*

miðvikudagur, 11. desember 2019
Leiðari
3. ágúst 2019 12:03

Báknið burt

Nær allir forystumenn hinnar nýju ríkisstjórnar Borisar Johnson aðhyllast klassískt frjálslyndi eða frjálshyggju.

Boris Johnson var boðið velkomið af starfsfólki Downing-strætis 10.
epa

Þegar Boris Johnson varð forsætisráðherra Bretlands í liðinni viku ítrekaði hann að brýnasta verkefni sitt væri að efna lýðræðislega niðurstöðu Brexit-kosningarinnar 2016: Að koma Bretlandi úr Evrópusambandinu hinn 31. október hvað sem tautaði og raulaði. Í dag er 91 dagur til stefnu.

Boris beið enda ekki boðanna við að kynna nýja ríkisstjórn og stjórnarstefnu. Víst er að það verður ekki vandalaust að efna fyrirheitin um Brexit, þingmeirihlutinn er afar tæpur, aðildarsinnar reyna allt til þess að afstýra úrgöngunni og Evrópusambandið virðist ekki ætla að lyfta litla fingri til þess að auðvelda viðskilnaðinn. Takist það ekki verður vafalítið boðað til þingkosninga.

Annað er þó, sem ekki er síður ástæða til þess að gefa gaum varðandi hina nýju ríkisstjórn og stjórnarstefnu Borisar. Það er að hún er fyrsta eiginlega hægristjórnin í Bretlandi um áratugabil og ráðherralið óhrætt við að kannast við borgaraleg lífsviðhorf og frjálshyggju sem bæði markmið og leiðir.

Allar breskar ríkisstjórnir frá falli frú Thatcher hafa hneigst að miðju stjórnmálanna, þar sem áherslan var öll á regluverk og embættismannavald, en árangurinn — jafnt hjá stjórnum Verkamannaflokks og Íhaldsflokks — mældur í ríkisútgjöldum fremur en afrakstri og afleiðingum. Jú, þær muldruðu allar um einstaklingsfrelsið og mátt hins frjálsa markaðar, en gerðirnar bentu í öfuga átt með útþenslu hins opinbera, verðstýringu og verndarstefnu, auknu regluverki á einkageirann og auknum afskiptum af lífsháttum og lífstíl borgaranna. Líkt og raunin hefur verið víðar á Vesturlöndum, hvort sem menn gefa sig út fyrir að vera til hægri eða vinstri.

Nær allir forystumenn hinnar nýju ríkisstjórnar Borisar Johnson aðhyllast klassískt frjálslyndi eða frjálshyggju; eru afdráttarlausir talsmenn frelsis, jafnt hvað varðar einstaklinga og athafnalíf; boðar frelsi frá ríkisafskiptum, ráðdeild og skattalækkanir, fríverslun og frjálst framtak, en umfram allt þá grundvallarafstöðu að fólk kunni sjálft best fótum sínum forráð. Þar með er auðvitað ekki sagt að frjálshyggjan taki völdin í Bretlandi. Boris hefur bæði boðað skattalækkanir og verulega aukningu ríkisútgjalda eftir hinn meinta aðhaldsáratug. Það er hvorki ávísun á lágmarksríki né jafnvægi í ríkisrekstri, en markmiðið sjálfsagt að örva atvinnulíf og liðka fyrir milliríkjaverslun til þess að minnka óvissuna og nýta tækifærin vegna Brexit til fullnustu. En það er vert að hafa í huga að meðal nánustu ráðgjafa Borisar eru þeir Dominic Cummings og Michael Gove, sem báðir hafa þá hugsjón helsta að umbylta stjórnsýslunni, gera hana léttari í vöfum og skila borgurunum bæði fjármunum og frelsi til athafna.

Það er full ástæða fyrir Íslendinga til þess að fylgjast grannt með þeirri þróun. Líkt og kom fram í einstaklega athyglisverðri blaðagrein Héðins Unnsteinssonar hjá Capacent í liðinni viku er íslenska stjórnkerfið bæði einkennilega umfangsmikið og þungt í vöfum, kostnaðarsamt og ómarkvisst. Sem auðvitað er hálfu einkennilegra þegar smæð þjóðarinnar er höfð í huga. Þó er ekki eins og engum hafi flogið þetta í hug áður, stjórnmálamenn í öllum flokkum hafa oftlega vikið að því á umliðnum árum. Samt er um þriðjungur vinnuaflsins á vegum hins opinbera með einum eða öðrum hætti og útgjöld hins opinbera eru um 40% af VLF og sennilega enn á uppleið. Þar virðist litlu skipta hvort valdhafarnir segjast vera til hægri eða vinstri við miðju, báknið sigrar alltaf.

Viðskiptablaðið óskar Boris því allra heilla af hóflegri bjartsýni, en ríkisstjórn hans þarf þó ekki að verða nema hóflega ágengt í að halda afskiptasemi hins opinbera í skefjum og láta framtakssemi einstaklinganna njóta sín til þess að það megi mikið af henni læra.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.