanada. Enda er í dag engin ástæða til þess að raforkuverð sé lægra á Íslandi en á þessum mörkuðum.

Í upphafi endursamninga, þar sem Landsvirkjun sóttist eftir hærra verði sem stæðist alþjóðlegan samanburð, var stundum haft á orði að fyrirtækið væri að verðleggja sig út af markaðnum. Endursamningar við núverandi viðskiptavini og stöðugt aukin eftirspurn eftir nýjum samningum hafa aftur á móti staðfest samkeppnishæfni Íslands og að Landsvirkjun býður samkeppnishæf kjör.

Á sama tíma er mikilvægt að halda til haga að raforkuverð Landsvirkjunar til sölufyrirtækja, sem selja rafmagn áfram til almennings og smærri fyrirtækja, hefur ekki fylgt verðlagshækkunum.

Nýjar virkjanir án aukinna skulda

Frá upphafi hefur fyrirtækið sinnt skynsamlegu viðhaldi aflstöðva og annarra mannvirkja. Ekki hefur verið gripið til þess að fresta nauðsynlegu viðhaldi sem gert hefur að verkum að ekki er uppsöfnuð fjárfestingarþörf. Með aukinni þekkingu og margvíslegum aðgerðum hefur starfsfólki Landsvirkjunar auk þess tekist að bæta nýtingu og auka orkuvinnslu núverandi kerfis og svæða. Samhliða því hafa þrjár nýjar virkjanir verið byggðar á undanförnum árum; Búðarhálsstöð var gangsett 2014, Þeistareykjastöð verður formlega gangsett á morgun og næsta sumar munum við gangsetja Búrfell II.

Þessar aflstöðvar byrja að skapa nýjar tekjur um leið og þær komast í rekstur. Við höfum auk þess lagt okkur fram um að standa að framkvæmdum í góðri sátt við samfélag og umhverfi. Samhliða þessum fjárfestingum og uppbyggingu hefur markvisst verið unnið að lækkun skulda fyrirtækisins.

Á árunum 2010-2016 lækkuðu hreinar skuldir um 100 milljarða króna, á sama tíma var fjárfest fyrir um 90 milljarða króna. Með bættum rekstri og lækkandi skuldum hefur lánshæfismat Landsvirkjunar batnað verulega. Lán hafa verið greidd upp eða endurfjármögnuð og fjármagnskostnaður lækkað. Öll langtímalán frá árinu 2011 hafa verið tekin án ríkisábyrgðar.

Auknar arðgreiðslur framundan

Allar þessar aðgerðir og margar fleiri hafa leitt til þess að fjárhagsleg staða Landsvirkjunar er nú orðin mun sterkari en áður, fjármunamyndun í náinni framtíð mun hækka umtalsvert og mögulegt verður að byrja að auka arðgreiðslur þegar á næsta ári. Á haustfundi Landsvirkjunar kom fram að samanlagðar arðgreiðslur Landsvirkjunar á árunum 2020-2026 geta numið um 110 milljörðum króna. Það er upphæð sem skiptir eiganda fyrirtækisins, íslensku þjóðina, miklu máli.

Höfundur er forstjóri Landsvirkjunar.