Þrátt fyrir að nýtt frumvarp um leigubílalög geri áfram ráð fyrir flestum af gildandi takmörkunum er örvænting hagsmunafélaga leigubílstjóra mikil og engu til sparað í dramatískum hamfaraspám þeirra. Það er gömul saga og ný.

***

Öllum til mikillar undrunar, reyna hagsmunafélögin að mála þá frumlegu mynd að aukin samkeppni í greininni muni leiða til hærra verðs og lakari þjónustu. Þetta höfum við auðvitað aldrei nokkurn tíma heyrt áður. Það er ekki eins og hver einasti hagsmunaaðili sem notið hefur góðs af samkeppnishömlum í gegnum tíðina hafi farið með þessa sömu gömlu tuggu þegar vegið hefur verið að stöðu þeirra. Týr man þó ekki til þess að slík hrakspá hafi ræst við aukna samkeppni en hagsmunaaðilar munu engu að síður halda því fram að þeirra markaður fylgi öðrum lögmálum þar sem allir njóti góðs af fákeppninni.

Málflutningur þessi er auðvitað hlægilegur, neytandinn nýtur aldrei góðs af fákeppni. Fólk er enda ekki að kaupa málflutning hagsmunafélaga leigubílstjóra – ef til vill vegna þess að verðið gæti vart orðið hærra og þjónustan alls ekki verri en hún er í dag. Hagsmunafélögin reyna því nú að að elta tískubylgju samfélagsins með því að setja í fórnarlambsgírinn. Þeir sem tala fyrir aukinni samkeppni í greininni munu þannig vera að kynda undir ofbeldi gegn leigubílstjórum. Umræða um aukna samkeppni mun meðal annars hafa leitt til slæmrar framkomu og að svínað sé fyrir leigubíla, að sögn hagsmunafélaganna.

Týr er skoðanadálkur en þessi birtist í Viðskiptablaðinu 8. júní 2022.