*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Leiðari
17. janúar 2016 11:05

Banvæn lækning

Þegar gjaldfær fyrirtæki verða keyrð í þrot vegna trassaskapar við skil á reikningum er lækningin orðin banvæn.

Haraldur Guðjónsson

Þegar hið opinbera kemur auga á vandamál og vill leysa það er alltaf sú hætta fyrir hendi að lækningin verði banvænni en sjúkdómurinn sem lækna á. Þetta á að sjálfsögðu ekki við í öllum tilvikum, en tilhneigingin er engu að síður til staðar. Margan vanda er einfaldlega ekki hægt að uppræta alfarið nema með því að breyta samfélaginu og reglum þess svo harkalega að það yrði óþekkjandi eftir.

Eina leiðin til að koma algerlega í veg fyrir banaslys í umferðinni er að banna bifreiðar, nokkuð sem engum dettur alvarlega í hug að leggja til. Hins vegar er hægt að haga málum þannig að bílslysum sé haldið í lágmarki, meðal annars með áherslu á öryggi við hönnun og framleiðslu bíla og við lagningu vega. Það er með umferðina eins og annað að finna verður jafnvægi og meðalveg milli mismunandi hagsmuna.

Hið sama á við um rekstrarumhverfi fyrirtækja. Það er slæmt að óprúttnir aðilar geti hoppað á milli kennitalna með rekstur sinn og skilið eftir skuldir í eignalausum skúffum. Það er hins vegar hægt að ganga of langt í því að fyrirbyggja þennan ósið, því ef breyttar reglur bitna með of harkalegum hætti á saklausum þá er enginn ávinningur með breytingunum. Í nýju frumvarpi um ársreikninga á að gera nokkrar umsvifamiklar breytingar á þeim reglum sem hingað til hafa gilt um skil og birtingu á ársreikningum fyrirtækja. Smæstu fyrirtæki munu ekki þurfa að skila ársreikningum til Fyrirtækjaskrár og þótt það muni að einhverju leyti gera vinnu viðskiptablaðamanna erfiðari er erfitt að mæla gegn þessari tillögu.

Fyrirtækin munu áfram þurfa að skila skattframtali og standa skil á opinberum gjöldum, en munu losna við þann kostnað og umstang sem fylgir skilum á ársreikningi. Hins vegar er í frumvarpinu gert ráð fyrir að stjórnvöld geti krafist gjaldþrotaskipta á fyrirtækjum sem ekki skila ársreikningi til opinberrar birtingar.

Samtök atvinnulífsins gera þetta atriði að umtalsefni á vefsíðu sinni og benda á að þarna sé allt of langt gengið gagnvart litlum fyrirtækjum og örfyrirtækjum, sem ekki losna við reikningsskilaskylduna. „Ekki verður séð hver ávinningur ríkisins eða samfélagsins af þessari ráðstöfun geti orðið. Hafa verður í huga að fyrirtækin eru gjaldfær, í þeim kunna að vera eignir. Að grípa fram fyrir hendur eigenda um ráðstöfun eigna sinna er gríðarlegt inngrip af hálfu stjórnvalda sem eðlilegt er að verði skoðað mun nánar m.a. með hliðsjón af eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Eðlilegt er að krefjast þess að stærri og jafnvel meðalstór fyrirtæki birti reikninga sína og þá þurfa að vera til staðar ákvæði til að bregðast við ef ekki er skilað. Ákvæðin verða hins vegar að vera í samræmi við tilefnið,“ segir í áliti SA.

Undir þetta má taka heils hugar. Þegar gjaldfær fyrirtæki verða keyrð í þrot vegna trassaskapar við skil á reikningum – ekki opinberum gjöldum, heldur ársreikningum – er lækningin orðin banvæn.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.