*

laugardagur, 6. júní 2020
Óðinn
8. nóvember 2016 12:50

Báknið bjagar allt og gerir verra

Óðinn telur tíma þeirra sem koma til með að mynda stjórn vel varið í að taka skattkerfið og útgjöld hins opinbera til alvarlegrar skoðunar.

Haraldur Guðjónsson

Búið er að kjósa nýtt þing, hálfu ári áður en þess gerðist í raun þörf, og formanni Sjálfstæðisflokksins hefur verið falið umboð forseta Íslands til að mynda stjórn. Óðinn gerir ráð fyrir því að það muni takast, enda hefur forseti væntanlega hlerað forsvarsmenn annarra flokka áður en hann veitti Bjarna Benediktssyni umboðið. Líklegasta stjórnarmynstrið er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar.

***

Að vissu leyti væri slík stjórn ákjósanleg fyrir borgaralega sinnað fólk og fyrir atvinnulífið. Enginn þessara flokka hefur talað af heift í garð fyrirtækja almennt og forsvarsmenn þeirra virðast gera sér grein fyrir mikilvægi atvinnulífsins.

***

Stærstu málin, sem ný ríkisstjórn mun taka á, eru hins vegar ekki þau sem mikilvægust eru. Ætla má að Evrópumál, sjávarútvegsmál og jafnvel stjórnarskráin fái mikið pláss í stjórnarsáttmálanum. Það sem mestu máli skiptir eru hins vegar ríkisfjármálin – eða öllu heldur að koma böndum á útgjöld hins opinbera.

***

Þetta er ekkert nýtt og það má vissulega telja Sjálfstæðisflokknum og formanni hans til tekna að þennan málaflokk hefur hann tekið alvarlega. Mikil áhersla hefur verið lögð á að lækka skuldir ríkissjóðs, enda eru vaxtagreiðslur allt of stór hluti útgjalda ríkissjóðs.

***

Hins vegar er mjög miður að markmiðið með lækkun vaxtagjalda virðist ekki vera það að geta í framhaldinu lækkað skatta, heldur á að vera hægt að nota „svigrúmið“ til að auka önnur útgjöld, einkum til heilbrigðismála.

***

Útgjöld blása út

Óðinn taldi því rétt að hnykkja á nokkrum grundvallarstaðreyndum varðandi skaðsemi skattkerfisins og þótti því hafa himin höndum tekið þegar hann sá að breska hugveitan Institute of Economic Affairs gaf í vikunni út nýtt rit um skattlagningu, opinber útgjöld og hagvöxt.

***

Þegar rætt er um útgjöld hins opinbera í sögulegu samhengi getur verið gott að miða þau við verga landsframleiðslu eða vergar þjóðartekjur. Í bók IEA er miðað við vergar þjóðartekjur, en Óðinn mun miða við VLF hvað Ísland varðar, einfaldlega vegna þess að þær tölur liggja fyrir hjá Hagstofu Íslands. Á Íslandi hefur það sama gerst og annars staðar á Vesturlöndum að útgjöld hins opinbera hafa blásið gríðarlega út. Við upphaf fyrri heimsstyrjaldar námu útgjöld hins opinbera í Bretlandi um 12,5% af vergum þjóðartekjum, en eru nú á bilinu 40-45%. Tölur Hagstofunnar ná ekki svo langt aftur, en þó má sjá að árið 1945 námu útgjöld hins opinbera um 19,3% af VLF, en í fyrra var hlutfallið komið í 42,9%. Reyndar náði það hámarki á hrunárunum svokölluðu – 55,4% árið 2008 og 49,3% árið 2010, en hefur rokkað á bilinu 43-45% frá 2011.

***

Að þeim fyrirvara gerðum að VLF og vergar þjóðartekjur eru ekki sami hluturinn er þó hægt að slá því föstu að ekki er langt á milli Bretlands og Íslands hvað þetta varðar. Á Íslandi er hins vegar enginn herafli sem standa þarf straum af, þannig að ekki hafa íslensk stjórnvöld þá afsökun.

***

Það eru útgjöld hins opinbera, en ekki skattheimta, sem á endanum ræður því hversu þungbært ríkisbáknið er fyrir almenning. Þrátt fyrir það að hægt sé að fjármagna útgjöld til skamms tíma með skuldsetningu þá kemur á endanum að skuldadögum. Öll eyðsla hins opinbera gengur á auðlindir sem annars væri hægt að nýta til annarra hluta. Á endanum þarf að greiða skuldir ríkissjóðs og það verður aðeins gert með skattheimtu.

***

Allt tal um að hér hafi verið dregið verulega úr útgjöldum hins opinbera stenst enga skoðun, einkum þegar horft er eilítið lengra aftur í tímann en til ársins 2013. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hafa útgjöld hins opinbera á hvern Íslending aukist gríðarlega frá árinu 1980, en á myndinni eru allar tölur á föstu verðlagi. Það ár námu útgjöld hins opinbera á Íslandi á hvern mann um 1,3 milljónum króna á verðlagi ársins 2015. Hámarki náðu þau árið 2008 þegar þau voru 3,7 milljónir á mann, en í fyrra voru þau tæpar 2,9 milljónir á mann. Til samanburðar námu útgjöld hins opinbera á hátindi velmegunarinnar fyrir fall bankanna hæst 2,8 milljónum króna á mann árið 2008. Ekkert í áætlunum ríkisins gerir ráð fyrir því að þetta hlutfall minnki mikið eða að hlutfall útgjalda hins opinbera af VLF lækki.

***

Fjárfesting hefur minnkað

Hægt er að færa fyrir því rök að sum opinber útgjöld ýti undir vöxt frekar en að hefta hann, einkum fjárfesting. Það þýðir ekki að fjármununum, sem þannig er varið, hefði ekki verið betur varið með öðrum hætti, þar á meðal í skattalækkanir. Engu
að síður er fjárfesting hins opinbera ekki eins skaðleg og eyðsla í neyslu eða illa hönnuð velferðarkerfi. Því er áhugavert að sjá að fjárfesting hins opinbera í efnislegum eignum, sem hlutfall af heildarútgjöldum, hefur farið úr 5,3% árið 1999 í tæp 2,9% í fyrra. Minnst var fjárfesting í efnislegum eignum árið 2012 þegar hún nam tæpum 2,7%. Frá árinu 1998 til ársins 2015 hefur hlutfall útgjalda í kaup á vörum og þjónustu farið úr 22,3% í 25,5%, vaxtagjöld farið úr 8,9% í 10,8% og félagslegar tilfærslur til heimila úr 13,9% í 14,9%.

***

Á föstu verðlagi hafa útgjöld til kaupa á vörum og þjónustu aukist um 85 milljarða króna, vaxtagjöld um 40 milljarða og félagslegar tilfærslur um 44 milljarða króna. Það munar um minna. Fjárfestingar í efnislegum eignum námu, aftur á föstu verðlagi, 87,1 milljarði króna árið 1998, en voru 64 milljarðar í fyrra.

***

Öll þessi útgjöld þarf að fjármagna og það verður aðeins gert með skattheimtu af einhverju tagi. Skattar hefta hins vegar vöxt hagkerfisins, þótt vissulega séu sumir skattar skaðlegri en aðrir. Þeir geta virkað letjandi á fólk til vinnu og fjárfestingar. Tengsl skattheimtu og hagvaxtar hafa verið rannsökuð í þaula og má segja að þumalfingursreglan sé sú að fyrir hverja 10% aukningu í útgjöldumhins opinbera minnki hagvöxtur um 1% til lengri tíma litið. Það kann að hljóma lítið, en uppsöfnuð áhrif slíkra letjandi áhrifa eru gríðarleg.

***

Skattar hafa, eins og áður segir, misslæm áhrif á hagvöxt. Skattar á hreyfanlegt fjármagn og háir jaðarskattar á tekjur hafa óeðlilega mikil og skaðleg áhrif á vöxt. Hins vegar hafa skattar á land, neyslu og á „óheppilega efnahagslega hegðun“ minni áhrif á hagkerfið.

***

Einfalt og gott

Í grunninn þurfa skattkerfi að vera hönnuð með nokkur einföld aðalatriði í huga. Skattkerfi á að vera einfalt fyrir skattgreiðendur að skilja og fyrir hið opinbera að framfylgja. Það á að hafa sem minnst neikvæð áhrif á hagkerfið og atvinnulífið. Það þarf að vera sanngjarnt og staða allra gagnvart kerfinu þarf að vera jöfn – þ.e. að undanþágur eiga að vera sem allra fæstar. Skattkerfið þarf að vera gagnsætt og ljóst þarf að vera hverjum beri að greiða hvað og hvenær.

***

Bókarhöfundar leggja til nokkrar breytingar á breska skattkerfinu sem Óðinn er sannfærður að væru til batnaðar. Hann nefnir þær hér til upplýsingar, en ekki sem tillögu til íslenskra stjórnvalda. Leggja þeir til að lagður sé 15% tekjuskattur á allar tekjur yfir 1,35 milljóna króna árstekjum. Tekjuskattur á fyrirtækja yrði einnig 15%. Virðisaukaskattur yrði 12,5% og undantekningar frá VSK yrðu nær allar fjarlægðar. Skattur á leigutekjur yrði 12,5% og þá yrði lagður á nýr skattur á landareignir.

***


Telst þeim til að þetta myndi skila sér í 26% aukningar ráðstöfunartekna tekjulægstu tíundarinnar, 19% aukningar hjá næstu tíund þar á eftir og 17% og 13% aukningar ráðstöfunartekna hjá næstu tveimur tíundum. Ráðstöfunartekjur hinna tekjuhærri myndu aukast minna hlutfallslega.

***

Lægri skattar myndu leiða til meiri hagvaxtar og þetta nýja skattkerfi myndi hafa minni bjagandi áhrif á efnahagslífið. Má því ætla að draga myndi úr atvinnuleysi og að launatekjur myndu hækka samhliða aukinni framleiðni í atvinnulífinu. Það væru einmitt hinir efna- og tekjuminnstu sem myndu helst hagnast á þessum breytingum.

***

Þegar forsvarsmenn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafa náð saman um það hversu miklum tíma og peningum þeir ætla að sóa í viðræður við ESB, skýrslugerð um gjaldmiðilsmál og það að hve miklu leyti þeir ætla að gera tilraunir á sjávarútveginum, þá væri tíma þeirra mjög vel varið ef þeir tækju skattkerfið og útgjöld hins opinberra til alvarlegrar skoðunar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.