*

sunnudagur, 5. desember 2021
Óðinn
4. mars 2019 19:08

Baksýnisspegill Helga Magnússonar

Ímyndar sér einhver að hugmyndir frjálslyndra manna hefðu öðlast sömu áhrif og varanleg án Davíðs?

Helgi Magnússon gaf út á dögunum endurminningar sínar, Lífið í lit, sem Björn Jón Bragason skrifaði.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Helgi Magnússon fjárfestir, sem ekki er ákaflega aldurhniginn maður, gaf út ævisögu sína — Lífið í lit — á dögunum, en hana skráði sagnfræðingurinn Björn Jón Bragason. Í upphafi bókarinnar segir Helgi að hann hafi verið í vafa um hvort hann ætti að líta um öxl og segja sögu sína. Fyrir sitt leyti fagnar Óðinn framtakinu fyrir margra hluta sakir. 

* * * 

Það snertir ekki Helga einan og þátttöku hans í íslensku atvinnulífi, fjölskrúðug og viðburðarík sem hún er. Það er til dæmis fróðlegt að kynnast sögu manna eins og föður Helga og afa. Þeir sem fengust viðskipti um miðja síðustu öld og í raun allt fram til loka 20. aldarinnar bjuggu við allt annan veruleika en við eigum að venjast í dag. Sumt nánast ótrúlegt, en jafnframt áminning um hvað menn geta látið yfir sig ganga, oft í viðjum vanans, en líka vegna viðtekinnar skoðunar um að svona sé þetta nú bara. Flest af því voru þó mannanna verk: Verðbólgubál, haftastefna, pólitísk afskipti af bönkum og viðskiptalífi, svo eitthvað sé nefnt. 

* * * 

Önnur ástæða er Hafskipsmálið, sem Helgi gefur margvíslega innsýn í, enda löggiltur endurskoðandi félagsins. Þótt mikið hafi verið fjallað um Hafskip, ótal blaðagreinar og allnokkrar bækur skrifaðar, þá fennir skjótt yfir söguna og lærdómar hennar gleymast. Hafskipsmálið má aldrei gleymast. Fyrri saksóknarinn ákværði í 450 atriðum, en þegar hann reyndist vanhæfur var skipaður nýr saksóknari. Sá var prófessor í refsirétti við lagadeild Háskóla Íslands samfleytt í 37 ár og grisjaði hann ákæruliðina niður í 255. Dómstólar höfnuðu hins vegar öllum veigumestu ákæruatriðunum, en sakfellt var fyrir 5 í héraði og 20 í Hæstarétti. Án þess að hér sé tekin afstaða til sakarefna, þá blasir við af tölfræðinni að bæði rannsókn og ákvörðun um ákæru var verulega ábótavant. 

* * * 

Síðast en ekki síst varpar Helgi skemmtilegu ljósi á líf sitt, samferðamenn og á stundum andstæðinga. Hann er langorðari þegar kemur að því að lýsa mannkostum manna sem honum er vel við en löstum hinna, sem honum líkar verr við. Það er til eftirbreytni. 

* * * 

Í bókinni er að finna skemmtilegar lýsingar á mönnum, sem mörgum lesendum Viðskiptablaðsins eru eflaust kunnir. Má þar nefna kennara Verzlunarskólans, Úlfar Kristmundson stærðfræðikennara, Valdimar Hergeirsson hagfræðikennara og Egil Stardal sögukennara. 

* * * 

Í grundvallaratriðum eru Óðinn og Helgi Magnússon sammála um margt. Í raun um velflest málefni, en ekki endilega um alla menn. Vert er að fara yfir hið helsta sem Óðin og höfundinn greinir á um. 

* * * 

Evran og ágæti hennar 

Helgi Magnússon er einn þeirra í íslensku samfélagi sem telja að íslenska krónan verði að víkja og í staðinn skuli að taka upp evru. Óðinn er sammála því að Ísland sé lítið myntsvæði og sveiflurnar geti verið miklar í takt við gæftir í atvinnulífi. En sveiflurnar hafa einnig verið miklar á öðrum helstu gjaldmiðlum; jeninu, pundinu og Bandaríkjadal. Að evrunni ógleymdri. Svo rökin um sveiflur og flökt á krónunni eru hreint ekki jafnhaldbær og margir vilja vera láta. 

* * * 

Málflutningur evrusinna á Íslandi hefur því miður einkennst mjög af því að villa venjulegu fólki sýn. Ágætt dæmi um það er umræðan um vexti, sem lætur vel í eyrum margra sem þykir nóg um hve seint sækist að borga upp fasteignalánin. Vextir á evrusvæðinu eru afar lágir, satt er það, en það er ekki vegna þess að evran sé svo traustur og hagkvæmur gjaldmiðill eða hagstjórn á Evrusvæðinu til stakrar fyrirmyndar. Öðru nær. Nei, ástæðan fyrir því hve vextir eru lágir á Evrusvæðinu er sú að þar er víðast hvar lítill sem enginn hagvöxtur, jafnvel samdráttur og sums staðar kreppa. Vaxtastigið á Evrusvæðinu – stýrivextir eru neikvæðir, líkt og áhætta sé þar ekki til – er ósjálfbært til lengdar, það viðurkenna allir. En í þeim járnum sem efnahagslífið er þar víða, er þess lítil von í bráð. Þykir evrusinnum það til eftirbreytni. 

* * * 

Helgi nefnir það einnig evrunni til ágætis, að á Íslandi hafi orðið bankahrun en ekki í evrulöndunum, líkt og hún hafi í eðli sínu gert það að verkum. En hvers vegna? Jú, vegna þess að ríkissjóðir evrulandanna dældu ásamt Evrópska seðlabankanum fé inn í bankana. Almenningur var látinn greiða fyrir skuldir óreiðumannanna. Varla vildi Helgi að íslenski ríkissjóðurinn bjargaði bönkunum? Það hefði kostað hundruð eða þúsundir milljarða króna. Og hafi mönnum fundist Íslendingar hafa sætt atgangshörku í hruninu, þá mættu þeir minnast þeirrar svívirðu sem frændur okkar Írar máttu þola á þeim dögum af hálfu Evrusvæðisins. Enginn skyldi halda að Íslendingum hefði verið sýnd meiri nærgætni hefðu þeir verið búnir að taka upp evruna. 

* * * 

Menn skyldu ekki gleyma því að gervallt bankakerfi Evrópu riðaði tvisvar til falls árið 2008 og það er enn ákaflega veikburða. Sjálft gengissamstarfið var svo nánast búið spil 2010 og síðan hefur gengið á með evrukreppum, efnahagstortímingu á Grikklandi, óstjórnlegu atvinnuleysi í löndunum við Miðjarðarhaf (það er hátt í hinum evruríkjunum líka), Ítalía stefnir nú í hreinar ógöngur og flest bendir til þess að enn ein evrukreppan sé yfirvofandi. 

* * * 

Helgi segir í upphafi bókarinnar að hann hafi kappkostað við að segja frá mönnum og málefnum eins hlutlægt og hann gæti. Þegar bókin er lesin sést vel hversu aðstæður þeirra sem stunda viðskipti hafa batnað mikið á Íslandi á þeim tíma sem afinn, faðirinn og sonurinn hafa fengist við þá iðju. 

* * * 

Davíðs þáttur Oddssonar 

Hvergi er þess þó getið hverju eða hverjum það er að þakka. Þar finnst Óðni skorta á hlutlægni, sanngirni og sannmæli. Í kjölfar þess að Davíð Oddsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins og varð forsætisráðherra voru stigin einhver stærstu og mikilvægustu framfaraskref í sögu Íslands. Hagkerfið færðist loks frá ríkisafskiptum, höftum, háum sköttum og fyrirgreiðslupólitík til vestræns markaðshagkerfis. 

* * * 

Menn þurfa ekki að vera sammála Davíð Oddssyni um allt. Það hefur líklegast enginn verið, ekki einu sinni Davíð sjálfur! En um leið og menn kvarta undan ómögulegum stjórnmálamönnum, líkt og Helgi gerir í lok bókarinnar, þá eiga þeir hinir sömu menn að láta þá sem gerðu gagn, virkilegt gagn, njóta sannmælis. Ímyndar sér einhver að árangurinn hefði verið jafnmikill og varanlegur ef Þorsteinn Pálsson hefði áfram verið formaður Sjálfstæðisflokksins? Að hugmyndir frjálslyndra manna hefðu öðlast sömu áhrif og fótfestu og raunin varð í stjórnartíð Davíðs? 

* * * 

Óðinn er sammála Helga um það að nútímastjórnmálamenn séu síðri en þeir sem voru áberandi fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Endum þetta á einum slíkum. 

* * * 

Davíð Oddsson gagnrýndi skýrslu um lífeyrissjóðina í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í apríl 2012 og kallaði hana meðal annars kattarþvott. Helgi Magnússon, sem hefur marga lífeyrisfjöruna sopið, var vægast sagt ósáttur við skrifin og svaraði Davíð fullum hálsi í grein í aðsendri grein á Vísi. 

* * * 

Í greininni vitnar Helgi í tölvupóst: „Djöfull þykir mér illt fyrir okkur að sitja undir svona skítkasti frá manni sem lánaði „fjárglæframönnunum“ í Kaupþingi 80 milljarða úr gjaldeyrisvarasjóði Seðlabankans einungis 48 klukkutímum áður en Kaupþing fór á hausinn. Og svo fór Seðlabankinn sjálfur á hausinn. Þarf lífeyrissjóðafólkið að sitja undir þessu?“ 

* * * 

Varla er Helgi að vitna í þennan tölvupóst árið 2012 og aftur árið 2019 í bókinni nema hann væri sammála innihaldinu. Því vill Óðinn leiðrétta þennan þráláta misskilning. 

* * * 

Símtal Davíðs og Geirs 

Haustið 2017 birti Morgunblaðið samtal Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra og Geirs Haarde forsætisráðherra. 

Davíð: Halló. 

Geir: Sæll vertu. 

Davíð: Sæll. Það sem ég ætlaði að segja þér, sko, sko… við út af fyrir sig getum í dag skrapað saman 500 milljónir evra, en náttúrlega, en erum þá komnir inn að beini og þá gætum við hjálpað Kaupþingi í einhverja 4-5 daga en þá getum við ekki hjálpað Landsbankanum líka, sko. 

Geir: Nei. 

Davíð: Þú ert að tala um það að við eigum frekar að reyna að hjálpa Kaupþingi. 

Geir: Það slær mig þannig sko og mér fannst þeir vera líka á þeirri línu í gærkvöldi, allavega þessir Morgan [Stanley] menn.  

Davíð: Ég býst við því að við fáum ekki þessa peninga til baka. Þeir segja að þeir muni borga okkur eftir 4-5 daga en ég held að það séu ósannindi… eða við skulum segja óskhyggja.  

* * * 

Geir vildi lán en ekki Davíð 

Augljóst er af samtalinu að Geir Haarde vildi lána Kaupþingi, en Davíð Oddsson ekki. En þá er sagan ekki öll sögð. 

* * * 

Einn ráðherranna reyndi að sannfæra samráðherra sína um að veita lánið. Þessi ráðherra átti fund með Geir Haarde stuttu áður en símtalið átti sér stað. Þessi ráðherra átti persónulegra hagsmuna að gæta af hlutabréfum í Kaupþingi. 

* * * 

Þessi ráðherra heitir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. 

* * * 

Á endanum mun Þorgerður þurfa gera hreint fyrir sínum dyrum. Tíminn vinnur með sannleikanum. Þá mun einhver ráðherranna tala um þetta opinberlega. Þá mun Helgi Magnússon án efa skipta um skoðun. Því Helgi Magnússon getur ekki, ekki frekar en Óðinn, umborið pólitíska spillingu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.