Í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn fjallaði Óðinn um gjaldþrot Fréttablaðsins og rekstrarumhverfi fjölmiðla.

Hér er stutt brot úr pistli Óðins en áskrifendur geta lesið hann hér.

23 milljónir í styrk á hvern starfsmann

Óðinn er algjörlega andvígur því að styrkja einkafyrirtæki með peningum skattgreiðenda. Það er í raun einhver vitlausasta hugmynd sem nokkrum stjórnmálamanni dettur í hug – enda til þess eins að kaupa atkvæði á kostnað skattgreiðenda. Engu máli skiptir á hvaða sviðið það er, bókaútgáfu, innanlandsflugi eða fjölmiðlum.

Rétt eins og það er algjör tímaskekkja að íslenska ríkið reki sjónvarp og útvarp þó hægt sé að færa fyrir því rök að taka fjármuni úr sameiginlegum sjóðum til að styðja við vandað efni á móðurmálinu.

***

Aumt spark Sigríðar

Sigríði Dögg Auðunsdóttir vill ekki ræða ofurstyrkina til Ríkisútvarpsins um leið og vanda einkarekinna fjölmiðla. Í þessu sambandi talar hún reyndar um að málið sé tekið í gíslingu með að ræða alltaf um stöðu RÚV. Í viðtali á Vísi á föstudaginn sagði hún:

En hér á landi er endalaust verið að rífast um það hvort RÚV eigi að vera á auglýsingarmarkaði eða ekki. Ég er bara komin með nóg af þessari umræðu. Það er ekki hægt að taka umræðuna um stöðu fjölmiðla alltaf í gíslingu með því að tala um RÚV á auglýsingamarkaði.

Hún sagði að ef taka ætti RÚV af auglýsingamarkaði yrði bara að gera það. Blaðamannafélagið hefði lagt það til en þó með þeim formerkjum að RÚV yrði bætt upp það tekjutap. Einmitt.

Sigríður Dögg hefur auðvitað persónulega hagsmuni af því sem starfsmaður Ríkisútvarpsins að ríkismiðillinn fái að vaxa og dafna í friði. Það er því nær að kalla hana formann ríkisfréttamanna en blaðamanna.

***

Ríkisvaldið ákvað að loka landinu vegna flensu sem barst hingað frá Kína. Það var skiljanlegt í byrjun en óskiljanlegt þegar á leið. Vegna þessa ákváðu stjórnvöldin sem lömuðu efnahagslífið að setja á svokallað hlutabótakerfi. Hugmyndin var sú að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir og fjölda atvinnuleysi. Þetta var því gert fyrir starfsfólkið en ekki fyrirtækin.

Sigríður Dögg, þá fréttamaður á Ríkisútvarpinu, þurfti ekki að hafa áhyggjur af sínu starfi frekar en aðrir ríkisstarfsmenn. Á þeim bænum var engin hlutabótaleið heldur fullar bætur — fullbótaleið líkt og ætíð.

Í einni fréttSigríðar í ríkismiðlinum kom fram að 6.000 fyrirtæki hefðu nýtt sér hlutabótaleiðina. Það gerðu fyrirtækin fyrir starfsmennina því ella hefðu þau þurft að segja þeim upp.

Sigríður nefndi nokkur fyrirtæki í fréttinni þar á meðal Myllusetur, útgáfufélag Viðskiptablaðsins. Þarna reyndi Sigríður að sparka eitt af 6.000 liggjandi fyrirtækjum á Íslandi - sem jafnan veitir Ríkisútvarpinu hvað mest aðhald. Ætli það hafi verið tilviljun að Myllusetur varð fyrir valinu?

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út miðvikudaginn 5. apríl. Áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.