Eitt af fáu í íslenskri umræðu sem er þreyttara en árviss umræða um kirkjuheimsóknir grunnskólabarna á aðventu eru ritdeilur hagsmunafélaga landbúnaðarins við hagsmunafélag atvinnurekenda.

Nýjasta nýtt er ritrimma um útboð á tollkvótum. Þar sem keppst er við að föndra með tölfræði og takmörkuð virðing borin fyrir vitsmunum lesenda.

Alþjóðahagfræðin að baki því að niðurgreiða óhagkvæma atvinnugrein eins og íslenskan landbúnað er ekki flókin. Á meðan stærri lönd geta grætt á tollum og niðurgreiðslum vegna bættra viðskiptakjara þá geta lítil lönd það ekki. Þannig hafa stærri löndin hvata til að eyðileggja samkeppnina og þá fellur það í hlut ríkisins að leiðrétta markaðsbrestinn og mæta stærri þjóðunum á sama hátt. Sé það ekki gert verður úti um atvinnugrein sem með réttu ætti að geta blómstrað. Þetta kemur niður á neytendum á sama hátt og ef innlend fyrirtæki brjóta samkeppnislög.

Aftur á móti er það líka slæmt fyrir efnahagslífið að missa heila atvinnugrein, sérstaklega ef undirliggjandi markaður er ekki sanngjarn – þ.e. ef verndarhyggja annarra landa skapar ósamkeppnishæfnina. Það er í sjálfu sér skiljanlegt að talsmenn landbúnaðarins beiti þessum rökum fyrir verndartollum á innfluttar landbúnaðarafurðir.

Þó að einhverjir Íslendingar sjái eflaust molbúaháttinn í hillingum þá er það nú samt svo að flest okkar vilja hafa það valfrelsi sem fylgir frjálsum viðskiptum. Við viljum geta valið hvort við kaupum niðurgreiddan Dala Camembert eða innfluttan Le Chatel-ain Camembert, en þá þarf forsendan fyrir valinu líka að vera raunhæf.

Þegar settir eru tollar til að styðja við íslenska framleiðendur sem svo nýta samkeppnisforskotið sitt til að yfirbjóða þá tollkvóta sem boðnir eru, ekki endilega með það að leiðarljósi að nýta tollakvótana sjálfir, þá er grundvöllurinn fyrir valfrelsinu ekki til staðar.

Merkingarlaust taut í hagsmunafélögum skilar litlu öðru til samfélagsins en afbakaðri mynd af sannleikanum, sem er sá að tollar eru eðlilegir við slíkar markaðsaðstæður.

Það að tollkvótar hækki hugsanlega verð til neytenda er í hæsta máta óeðlilegt og til vitnis um hversu vandrataður vegur miðstýringar er. Að halda öðru fram er hlægilegt og til þess fallið að skaða trúverðugleika umræddra hagsmunafélaga.

Týr er skoðanapistill. Þessi birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 9. febrúar 2023.