Stundum er eins og fjölmiðlar kveiki ekki á perunni og átti sig ekki á fréttnæmi þess sem birtist á eigin miðlum. Um kvöldmatarleytið á kjördag birtist eftirfarandi frétt á kosningaþræði sem blaðamenn Vísis spunnu fram á talningarnóttina:

Þónokkur munur er á fylgi flokkanna í Reykjavík á kjörfundi og utan kjörfundar. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut til að mynda 28,5 prósent atkvæða sem greidd voru utan kjörfundar en aðeins 23 prósent á kjörfundi.

Kjósendur Samfylkingarinnar voru sömuleiðis líklegri til að kjósa fram í tímann en munurinn var þó aðeins um tvö prósent.

Kjósendur Sósíalistaflokks Íslands eru líklegasti til að mæta á kjördag en flokkurinn hlaut átta prósent atkvæða sem greidd voru á kjörfundi en fimm prósent utan.

Páll Hilmarsson, sérfræðingur hjá Gagnaþjónustu Reykjavíkur, deilir tölfræðinni á Twitter-síðu sinni.“

Það sem er merkilegt við þetta er að þetta bendir til þess að lög og reglur hafi verið sveigðar – það er að segja ef þetta er allt saman satt og rétt – enda stangast þetta á við ákvæði kosningalaga um meðhöndlun utankjörfundaratkvæða og 14. grein regluverðar um talningu atkvæða og meginreglunnar um blöndun atkvæða. Það að utankjörfundaratkvæðum hafi verið haldið til hliðar og talin sér og atkvæði utankjörfundar hafi verið sérstaklega sundurgreind brýtur í bága við kosningalög eða reglugerð um talningu atkvæða og er ekki í samræmi við framkvæmdina undanfarna áratugi, hvorki í Reykjavík né annars staðar.

Þessi frétt er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.