*

sunnudagur, 16. júní 2019
Ragnar Þór Ingólfsson
1. janúar 2019 18:15

Ávinningur eða endalok

„Misskipting og óréttlæti eru mannanna verk og alls engin náttúrulögmál“ og því á „ekki að tala um kostnað“.

Aðrir ljósmyndarar

Þjóðarátak í húsnæðismálum er eitt allra brýnasta kjaramálið. Stórauka þarf framboð á hagkvæmu húsnæði til kaups og leigu sem gæti lækkað húsnæðiskostnað að meðaltali um 70 til 100 þúsund krónur á mánuði. Einnig þarf að tryggja húsnæðisöryggi með meiri vernd fyrir fólk á leigumarkaði. Þarna sjáum við gríðarleg tækifæri til að auka ráðstöfunartekjur og félagslega stöðu margra hópa.

Skattkerfið

Með auknum jöfnuði í skattkerfinu getum við aukið ráðstöfunartekjur milli og lægri tekjuhópa verulega. Einnig að vinna til baka þær kaupmáttarkrónur sem ríkið hefur tekið af félagsmönnum okkar vegna skerðinga barna- og húsnæðisbóta og vaxtabóta sem nánast hafa þurrkast út.

Stytting vinnuvikunnar er ein helsta krafa félagsmanna okkar. Greiðsla sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóðum stéttarfélaganna, vegna geðrænna kvilla, hefur náð óþekktum hæðum. Fólk er að gefast upp í stórum stíl og nýgengi örorku er meiri en nýliðun á vinnumarkaði. Það er ósjálfbær þróun. Veikindi kosta atvinnulífið gríðarlegar upphæðir. Styttingu vinnuvikunnar á ekki að mæla sem kostnað heldur langtíma ávinning. Með sameiginlegu átaki í að minnka álag, halda afköstum og auka vellíðan á vinnustöðum með fjölskylduvænum vinnutíma vindum við ofan af Evrópmeti okkar í yfirvinnu og dagvistun barna.

Vextir

Við borgum 300% hærri vexti af húsnæðislánum ef við berum okkur saman við nágrannalöndin. Atvinnulífið greiddi um 260 milljarða í vexti árið 2017. Þarf að hafa fleiri orð um gríðarlegan ávinning af lægra vaxtastigi fyrir almenning og fyrirtæki?

Verðtrygging og krónan

Er eðlilegt í siðmenntuðu ríki að launakrónan rýri verðgildi sitt í verðbólgu á meðan verðtryggð skuldakrónan hækkar og fitnar. Síðan hvenær varð það að órjúfanlegt náttúrulögmáli að almennur skuldari beri einn alla áhættu af lánasamningi? Og þetta hefur raunverulega ekkert með krónuna að gera.

Þeir sem halda því fram að krónan kosti almenning hátt í 200 milljarða á ári þurfa líka að segja hverjum hún raunverulega þjónar og hvort það sé náttúrulögmál að svo sé. Og hvað stendur í vegi fyrir því að krónan geti þjónað þeim sem hún refsar?

Ég get alveg fallist á rök þeirra sem vilja taka upp annan og stöðugri gjaldmiðil en það réttlætir ekki að almenningur og fyrirtæki búi við þessi kjör! Það eru vissulega kostir og gallar við að vera með lítinn ríkisgjaldmiðil en það eru svo sannarlega ekki bara kostir að taka upp evru.

Grunnþjónustan

Alltof stór hópur í okkar samfélagi hefur ekki efni á að veikjast og getur ekki menntað sig nema setjast í ævilangt skuldafangelsi.

Aukin stéttarvitund er boðskapur sem snýr að þéttara öryggisneti sem raunverulega grípur okkur ef eitthvað kemur uppá. Við erum einungis þremur launaseðlum frá alvarlegum fjárhagsvandræðum, þremur afborgunum frá því að missa þak yfir höfuðið og alvarlegum veikindum frá sárri fátækt. Við gerum okkur ekki grein fyrir því hvernig kerfin okkar virka fyrr en við lendum í þeim. Og þá er oft erfitt að breyta. Við mælum gæði samfélagsins á stöðu okkar veikustu bræðra og systra. Sama hvað meðaltölin segja.

Samkeppnishæfni

Kröfur okkar snúast um að lækka kostnað við að lifa og að lágmarkslaun séu í takt við það. Það græða allir hópar á því. Það væri ekki mikill metnaður hjá verkalýðshreyfingunni ef það væri ekki grunnstefið í kjarabaráttunni. Við viljum ná þessu fram með öllum tiltækum ráðum, í gegnum skattkerfið, vexti og verðtryggingu, húsnæðismálin, grunnþjónustuna og með krónutöluhækkun.

Við viljum auka jöfnuð en ekki draga kerfisbundið úr honum. Samkeppnishæfni snýst ekki um að bjóða ódýrasta vinnuaflið. Samkeppnishæfni snýst um að bjóða bestu lífskjörin. Ekki bara til að laða að værðmæt störf heldur líka að halda þeim.

Fátækt

Langvarandi framfærsluvandi, húsnæðisóöryggi og aukin misskipting hefur skelfilegar félagslegar afleiðingar og getur leitt af sér óbætanlegt samfélagslegt tjón. Þetta vitum við en erum samt tilbúin að taka undir orðræðu þeirra sem telja nauðsynlegt að skattleggja fátækt og fráleitt, jafnvel sturlað, að verkalýðshreyfingin berjist fyrir launum sem duga til framfærslu.

Ávinningur eða endalok

Við eigum ekki að tala um kostnað þegar ávinningurinn er augljós. Hvað kostar að gera ekki neitt? Kröfugerð stéttarfélaganna gengur út á að leggja áherslu á auknar ráðstöfunartekjur þeirra hópa sem ná ekki endum saman eða eru á mörkum þess. Hópa sem eyða öllum sínum ráðstöfunartekjum í nauðþurftir. Við erum að leggja áherslu á þá hópa þar sem heimilistæki eða bíll má ekki bila til að illa fari. Í því felst ávinningur.

Auknar ráðstöfunartekjur hópa sem eru undir framfærsluviðmiðum, eða á mörkum þess, munu skila sér óskiptar út í samneysluna sem aftur eykur veltu fyrirtækja sem eykur svigrúm þeirra í að borga hærri laun, ráða fleira fólk eða greiða meiri arð. Einnig er ávinningur ríkis og sveitarfélaga í formi minni félagslegs stuðnings og aukinna skatta. Heildarendurskoðun á fjármála- og lífeyriskerfinu þarf einnig að hefjast sem allra fyrst.

Misskipting og óréttlæti eru mannanna verk og alls engin náttúrulögmál. Allt sem þarf er samstaða og kjarkur í að breyta.

Höfundur er formaður VR

Greinin birtist í tímaritinu Áramót, sem gefið er út af Viðskiptablaðinu og Frjálsri verslun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð, aðrir geta skráð sig með því að smella á Áskrift.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is