*

sunnudagur, 20. júní 2021
Leiðari
4. júní 2021 12:22

Baðkör og skattar

Um leið og fasteignamat hækkar líta sveitarfélögin svo á að skattstofn þeirra hafi stækkað.

Haraldur Guðjónsson

Heildarmat fasteigna á Íslandi fyrir árið 2022 hækkar um 7,4% frá yfirstandandi ári og verður 10.340 milljarðar króna, samkvæmt nýbirtu fasteignamati Þjóðskrár. Hækkunin er talsvert meiri en fyrir ári en þá hækkaði fasteignamat um 2,1%. Á höfuðborgarsvæðinu nemur hækkunin um 8% og á landsbyggðinni 5,9%.

Í tilkynningu frá Þjóðskrá Íslands segir að hækkun fasteignamats sé í takt við þróun fasteignaverðs en eins og flestir vita hefur fasteignaverð verið á hraðri uppleið undanfarið. Enn fremur segir í tilkynningunni að lægri vextir hafi haft talsverð áhrif á fasteignamarkaðinn og þar með fasteignamatið. Er hér verið að vísa í stýrivaxtalækkanir Seðlabanka Íslands, sem höfðu mikil áhrif á lánakjör bankanna. Það að fasteignamat hækki vegna hækkunar fasteignaverðs getur seint talist rökrétt. Hækkun fasteignamats kyndir enn frekar undir hækkun húsnæðisverðs, sem hefur aftur áhrif á hækkun fasteignamats. Þetta er einhvers konar hringavitleysa.

Beint samband er á milli fasteignamats og fasteignaskatta, sem sveitarfélögin innheimta. Fasteignaskattar eru einhver ósanngjarnasta og illskiljanlegasta skattheimta þessa lands. Um leið og fasteignamat hækkar líta sveitarfélögin svo á að skattstofn þeirra hafi stækkað. Félag atvinnurekenda benti í vikunni að fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði hefði hækkað um 68% frá árinu 2015, sem er yfirgengileg hækkun og langt umfram almennar verðlagshækkanir eða launahækkanir.

Viðskiptablaðið hefur áður bent á nauðsyn þess að endurskoða tengsl fasteignamats og fasteignaskatta og gerir það aftur nú. Er það af þeirri augljósu ástæðu að tekjur fólks eða lögaðila, sem eiga atvinnuhúsnæði, hækka ekki sjálfkrafa við það eitt að Þjóðskrá ákveði að hækka fasteignamat. Þá hefur Viðskiptablaðið ekki orðið vart við það að þjónusta sveitarfélaga við fasteignaeigendur aukist í takt við hækkun skatta. Þessir peningar fara að mestu í eitthvað allt annað.

Helgi Tómasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, hefur á síðustu árum ítrekað bent á hversu ófyrirsjáanleg og ósanngjörn skattheimta sem byggi á fasteignamati sé. Í Ríkissjónvarpinu í vikunni benti hann á að þótt virði eigna hækki geti fólk ekki innleyst hagnaðinn nema selja og flytja úr landi.

Skoðum aðeins forsendur útreikninga fasteignamats. Á Þjóðskrá Íslands segir að fasteignamat sé „reiknað með því að umreikna upplýsingar úr fasteignaskrá yfir í tölulegt form. Síðan er gildum stungið inn í viðeigandi líkan í samræmi við staðsetningu viðkomandi eignar.“

Breyturnar sem ráða fasteignamati eru sem sagt staðsetning eignar, en einnig stærð hennar, hvort hún er úr öðru byggingarefni en steinsteypu, hvort þetta er séreign eða fjölbýli, hvort það er bílskúr, bílastæði, lyfta eða geymsla í húsnæðinu og svo mætti lengi telja, reyndar mjög lengi. Ein áhugaverð breyta sem notuð er í íbúðarmatslíkaninu er fjöldi hreinlætistækja, sem er fjöldi baðkara, sturta og salerna deilt með íbúðarflatarmáli sinnum 100. „Þetta er mat á fjölda hreinlætistækja á hverja 100 fermetra af íbúðarflatarmáli. Ef til dæmis 3 hreinlætistæki eru í 60 fermetra íbúð verður gildi breytunnar 5.“

Önnur áhugaverð breyta í líkaninu kallast undirmatssvæðisstuðull. Ef við grípum niður í lýsingu á undirmatssvæðisstuðli þá segir: „Verðmætastuðull undirmatssvæðis. Breytur eiga við þar sem staðbundin staðsetningaráhrif mælast í kaupverði til dæmis vegna góðs útsýnis eða mikillar umferðar.“ Nú vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvort ekki þurfi að taka inn í reikninginn fjölda daga sem heiðskírt er svo hægt sé að njóta útsýnisins. Einnig má velta því fyrir sér hvort það borgi sig að keyra nokkrum sinnum fram hjá íbúðinni, jafnvel fá nána ættingja og vini til þess að gera það líka, í þeim tilgangi að keyra niður skattstofninn. Þetta er reikningsdæmi sem hver og einn þarf að meta, en fyrir eigendur rafbíla gæti þetta borgað sig.

Burtséð frá fjölda hreinlætistækja og góðu útsýni þá er skattur sem byggir á fasteignamati sem þróast í takt við húsnæðisverð og tekur ekkert tillit til þróunar tekna fólks eða lögaðila ósanngjarn.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.